• Kjarnyrt
  • Posts
  • Að lifa í landi þar sem lækkun vaxta þýðir hækkun vaxta

Að lifa í landi þar sem lækkun vaxta þýðir hækkun vaxta

Í lok árs 2020 voru 57 prósent allra íbúðalána á Íslandi verðtryggð, vegna þess að það voru hagstæðustu lánin sem heimili landsins töldu sig geta fengið. Tæpum tveimur árum síðar hafði orðið viðsnúningur og 57 prósent allra íbúðalána voru þá óverðtryggð. Í sumar voru verðtryggðu lánin komin aftur upp í 58 prósent allra lána vegna svimandi hárrar verðbólgu og vaxta sem eru á meðal þeirra hæstu í Evrópu. Þegar stýrivextir fóru loks að lækka, hækkuðu bankarnir verðtryggðu vextina á fólkið sem var að flýja háu óverðtryggðu vextina.

Stýrivextir eru farnir að lækka. Þeir eru nú komnir niður í 8,5 prósent eftir að þeir höfðu verið yfir níu prósent í 15 mánuði. Það er mjög jákvætt að þessi þróun sé loks að verða en jafn alvarlegt hvað þurfti að ganga langt, og leggja miklar byrðar á heimili landsins, til að ná einhverjum tökum á verðbólgunni. Utan stríðssvæðis og Tyrklands eru stýrivextir hér enn þeir langhæstu í Evrópu. Ungverjaland og Rúmenía eru í næstu sætum á eftir okkur með 6,5 prósent. Af hinum Norðurlöndunum eru vextirnir hæstir í Noregi, þar sem þeir eru 4,5 prósent. Á evrusvæðinu eru vextirnir 3,4 prósent að meðaltali. 

Þetta ástand hefur ýtt sífellt fleiri heimilum í verðtryggð lán. Ástæðan er skýr: þau hafa ekki efni á greiðslubyrði óverðtryggðra lána í þessu vaxtaumhverfi. Mánaðarlegar greiðslur af slíku láni hafa meira en tvöfaldast í mörgum tilvikum. Einkaneysla og kortavelta hafa dregist saman skarpt, sem þýðir að heimilin eru að eyða miklu minni pening í neyslu en áður. Það var enda tilgangur hinna háu vaxta. Að láta okkur hætta að fara til Tene, og gera allt hitt sem millistéttarfólki á Íslandi hefur þótt eðlilegt að geta gert. 

Ásgeir Jónsson er seðlabankastjóri Íslands. Mynd: Seðlabanki Íslands

Stóraukinn vaxtakostnaður vegna íbúðalána og hækkandi vöruverð gerir þetta að verkum. Fólk fær minna fyrir peninganna sem sitja eftir í veskinu í lok mánaðar eftir greiðslu skatta og gjalda. Hagfræðilega hugtakið yfir það er kaupmáttur ráðstöfunartekna. Hann hefur lækkað. Á öðrum ársfjórðungi yfirstandandi árs, frá byrjun apríl og til loka júní, hefur hann lækkað um 1,84 prósent. Raunar sýnir ný greining að kaupmáttur ungs fólks hafi staðið í stað í tvo áratugi á Íslandi.

Vextir lækka en hækka samt strax á flesta

Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki högnuðust samtals um 62,7 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2024. Það er 1,8 milljörðum krónum meira en þeir græddu á sama tímabili í fyrra og 25,4 prósent meira en þeir högnuðust um á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2022. 

Viðskiptabankarnir þrír hagnast fyrst og síðast af því að rukka hærri vexti fyrir útlán en þeir borga fyrir innlán þessi misserin. Á fyrstu níu mánuðum ársins 2024 voru hreinar vaxtatekjur þeirra 72 til 76 prósent af öllum rekstrartekjum stóru bankanna þriggja. Þrjár af hverjum fjórum krónum sem komu í kassann hjá bönkum sem eru með 10,9 til 12,2 prósent arðsemi á eigin fé sitt það sem af er ári, eru tekjur af vöxtum.

