- Kjarnyrt
- Posts
- Það að eiga heimili eru mannréttindi, ekki forréttindi
Það að eiga heimili eru mannréttindi, ekki forréttindi
Saga húsnæðismála á Íslandi undanfarna áratugi einkennist af stórtækum mistökum sem hafa haft miklar og neikvæðar afleiðingar. Staðan í dag er sú að það ríkir neyðarástand á húsnæðismarkaði. Að leysa það ástand verður ein stærsta áskorun næstu ríkisstjórnar.
Fyrir næstum því einni öld, nánar tiltekið árið 1929, var samþykkt frumvarp um stofnun verkamannabústaða á Íslandi. Það leiddi til þess að hér varð til félagslegt íbúðakerfi sem óx jafnt og þétt í 70 ár. Tilgangur þess var tvíþættur. Annars vegar að gefa tekjulágu fólki tækifæri til að kaupa íbúðir fyrir félagsleg lán sem voru með lægri vöxtum, lengri lánstíma og þannig úr garði gerð að hægt var að fá lán fyrir hærra hlutfalli af kaupverði en hjá öðrum lánveitendum. Hins vegar var hægt að gerast leigjandi og greiða fyrir hóflega leigu, sem rúmaðist innan ráðstöfunartekna viðkomandi. En mikilvægast af öllu var að þetta fyrirkomulag tryggði fólki húsnæðisöryggi, lífsgæði sem ansi margir íbúar landsins vita ekki lengur hvað felur í sér.
Fyrir 26 árum síðan, nánar tiltekið árið 1998, þá voru félagslegar íbúðir á landinu rúmlega ellefu þúsund talsins og kerfið hafði vaxið sérstaklega hratt á síðustu áratugum tuttugustu aldarinnar. Taka verður inn í reikninginn að íbúar landsins í upphafi þess árs voru 272.381 talsins. Um mitt þetta ár voru þeir orðnir 386.970 og hafði fjölgað um 114.589 á tímabilinu. Það eru fleiri en búa í dag í Kópavogi, Hafnarfirði, Garðabæ, Seltjarnarnesi og í Mosfellsbæ til samans.
Svartur dagur fyrir fátækt fólk
Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem mynduð var eftir alþingiskosningar vorið 1995 og sat í þrjú kjörtímabil, innleiddi nýfrjálshyggju í íslenskt samfélag. Á meðal þess sem hún beindi sjónum sínum að voru húsnæðismál. Stjórnin lagði niður Húsnæðisstofnun ríkisins, hætti félagslegum lánveitingum og aflagði alla lánastarfsemi Byggingasjóðs verkamanna. Félagslega íbúðarkerfið var lagt niður með lögum sem tóku gildi á síðasta ári síðustu aldar.
Þetta er svartur dagur í sögu félagslegrar aðstoðar í húsnæðismálum fátæks fólks á Íslandi.
Ég hef áður skrifað um þau mótmæli sem ráðist var í vegna þessarar aðgerðar árið 1999. Alls 40 verkalýðs- og félagasamtök tóku þátt í þeim og Jóhanna Sigurðardóttir, síðar forsætisráðherra og formaður Samfylkingarinnar, flutti lengstu þingræðu sögunnar við aðra umræðu málsins til að sýna fram á andstöðu sína gegn því. Þegar málið var svo afgreitt flutti Jóhanna aðra eftirminnilega ræðu þar sem hún sagði meðal annars: „Með atkvæðagreiðslunni sem hér fer fram er innsigluð ósvífnasta og grimmilegasta atlagan sem við höfum séð um áratuga skeið að kjörum fátæks fólks á Íslandi. Þetta er svartur dagur í sögu félagslegrar aðstoðar í húsnæðismálum fátæks fólks á Íslandi.“
Ein stærstu hagstjórnarmistökin
Þeir sem sátu í félagslegu leiguíbúðunum á nákvæmlega þeim tíma sem kerfið var aflagt fengu að kaupa eignirnar á lágu verði. Þessar breytingar bjuggu til óhjákvæmileg ruðningsáhrif á húsnæðismarkaði og verð hækkaði. Þá gátu þessir heppnu sem unnu í húsnæðislottóinu selt félagslegu leiguíbúðirnar sem þeir fengu að kaupa á lágu verði og leyst út myndarlegan hagnað. Við það jókst eigið fé nokkur þúsund manns einu sinni. En félagslega íbúðarkerfið hvarf.
