• Kjarnyrt
  • Posts
  • Það er gott að eiga mikinn pening á Íslandi

Það er gott að eiga mikinn pening á Íslandi

Tíu prósent landsmanna eiga 53 prósent af hreinum eignum íslenskra heimila. Sami hópur þénar 70 prósent allra fjármagnstekna í landinu og átti alls 4.850 milljarða króna í eigið fé um síðustu áramót. Sú tala er þó vanmetin, þar sem verðbréf eru ekki metin á markaðsvirði og kvóti ekki á upplausnarvirði. Ef slíkar eignir yrðu seldar fengist miklu meira fyrir þær en bækurnar sýna.

Ísland er auðlindadrifið hagkerfi. Allar stærstu útflutningsgreinar okkar nýta sameiginlegar auðlindir í starfsemi sinni. Það á við um sjávarútveg, orkusölu og ferðaþjónustu. Hér er svo haldið úti örmynt sem, ásamt því að við erum auðvitað örmarkaður með færri íbúa en Duisburg í Þýskalandi, gerir það að verkum að fákeppni ríkir á flestum neytendamörkuðum og þar keppa oftar en ekki, að hámarki, þrír til fjórir aðilar um viðskipti sem íbúar þurfa að eiga við þá. Það á við um fjármálaþjónustu, tryggingar, fjarskipti, matvöru og svo framvegis. 

Fyrir vikið hafa verið uppi skýrar kröfur um að þeir sem hagnast af einkarétti á nýtingu auðlinda sem viðkomandi á ekki, eða leika lykilhlutverk á fákeppnismörkuðum – þar sem er varla stigs- og hvað þá eðlismunur á verðlagningu þeirra sem eiga að vera að keppa við hvorn annan – greiði sanngjarnt afgjald í sameiginlega sjóði svo hægt sé að bjóða upp á betri þjónustu og tækifæri fyrir þolendur þessara kerfa.

Þeim kröfum er oft svarað með því að hér ríki hreinlega meiri jöfnuður en á nokkrum öðrum stað í heiminum og að frekari gjaldtaka dragi einfaldlega úr samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja á alþjóðavísu. Stærðarhagkvæmni sé miklu eftirsóknarverðari en virk samkeppni hjá svona fámennri þjóð. Vandamálin á Íslandi séu of háir skattar og of mikið eftirlit.

Hér verður rýnt í opinberar tölur til að reyna að svara því hvor veruleikinn sé réttur.

Mest bundið í steypu

Hagstofa Íslands birtir einu sinni á ári tölur um eignir og skuldir landsmanna samkvæmt skattframtölum þeirra. Þær eru ein besta mælistikan á það hvernig veraldleg gæði skiptast milli hópa samfélagsins.

Í nýju tölunum, sem sýna stöðuna í lok árs 2023 og innihalda ekki upplýsingar um umtalsverða eign landsmanna í lífeyrissjóðum, kemur fram að eigið fé heimila landsins – þær eignir sem þau eiga umfram það sem heimilin skulda – voru alls 9.134 milljarðar króna um síðustu áramót. Það jókst um 1.386 milljarða króna á einu ári, aðallega vegna þess að húsnæðisverð hélt áfram að hækka mjög skarpt. 

Alls má rekja næstum 83 prósent aukningarinnar á eigin fé til þess að fasteignamat hækkaði milli ára. 

Raunar er það þannig að þorri landsmanna á fyrst og síðast steypu, 80 prósent af öllu eigin fé einstaklinga í landinu er bundið í fasteignum. 

Þeir sem eiga um helming hreinna eigna

Eini hóp­ur­inn sem á um­tals­vert eig­ið fé í öðr­um eign­um en þeim sem bú­ið er í er tekju­hæsta tí­und lands­ins. Sá hópur, sem telur 25.368 fjölskyldur, átti alls um 4.850 milljarða króna í eigin fé um síðustu áramót. Það þýðir að rúmlega helmingur alls eiginfjár í landinu, 53 prósent, var í höndum þessa hóps. Eigið fé hans hefur vaxið um 66 prósent frá árinu 2019. 

Þegar horft er á þann nýja auð sem íslenskum heimilum áskotnaðist í fyrra kemur í ljós að 699 milljarðar króna af honum fóru til efstu tíundarinnar. Það er rúmlega helmingur alls nýs auðs. 

Á sama tíma er eigið fé þess helmings landsmanna sem er með lægstu tekjurnar samanlagt neikvætt um 16,8 milljarða króna. Sá hópur á saman minna en hann skuldar, þótt sú staða sé lituð af því að skuldir umfram eignir eru langmestar í lægstu tekjutíundinni. 

Þrjár efstu tekjutíundirnar eiga samtals eigið fé upp á 8.142 milljarða króna. Það þýðir að restin, 70 prósent heimila landsins, á samtals um 991 milljarða króna. Sem þýðir að þau 30 prósent landsmanna sem eru með hæstar tekjur eiga tæplega 90 prósent eigna en þau 70 prósent sem eru með lægstu tekjurnar eigi tíu prósent þeirra. 