Hreinar vaxtatekjur þeirra voru samanlagt 115,5 milljarðar króna á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins, sem er um 2,5 milljörðum krónum meira en á sama tíma í fyrra og 21,5 milljörðum krónum meira en tímabilinu 2022. Á tveimur árum hafa vaxtatekjur  bankanna þriggja því vaxið um 23 prósent. 

Það vakti athygli að samhliða því að Seðlabanki Íslands hóf vaxtalækkunarferli sitt í síðasta mánuði þá hækkuðu viðskiptabankarnir allir vexti á verðtryggðum lánum. Tveir þeirra, Íslandsbanki og Arion banki, hækkuðu svo vextina aftur með mjög hæpnum rökum eftir nýjustu stýrivaxtalækkunina og verðtryggðir vextir hafa ekki verið hærri síðan 2012. Vaxtahækkanirnar eru vel umfram það sem má skýra með hækkun markaðsvaxta. Þessu til viðbótar ákváðu stóru viðskiptabankarnir að þrengja lántökuskilyrði íbúðalána. Í nýlega birtum Peningamálum Seðlabanka Íslands segir að þessi „þrenging lántökuskilyrða er til þess fallin að auka áhrif ofangreindrar hækkunar verðtryggðra vaxta á greiðslubyrði nýrra íbúðalána.“ 

Afleiðingarnar hafa meðal annars verið þær að sífellt fleiri heimili eiga í erfiðleikum með að ná endum saman og vanskil eru farin að aukast.

Úr verðtryggðu í óverðtryggt og aftur í verðtryggt

Samandregið má segja að staðan sé þessi. Stýrivextir lækkuðu skarpt á faraldurstímum til að örva hagkerfið. Auka neyslu. Fyrir vikið flykktust heimilin í óverðtryggð lán. Það breytti öllu hratt. Í lok árs 2020 voru 57 prósent allra íbúðalána heimila verðtryggð. Í ágúst 2022 hafði orðið kúvending vegna lægri vaxta og 57 prósent allra lána heimila voru orðin óverðtryggð.

Svo rauk verðbólgan óumflýjanlega upp. Þynnkan eftir fylleríið lagðist yfir. Þá þurfti Seðlabankinn að hækka vexti mjög skarpt sem gerði óverðtryggð lán of dýr fyrir fullt af heimilum landsins sem flykktust fyrir vikið í verðtryggð lán, sem bera léttari mánaðarlega greiðslubyrði en fela í sér mun hægari eignamyndun.

Á myndinni má sjá hvernig óverðtryggðu lánin (bláu og appelsínu súlurnar) tóku yfir um nokkurra ára tímabil, og hvernig verðtryggðu lánin (rauðu og gráu súlurnar) urðu meirihluti íbúðalána á ný eftir að vextir og verðbólga tóku að hækka. Mynd: Hagvísar Seðlabanka Íslands

Í ágúst 2024 var hlutfall óverðtryggðra lána komið niður í 42 prósent en 58 prósent lána voru verðtryggð. Algjör viðsnúningur hafði orðið á tveimur árum. Og sú þróun mun halda áfram samhliða því að fastir vextir óverðtryggðra lána, sem í mörgum tilvikum eru fjögur til fimm prósent, losna og lántakendurnir standa frammi fyrir því að endurfjármagna annað hvort í tveggja stafa vöxtum eða færa sig yfir í verðtryggð lán. 