Í staðinn þurfi tekjulágt fólk að fara að keppa á sömu forsendum og allir aðrir. Þeim var gert að fara inn á almenna markaðinn og kaupa íbúðir. Sú staða ýtti undir pólitískan hvata til að gera þessum hópi, sem glímdi við miklar hækkanir á íbúðarverði á sama tíma og aðgengi að lánum var skert, gylliboð. Það boð kom í aðdraganda kosninganna 2003, var sett fram af Framsóknarflokknum og fól í sér að veita fólki 90 prósent lán til húsnæðiskaupa. Í skýrslu rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð, sem birt var sumarið 2013, var haft eftir Páli Péturssyni, fyrrverandi félagsmálaráðherra Framsóknarflokks, að hugmyndin hefði ekkert verið rædd innan flokksins fyrr en rétt fyrir kosningar og það hefði verið „einkennilegt hvað [hún] fæddist snarlega“. Þetta var því ekki úthugsuð langtímaaðgerð til að bæta húsnæðismarkað. Þetta var pólitískt skammtíma-töfrabragð til að ná í atkvæði.
Töfrabragðið virkaði, stjórnarsamstarfið var endurnýjað og árið 2004 var útlánum og fjármögnun Íbúðalánasjóðs breytt þannig að húsbréfakerfið var lagt niður og þess í stað var íbúðalánakerfið með beinum peningalánum tekið upp. Hámarkslánsfjárhæð var hækkuð og veðhlutfall lána hækkað úr 65 í 90 prósent.
Auglýsing frá Framsóknarflokknum fyrir kosningarnar 2003.
Dómur sögunnar yfir þessari aðgerð liggur nokkurn veginn fyrir. Í skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis um hrunið, sem kom út 2010, sagði að nefndin hafi flokkað ákvarðanir ríkisstjórnarinnar varðandi endurskipulagningu húsnæðismarkaðar og hækkun hámarkslánshlutfalls Íbúðalánasjóðs sem ein af stærri hagstjórnarmistökum í aðdraganda falls bankanna. Í skýrslu Rannsóknarnefndar um Íbúðalánasjóð, sem birt var árið 2013, sagði einfaldlega um þessa breytingu: „Þessi vegferð endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt.“
Byggðum of lítið og tókum íbúðir undir gesti
Þessi „lausn“ varð að sjálfstæðum vanda sem ekki hefur tekist að vinda ofan af tveimur áratugum síðar. Hún blés upp bólu. Þetta var pólitísk ákvörðun sem gerði það að verkum að eftirspurn eftir íbúðum til kaups og leigu á almenna markaðnum jókst margfalt á einni nóttu. Lágtekjufólk og félagslega viðkvæmt var skilið eftir úti í kuldanum og möguleikum þeirra til að koma þaki yfir höfuðið fækkað stórkostlega.
Þessi „lausn“ varð að sjálfstæðum vanda sem ekki hefur tekist að vinda ofan af tveimur áratugum síðar. Hún gerði vandann raunar verri og blés bólu.
Staðan varð enn verri eftir bankahrunið. Frá byrjun árs 2009 og út árið 2016, á sjö ára tímabili, komu einungis 6.885 nýjar fullbúnar íbúðir inn á íslenskan markað. Til að setja þá tölu í samhengi þá er árleg íbúðaþörf á þessu ári einu saman, samkvæmt húsnæðisáætlun sveitarfélaga, 4.208 íbúðir. Það er rúmlega 60 prósent af þeim íbúðum sem byggðar voru á áðurnefndu sjö ára tímabili. Eftirspurn varð því langt umfram framboð og við höfum aldrei náð að vinna upp þennan slaka.
Ofan á það fjölgaði ferðamönnum úr hálfri milljón í meira en tvær milljónir á nokkrum árum án þess að húsnæðisinnviðir, á borð við hótel, væru til staðar til að hýsa þá alla. Því var hluti almenna íbúðamarkaðarins tekinn undir það líka. Airbnb gisting á Íslandi tók af stað árið 2015 þegar erlendum ferðamönnum tók að fjölga verulega. Hún náði hámarki yfir sumarmánuðina árin 2017, 2018 og 2019, en þá voru jafnan yfir þrjú til fjögur þúsund íbúðir skráðar til útleigu í heild sinni á leigusíðunni. Þannig er staðan enn. Fjöldi íbúða sem voru í útleigu í gegnum Airbnb voru 3.716 í byrjun ágústs síðastliðins.
