- Heimasíða Þórðar Snær Júlíussonar
- Posts
- Það þurfa allir að spila eftir sömu reglunum
Það þurfa allir að spila eftir sömu reglunum
Er betra að eftirlit með þeim oft þremur til fjórum stóru fyrirtækjum sem keppa á íslenskum fákeppnismörkuðum sé minna? Mun það leiða til þess að samfélagsgerðin verði betri, réttlátari og hagkvæmari? Eða leiðir sterkt og virkt eftirlit til þess að hagur neytenda og tækifæri almennings til athafna batna?
Í aðdraganda komandi kosninga þá munum við heyra mikið um frelsi. Sú margendurtekna umræða, sem er reyndar þegar byrjuð, snýst oft annars vegar um þröngt skilgreint atvinnufrelsi og hins vegar um frelsi til að mega kaupa sér vín í matvöru- og/eða netverslunum, sem í huga ákveðinna hópa virðist vera mikilvægasta frelsið sem mannskepnan getur upplifað.
Hér verður dvalið við fyrra frelsið, það sem snýr að atvinnulífinu. Við munum á næstunni heyra ítrekað að frelsisskerðing þess felist í því að skattar og álögur á breiðu bökin í samfélaginu séu allt of háir og að það leiði af sér að færri brauðmolar hrynji til hinna af borðum þeirra. Verði álögum á til dæmis auðlindadrifna atvinnuvegi ekki haldið í lágmarki muni landsframleiðsla minnka, hagvöxtur dragast saman og efnahagur allra bera skaða af.
Í þessari framsetningu á frelsi verður ekkert fjallað um að skattar og álögur tryggi sterkari grunngerð samfélagsins og tækifæri fyrir fleiri en bara útvalda til að leysa úr læðingi krafta hæfileika sinna. Með því að jafna tækifæri þá eiga fleiri möguleika á góðu og innihaldsríku lífi. Sjónum verður ekki beint að því að þótt kökunni sé skipt jafnar þýðir það ekki að hún geti ekki stækkað líka.
Þarf nokkuð eitthvað eftirlit með bönkum?
Við munum líka heyra endurtekin barlóm um að eftirlit sé allt of mikið og að stærðarhagkvæmni sé miklu þjóðhagslega hagkvæmari en virk samkeppni. Þetta verður sannarlega ekki í fyrsta sinn sem farið verður með þær vísur.
Sú tilraun hófst um síðustu aldamót og endaði með allsherjar bankahruni.
Fyrir þremur og hálfu ári, nokkrum mánuðum fyrir síðustu kosningar, mætti til að mynda frelsiselskandi stjórnmálamaður úr valdaflokki í umræðuþátt í sjónvarpi og sagði að hertara eftirlit gengi út frá því að allir væru óheiðarlegir. Sú afstaða, sem hefur örugglega hljómað ágætlega þegar hún var mátuð sem kosningafrasi, sýndi að viðkomandi hafði ekki mikið stofnanaminni þegar kemur að Íslandssögunni. Hér var nefnilega prófað að vera með nánast algjört eftirlitsleysi. Sú tilraun hófst um síðustu aldamót og endaði með allsherjar bankahruni. Í úttekt sem Viðskiptaráð birti í lok sumars var kvartað yfir því sem ráðið kallar eftirlitsiðnaðurinn hér væri mun stærri en á hinum Norðurlöndunum. Mesti munurinn væri í fjármálaeftirliti þar sem sex sinnum fleiri störfuðu við það á Íslandi samanborið við önnur Norðurlönd. Sama ástand virðist hrjá ráðið og áðurnefndan stjórnmálamann. Það man ekki lengur aftur en gærdaginn.