Ofurskatturinn á heimilin

Þetta er ofurskatturinn sem lagst hefur á heimili landsins á síðustu árum. Ekkert hefur haft meiri áhrif á venjulegt vinnandi fólk og þessi breyting á þeirra högum frá því að kosið var síðast. Þær hefðbundnu skattkerfisbreytingar og krónutöluhækkanir sem ráðist hefur verið í innan opinbera kerfisins eru algjört smælki í samanburði. Það sem gerir þetta enn blóðugra er að sú ríkisstjórn sem hélt völdum eftir kosningarnar 2021 lofaði því að lágvaxtaumhverfið væri komið til að vera. Að verðbólgu yrði haldið í skefjum. Bara ef sem flestir myndu telja það best að kjósa sömu flokka aftur til valda. Það skilaði ríkisstjórnarflokkunum 54,4 prósent allra atkvæða.

Þetta varð auðvitað ekki að veruleika. Vaxtagjöld af íbúðalánum hækkuðu um rúmlega 70 prósent frá 2021 og fram að síðustu áramótum. Þau hafa haldið áfram að hækka á þessu ári, og voru 16 prósent hærri á fyrri helmingi ársins 2024 en þau voru á sama tímabili ári áður. Ofurskatturinn vegna lélegrar hagstjórnar felur í sér tug milljarða króna aukna skattlagningu sem heimili landsins hafa þurft að bera. 

Söluræðan var svo sú að heimilin þyrftu bara að standa þetta af sér. Taka einn fyrir liðið á meðan að verðbólgan yrði kæfð og svo yrði allt í blóma á ný. En hvað gerðist? Heimilin sem gáfu eftir eignamyndun með því að færa sig í verðtryggð lán fengu á sig vaxtahækkun strax og stýrivextir fóru að lækka!

Þetta er ástæðan fyrir því að samanlagt fylgi Sjálfstæðisflokks, Framsóknar og Vinstri grænna hefur hrunið. Fólk trúir einfaldlega ekki orði sem flokkarnir þrír eða forystumenn þeirra segja. Það hefur oftar en ekki mælst undir 25 prósent í þessari kosningabaráttu, og því meira en helmingast. Venjulegt vinnandi fólk sér skýrt að það er kominn tími fyrir eitthvað nýtt. 

Ríkustu eiga stærstan hluta innlána

Það er önnur hlið á vaxtahækkunum. Hún er sú að vextir sem greiddir eru fyrir innlán hækka líka. Fyrir vikið hafa innlán, peningarnir sem heimilin eiga inni á banka, aukist mikið á síðustu árum. Vaxtatekjur jukust til að mynda um 82 prósent milli áranna 2022 og 2023. Innlán heimila í bankakerfinu hafa aukist um samtals 682 milljarða króna frá árslokum 2019. Frá því að vextirnir voru settir upp í 9,25  prósent í ágúst í fyrra hafa innlánin aukist um 255 milljarða króna. 

Við þessar aðstæður sem verið hafa á Íslandi síðustu ár þá hefur verið helvíti gott að eiga peninga á bók. 

Í fyrra þénuðu þau tíu prósent landsmanna sem voru með hæstu tekjurnar 70 prósent allra fjármagnstekna, eða vel yfir 200 milljarða króna. Ríkasta eitt prósent landsmanna þénar almennt tæpan helming allra fjármagnstekna. Ríkasta 0,1 prósent landsmanna þénar rúmlega fjórðung allra fjármagnstekna. 

Það er ekki bara ályktun sem ég er að draga. Efsta tekjutíundin, sem ber samkvæmt hagtölum Hagstofu Íslands 29 prósent af vaxtagjöldum vegna íbúðalána, á 42 prósent af öllum innlánum heimila. 

Skýrt hverjir bera byrðarnar

Gefum Seðlabanka Íslands orðið í Peningamálum í fyrra: „Þótt sparnaður allra tekjuhópa hafi að öllum líkindum aukist í farsóttinni er líklegt að megnið af þeim umframsparnaði sem enn er til staðar sé í höndum tekjuhærri hópa og því ólíklegra að gengið verði á hann að fullu. Einnig skiptir máli í þessu samhengi í hvaða formi sparnaðurinn liggur, hvort hann sé í lausum fjáreignum sem auðvelt er að grípa til eða í torseljanlegri eignum eins og fasteignum.“ 

Það þarf að sýna ábyrgð í efnahagsmálum, stöðva rússíbanann sem heimilunum er gert að vera föst í og byggja þess í stað stöðuga lest á teinum sem keyrir stöðugt í rétta átt og veitir farþegunum fyrirsjáanleika um hvað sé framundan.