Fyrir liggur að auðsöfnun efsta lagsins í íslensku samfélagi er að aukast. á árunum 2010 til 2020 tóku ríkustu tíu prósent landsmanna til sín 43,5 prósent af öllum nýjum auð sem varð til árlega að meðaltali. Það sem af er yfirstandandi kjörtímabili hefur þetta hlutfall verið hærra. Það var 54,4 prósent árið 2021, 46 prósent árið 2022 og, líkt og áður sagði, 53 prósent í fyrra.

Hinir ríku eru því að verða ríkari, samkvæmt opinberum hagtölum.

Þeir sem láta peninga vinna fyrir sig

Lykilbreyta í þessari þróun er að efsta lagið á ýmsar eignir sem ólíklegt er að aðrir eigi. Svokallaðar fjármagnseignir. Það á peninga sem það getur látið „vinna fyrir sig“ og skapað tekjur. Það eru til að mynda vextir af innlánum, arður eða söluhagnaður af verðbréfum eða leigutekjur af lausafé og af útleigu fasteigna. Þeir sem fá mestar fjár­­­­­­­magnstekjur á Íslandi eru því sá hópur ein­stak­l­inga sem á flest hluta­bréf og flestar fast­­­­eign­­­­ir. Sá hópur sem hefur sankað að sér flestum eign­­­­um. 

Í fyrra hækkuðu vaxtatekjur heimila um 82 prósent frá því sem var árið áður og skiluðu eigendum innstæðna 84 milljörðum króna. Þessi hópur er sigurvegari verðbólgunnar. Mynd: Pexels

Ástæður þess að ríkustu tíu prósentin hafa verið að taka meira til sín af nýjum auð á síðustu árum má meðal annars finna í aðgerðum sem ríkisstjórnin og Seðlabanki Íslands réðust í vegna efnahagslegra afleiðinga kórónuveirufaraldursins. Með þeim var lánsfé gert ódýrara og tækifæri þeirra sem áttu umtalsvert fjármagn til að ávaxta það enn meira, sérstaklega í fasteignum og hlutabréfum sem ruku upp í verði, til að hagnast mikið urðu mýmörg. 

Þeir sem fá skattaafslátt

Samkvæmt skattframtölum voru fjármagnstekjur landsmanna alls 303 milljarðar króna á árinu 2023 og hækkuðu um 61 milljarða króna, eða 25 prósent, milli ára. Af þessum fjármagnstekjum þénaði efsta tekjutíundin 211 milljarða króna, eða um 70 prósent þeirra allra. 

Um þriðjungur af fjármagnstekjum á síðasta ári var arður af hlutabréfum. Efsta tekjutíund landsmanna átti alls verðbréf fyrir 646,7 milljarða króna um síðustu áramót, eða 86 prósent allra verðbréfa. 

Af þessum fjármagnstekjum þénaði efsta tekjutíundin 211 milljarða króna, eða um 70 prósent þeirra allra. 

Þeir sem afla fjármagnstekna borga fjár­­­magnstekju­skatt. Sá skattur er 22 pró­­sent, sem er mun lægra hlut­­fall en greitt er af t.d. launa­­tekj­um, þar sem skatt­hlut­­fallið er frá 31,48 til 46,28 pró­­sent eftir því hversu háar tekj­­urnar eru.

Nokkrar breyt­ingar voru gerðar í álagn­ingu fjár­­­magnstekju­skatts í upp­hafi árs 2021. Eftir þær þarf til að mynda ekki að greiða skatt af vöxt­um, arði og sölu­hagn­aði hluta­bréfa á skipu­­legum verð­bréfa­­mark­aði sem var undir 300 þús­und krónum og frí­­tekju­­mark hjóna var hækkað upp í 600 þús­und krón­­ur. Auk þess er ein­ungis helm­ingur af útleigu íbúð­­ar­hús­næðis til búsetu leigj­anda og sem fellur undir húsa­­leig­u­lög skatt­­skyldur ef ein íbúð er leigð út. Vegna þessa var veittur skattaafsláttur upp á 460 milljónir króna vegna ársins 2023. 

Þá hefur áratugum saman verið það fyrirkomulag hérlendis að tekjuháir einstaklingar geti talið launatekjur fram sem fjármagnstekjur í gegnum einkahlutafélög og þannig komið sér undan því að greiða sömu skatta og annað launafólk. 

Alþýðusamband Íslands áætlaði fyrir nokkrum árum að hið opinbera verði af um átta milljörðum króna vegna þessa. Það eru sennilega um tíu milljarðar króna á núvirði. Í stjórnarsáttmála sitjandi ríkisstjórnar voru úrbætur á þessu boðaðar og frumvarp þess efnis var bætt á þingmálaskrá í desember 2022. Það hefur látið á sér standa. Í nýbirtu fjárlagafrumvarpi er gefið óljóst til kynna að að það eigi að byrja að loka þessu gati, en þó einungis þannig að það skili um 500 milljónum króna í nýjar skatttekjur. 