OECD-meistarar í íbúðaverðshækkunum
Svo er ferðaþjónusta mannaflsfrekur þjónustugeiri með litla framleiðni. Til að hann gangi þarf mikið af starfsfólki. Það kom að utan, og þurfti að búa einhversstaðar. Vöxtur hennar í að verða stærsta gjaldeyrisskapandi stoðin undir íslenska efnahagskerfinu leiddi líka til aukinnar eftirspurnar eftir starfsfólki í allskyns öðrum geirum. Fyrir vikið hefur erlendum ríkisborgurum sem búa á Íslandi fjölgað úr 18.820 frá því í lok árs 2010 í 65.870 um mitt þetta ár. Það eru fimm þúsund fleiri en búa í Reykjanesbæ og Akureyri samanlagt.
Ef horft er á höfuðborgarsvæðið, þar sem næstum tveir af hverjum þremur íbúum landsins búa, hefur íbúðaverð nálægt því þrefaldast í krónum talið. Í úttekt OECD sem birt var í fyrra, þar sem greint var frá því að íbúðaverð hefði hækkað meira á Íslandi en í nokkru öðru landi sem á aðild að stofnuninni, kom fram að þegar búið var að leiðrétta fyrir verðbólgu hafði verðið rúmlega tvöfaldast. Hækkað um 104 prósent á tíu árum. Til samanburðar hækkaði húsnæðisverð í Noregi að raunvirði um 23 prósent á sama tíma.
Mesti hækkunarfasinn hefur verið í tíð sitjandi ríkisstjórnar. Frá byrjun árs 2020 hefur íbúðaverðið hér hækkað um 69 prósent í krónum talið.
Leiguverð hefur líka hækkað, alls um 185 prósent frá byrjun árs 2011, sem hefur skilað því að um það bil helmingur leigjenda býr við íþyngjandi húsnæðiskostnað, en íþyngjandi húsnæðiskostnaður er skilgreindur sem húsnæðiskostnaður sem nemur að minnsta kosti 40 prósent af ráðstöfunartekjum.
Þessar hækkanir eru langt umfram verðbólgu og eru meginástæða þess að hlutfallsleg skuldastaða íslenskra íbúðareigenda er skapleg. Þeir sem geta ekki komist inn á húsnæðismarkað, fátækasta og viðkvæmasta fólkið, sitja eftir með afleiðingarnar.
Skipt um kerfi og reynt að halda í
Til að takast á við þessa stöðu þá skiptu stjórnvöld um húsnæðisstuðningskerfi. Í því fólst að draga tennurnar úr vaxtabótakerfinu, sem gagnaðist best þeim tekjulægstu, og innleiða þess í stað skattfrjálsa nýtingu á séreignarsparnaði, sem nýtist fyrst og síðast tekjuhæstu hópum samfélagsins. Um það fjallaði ég hér:
Niðurlagning félagslega íbúðakerfis ríkisins færði fyrirliggjandi vanda og áskoranir yfir á aðra, aðallega sveitarfélög og á undanförnum árum hið svokallaða almenna íbúðakerfi. Það er tilraun til að endurreisa vísi að félagslegu íbúðarkerfi með einhverri aðkomu ríkissjóðs sem var lögfest árið 2016 með lögum um almennar íbúðir. Markmið þeirra laga var að bæta húsnæðisöryggi þeirra sem eru undir ákveðnum tekju- og eignamörkum með því að auka aðgengi að öruggu og viðeigandi leiguhúsnæði. Þannig sé stuðlað að því að húsnæðiskostnaður sé í samræmi við greiðslugetu þeirra sem leigja húsnæðið og fari að jafnaði ekki yfir 25-30 prósent af tekjum þeirra að meðtöldum bótagreiðslum.
Sjálfseignarstofnanir eins og Bjarg, sem hefur þegar afhent yfir eitt þúsund íbúðir og er með annað eins á leiðinni eða í undirbúningi, og Brák hafa byggt og keypt fjölda íbúða sem ætlaðar eru leigjendum undir ákveðnum tekju- og eignamörkum. Auk þess á Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) og rekur Bríeti leigufélag sem er rekið án hagnaðarsjónarmiða. Sveitarfélög eru líka stórtæk í eignarhaldi á félagslegu húsnæði og eru nokkuð stöðugt að bæta við það. Þar eru Félagsbústaðir, dótturfélag Reykjavíkurborgar, lang umsvifamest en félagið á alls um 3.111 íbúðir.