Hækkun stýrivaxta og aukin verðbólga hefur því náð að dempa neyslu lægri tekjuhópa, og láta þá ganga á sparnað sinn. Staðan hefur hins vegar lítil eða engin áhrif á þá sem þéna mest eða eiga mest. Þeir hópar eiga borð fyrir báru í tekjum og þurfa ekki að snerta sparnaðinn sinn. 

Þvert á móti hafa tekjur þeirra af honum stóraukist. 

Vinnið fyrir alla, ekki bara suma

Það þarf að jafna byrðarnar á Íslandi. Það er ekki hægt að reka ríkissjóð í halla ár eftir ár, og ætla að gera það alls í níu ár, til að hægt sé að ráðast í ófjármagnaðar skattalækkanir sem nýtast aðallega þeim best settu í samfélaginu. Það er ekki hægt að velta tug milljarða króna ofurskatti á venjuleg íslensk heimili árum saman þegar afleiðingarnar eftir örvunarfylleríinu eru teknar út. Það þarf að sýna ábyrgð í efnahagsmálum, stöðva rússíbanann sem heimilunum er gert að vera föst í og byggja þess í stað stöðuga lest á teinum sem keyrir stöðugt í rétta átt og veitir farþegunum fyrirsjáanleika um hvað sé framundan.

Tölurnar hér að ofan sýna svart á hvítu að það er svigrúm hjá breiðu bökunum, sem hagnast á niðursveiflum og hagnast svo aftur á uppsveiflum, að greiða meira til samneyslunnar. Þau geta lifað án þess að nýta sér skattaglufur sem tryggja þeim lægri skattbyrði en meðalmanninum. Þau geta borgað aðeins meira af hratt vaxandi fjármagnstekjum sínum, sem meðal annars eru bein afleiðing af afleitri hagstjórn síðustu ára. Fyrirtækin og fjölskyldurnar sem fá að nýta sér auðlindir landsins geta borgað miklu meira til eigenda þeirra auðlinda svo hægt sé að endurreisa velferðarkerfin og grynnka á innviðaskuldinni án þess að það hafi nokkur áhrif á getu þeirra til fjárfestinga og útgreiðslu mikils arðs.

Það þarf stjórnvöld á Íslandi sem vinna fyrir fólkið í landinu, ekki bara fyrir sumt fólk í landinu. Venjulegt réttsýnt fólk sem þið þurfið ekki að efast um að muni taka ákvarðanir fyrir hönd almennings, í stað þess að útdeila gæðum til ákveðinna einstaklinga eða sérhagsmunahópa. Fólk sem vill þjóna, innleiða góða stjórnarhætti, vanda sig, koma hreint fram og segja satt. Fólk sem horfir á kjósendur í augnhæð. 

Í þessu felst ekki bylting, heldur eðlileg bæting sem hefur þegar fest sig í sessi í þroskaðri frjálsum lýðræðisríkjum í kringum okkur. Eina leiðin til þess að þessi bæting muni eiga sér stað er sú að næsta ríkisstjórn verði frjálslynd félagshyggjustjórn. Hinn möguleikinn er íhaldsstjórn hægriflokka skipuð þeim einstaklingum sem hafa haft forgöngu í að tapa traustinu á stjórnmálunum á síðustu árum. Stjórn sem viðheldur því stöðnunarástandi sem hefur verið hefur þar sem venjulegt vinnandi fólk ber meiri byrðar en ríkasta fólk landsins tekur sífellt meira til sín.

Hafið þetta hugfast í kjörklefanum um komandi helgi.

Reply

or to participate.