Þeir sem eiga vanmetnar eignir

Allt bendir til þess að eignir þeirra heimila sem eiga verðbréf séu verulega vanmetnar í ofangreindum tölum. Afar sennilegt er að markaðsvirði eigna þeirra sé mun hærra. Það er vegna þess að virði hlutabréfa í innlendum og erlendum hlutafélögum er reiknað á nafnvirði, og sýnir því hvað viðkomandi greiddi fyrir þau í upphafi, ekki hvað væri hægt að fá fyrir bréfin ef þau yrðu seld. 

Skýrasta dæmið um vanmetnar eignir í eigu ríkra Íslendinga er fiskveiðikvóti. Miðað við viðskipti sem gerð voru 2021 ætti upplausnarvirði kvótans að vera um 1.200 milljarðar króna á virði þess árs. Í gagnagrunni, sem Deloitte tekur árlega saman um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja landsins, var kvótinn hins vegar bókfærður á 460 milljarða króna í lok árs 2022. Hann var því vanmetinn um 740 milljarða króna. Eigið fé geirans, sem var 374 milljarðar króna samkvæmt gagnagrunninum, ætti því að vera rúmlega 1.100 milljarðar króna. Þar skeikar litlum 726 milljörðum króna.

Þeir sem borga ekki sanngjarna skatta

Lítill áhugi hefur verið á því hjá stjórnvöldum að auka byrðar á þann hóp sem hefur tekjur sínar af fjármagni, og er augljóslega samkvæmt ofangreindum tölum sá sem hefur hagnast mest á því ófremdarástandi sem ríkt hefur í íslensku efnahagslífi síðustu ár. Ekki hefur verið horft til þess að hækka fjármagnstekjuskatt og ekki hefur náðst saman um aukið álag á veiðigjald stórútgerða, þrátt fyrir að 71 prósent af 847 milljarða króna hagnaði geirans á árunum 2009 og út árið 2022 hafi setið eftir hjá útgerðum landsins en einungis 29 prósent hafi farið í opinber gjöld til eiganda kvótans.

Árið 2022 var besta rekstrarár í sögu íslensks sjávarútvegs. Það skilaði sjávarútvegsfyrirtækjum methagnaði og hæstu arðgreiðslum sem nokkru sinni hafa verið greiddar út til eigenda þeirra. Mynd: Deloitte

Sitjandi ríkisstjórn ákvað að lækka bankaskatt verulega í kórónuveirufaraldrinum. Það skipti miklu máli í því að kerfilslega mikilvægu bankarnir þrír skiluðu næst mesta hagnaði í fyrra sem þeir hafa nokkru sinni skilað frá því að þeir voru endurreistir eftir bankahrunið. Enginn salur hefur verið fyrir því að hækka hann á ný þrátt fyrir að vaxtatekjur hafi verið uppistaðan í 83,5 milljarða króna samanlögðum hagnaði íslensku bankanna þriggja á síðasta ári. 

Þeir sem borða ekki fyrir meðaltöl og hlutföll

Þeir sem standa vörð um ofangreint kerfi reyna oft að afflytja þá mynd sem tölurnar hér að ofan sýna til að selja þá hugmynd að þær feli ekki í sér ójöfnuð. Það er gert með því að horfa á eignaskiptingu og ójöfnuð út frá hlutfallstölu í stað þess að horfa á hana út frá krónutölu. Það er gert með því að segja til dæmis að árið 2017 hafi ríkasta tekjutíundin átt 59 prósent alls eigin fjár á Íslandi en í fyrra hafi það hlutfall verið komið niður í 53 prósent. 

Málaflutningsmenn þessarar brauðmolakenningar segja að jöfnuður sé þegar eignir lágtekjumannsins hækka um tíu prósent og eignir auðmannsins um sömu hlutfallstölu. Þeir kjósa að horfa framhjá því að fyrir þann sem á milljón krónur og ávaxtar hana um ofangreint hlutfall þá skilar það hundrað þúsund krónum. Fyrir auðmanninn sem á einn milljarð króna skilar það 100 milljónum króna. Þar munar 99,9 milljónum króna. 

Ef horft er á þann nýja auð sem orðið hefur til hérlendis frá  því að ríkisstjórn sitjandi flokka tók við árið 2017 þá telur hann alls 5.031 milljarð króna. Þorri þeirrar aukningar hefur orðið, líkt og rakið var að ofan, vegna hækkunar fasteignaverðs sem flest fólk sem á bara íbúðina sem það býr í á erfitt með að leysa út sem hagnað nema þegar það er að minnka við sig á efri árum. Það þarf alltaf að kaupa nýtt þak yfir höfuðið. Af þessum rúmlega fimm þúsund milljörðum króna hefur tæpur helmingur farið til þeirra tíu prósent landsmanna sem eru ríkust. Ég ætla að segja þetta aftur: um helmingur nýs auðs hefur farið til þeirra tíu prósent ríkustu. 

Það má vel vera að einhverjum finnist að í þessu felist mikill jöfnuður. Flestir með sæmilega dómgreind og snefil af réttlætiskennd sjá þó að svo er ekki. Fólk borðar enda ekki fyrir hlutföll eða meðaltöl. Það borðar fyrir krónur og aura. 

Reply

or to participate.