Ómögulegt fyrir marga að kaupa
Samkvæmt HMS eru nauðsynlegar mánaðartekjur fyrstu kaupenda til að eiga efni á afborgunum af 30 ára verðtryggðu húsnæðisláni á meðalíbúð með 85 prósent veðsetningarhlutfalli 1,1 milljón króna í júlí 2024. Til samanburðar hefðu fyrstu kaupendur einungis þurft að hafa 630 þúsund krónur í mánaðartekjur til þess að geta staðið straum af afborgunum af sams konar húsnæðisláni á meðalíbúð með sömu greiðslubyrði í ársbyrjun 2020. Nauðsynlegar mánaðartekjur til að ráða við afborganir af meðalíbúð hafa því hækkað um rúm 70 prósent á tímabilinu en launavísitala Hagstofu hefur aðeins hækkað um 43 prósent frá janúar 2020 til júní 2024 og ráðstöfunartekjur á mann um tæplega 36 prósent. Þessi þróun hefur gert það að verkum að ómögulegt er fyrir stóra hópa að kaupa sér húsnæði án stuðnings frá foreldrum. Um það fjallaði ég hér:
Þessi þróun var að eiga sér stað á sama tíma og nýjum íbúðum í fyrra fjölgaði um 3.079 alls. Miðað við mannfjöldaþróun hefði þurft að byggja fjögur þúsund slíkar til að uppfylla eftirspurnina eftir íbúðum og því ljóst að uppbyggingin hefur alls ekki haldið í við vaxandi íbúðaþörf. Samkvæmt fyrirliggjandi mati sveitarfélaga þarf að bæta við 40.489 íbúðum á næstu níu árum – frá 2025 til 2033 – sem gera næstum 4.500 íbúðir að meðaltali á ári. Það hafa aldrei verið byggðar yfir fjögur þúsund nýjar íbúðir á einu ári í Íslandssögunni og árin sem við höfum náð að skila yfir þrjú þúsund íbúðum eru einungis þrjú talsins.
Þúsundir bíða í mörg ár
Biðlistar eftir íbúðum í almenna eða félagslega kerfinu eru á sama tíma mjög langir. Á þeim eru mörg þúsund manns og biðtíminn er talinn í árum. Þeir sem geta ekki keypt sér húsnæði og komast ekki að í almenna eða félagslega kerfinu standa því frammi fyrir að þurfa að leigja af hagnaðardrifnum leigufélögum eða öðrum einkaaðilum sem leigja út íbúðir. Á þeim markaði eru tvö félög langstærst: annars vegar Heimstaden, sem á um 1.600 íbúðir og var nokkuð nýlega keypt af íslenskum lífeyrissjóðum, og hins vegar Alma leigufélag, sem er í eigu Mata-fjölskyldunnar, og á tæplega 1.100 íbúðir.
Samkvæmt nýlegri greiningu HMS, sem birt var fyrir um mánuði, voru flestir samningar um markaðsleigu á höfuðborgarsvæðinu í kringum 290 þúsund krónur á mánuði, á meðan flestir samningar um almenna leigu voru í kringum 160 þúsund krónur. Þar munar um 130 þúsund krónum á mánuði.
Greiningin sýndi líka að markaðsleiga á höfuðborgarsvæðinu hafði hækkað um 8,2 prósent umfram verðbólgu á ársgrundvelli, á meðan almenn leiga hækkaði að meðaltali í takt við verðbólgu.
Neyðarástand sem okkur ber skylda til að leysa
Allt ofangreint sýnir að það er neyðarástand á húsnæðismarkaði. Við því þarf að bregðast bæði með stórtækum langtíma aðgerðum en ekki síður skammtíma aðgerðum sem auka framboð húsnæðis sem þegar er til staðar, en er að einhverjum ástæðum ekki nýtt sem heimili. Þetta er ein stærsta áskorun sem íslenskt samfélag stendur frammi fyrir. Það þarf að skilgreina íbúðir sem heimili, ekki fjárfestingarvöru og skilgreina húsnæðisöryggi sem mannréttindi, ekki forréttindi.
Það þarf að hætta að innleiða hvata til að auka eftirspurn og grípa þess í stað til fjölbreyttra aðgerða til að auka framboð. Það á sérstaklega við um íbúðir handa þeim sem minnst hafa á milli handanna. Að þeirri stefnubreytingu þarf ríkið að koma ásamt sveitarfélögum og eftir atvikum stéttarfélög og ýmis félagasamtök. Jafnvel lífeyrissjóðir.
Ísland er gott og ríkt land. Hér hefur ýmislegt breyst til mikils batnaðar á síðastliðnum áratugum. Sú staðreynd má hins vegar ekki breiða yfir það að hér er margt gert skakkt.
Í samfélagi sem telur tæplega 387 þúsund manns, og er á meðal ríkustu landa heims aðallega vegna þess að auðlindir í sameiginlegri eigu þjóðar eru nýttir til að skapa hagvöxt, hlýtur að vera hægt að skapa húsnæðiskerfi þar sem flestum, ef ekki öllum, er tryggt húsnæði á verði sem þau ráða við.
Reply