Afleiðingarnar bankahrunsins urðu meðal annars þær að gjaldmiðill Íslendinga veiktist um tugi prósenta, verðbólga fór í 18,6 prósent, stýrivextir í 18 prósent, atvinnuleysi í tveggja stafa tölu, ríkissjóður fór úr því að vera nær skuldlaus í að vera nær gjaldþrota, skuldir heimila margfölduðust, neyðarlög tóku gildi, fjármagnshöft voru sett á, Ísland þurfti að leita til Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eftir aðstoð og allt traust milli almennings og stofnana samfélagsins hvarf. Mótmæli urðu daglegt brauð, eldar voru kveiktir og pólitískur óstöðugleiki varð að normi. Tugir einstaklinga fengu þunga fangelsisdóma fyrir fordæmalaus lögbrot.
Svo má benda á að fjármálaeftirlitið, þetta sem er ofmannað að mati Viðskiptaráðs, lagði 1,2 milljarða króna sekt – þá hæstu í Íslandssögunni – á Íslandsbanka snemma árs í fyrra þegar bankinn játaði að hafa framið margháttuð lögbrot við sölu á sjálfum sér í apríl 2022. Í sumar samþykktu bæði Íslandsbanki og Arion banki að greiða langleiðina í 600 milljónir króna hvor í sekt vegna ónógra peningaþvættisvarna. Allar þessar greiðslur voru gerðar eftir að stjórnendur bankanna viðurkenndu að framin hefðu verið mörg og alvarleg brot. Þau skiluðu ríkissjóði hátt í 2,4 milljörðum króna í viðbótartekjur á rúmu ári.
Blautir draumar fákeppnismógúla
Það má með góðum rökum halda því fram að sterkt eftirlit í örsamfélagi eins og því íslenska tryggi aukið frelsi almennings gegn fákeppni, einokun, strokuspillingu og hvítflibbaglæpum sem gagnast fámennum valdahópi en rýrir lífsgæði allra annarra. Það er ekki hindrun heldur nauðsyn.
Samt er, ítrekað, talað um eftirlit sem eitthvað neikvætt. Í tíð sitjandi ríkisstjórnar hefur að mörgu leyti verið dregið úr því, og frekari tilraunir gerðar til að veikja það. Fiskistofa var færð til Akureyrar án nokkurrar vitrænnar ástæða með þeim afleiðingum að margir lykilstarfsmenn hættu og mikil sérfræðiþekking tapaðist út úr stofnuninni. Umboðsmaður Alþingis hefur oft og iðulega bent á að hann eigi í vandræðum með að taka upp mál að eigin frumkvæði vegna þess að hann hefur ekki rekstrarlega burði til þess. Skattrannsóknarstjóri var lagður niður og verkefni embættisins færð til Skattsins. Samhliða voru fjölmörg skattalagabrot gerð refsilaus og þeir sem þau fremja geta nú borgað sig frá þeim án þess að óttast að nokkur fái að vita um brotin og án ótta við saksókn.
Samkeppniseftirlitið hefur svo sætt linnulausum árásum úr hendi ýmissa stjórnmálamanna, stjórnenda í atvinnulífinu og hagsmunagæslusamtaka sem starfa á þeirra vegum. Þessi gagnrýni hefur líka verið fyrirferðamikil í umfjöllun þeirra fjölmiðla sem sérhæfa sig í fréttum um viðskiptalífið. Ríkisstjórnin hefur til að mynda reynt að takmarka getu Samkeppniseftirlitsins til verka með því að leggja fram frumvarp sem hefði komið í veg fyrir að Samkeppniseftirlitið geti borið niðurstöður áfrýjunarnefndar undir dómstóla og þannig þvingað fram breytingar á skipulagi fyrirtækja. Gylfi Magnússon, prófessor í hagfræði og fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra, sagði á þeim tíma að ef frumvarpið yrði samþykkt væri verið að „láta blauta drauma fákeppnismógúla rætast með því að draga tennurnar úr samkeppniseftirliti á Íslandi eins og frekast er unnt“.
Páll Gunnar Pálsson er forstjóri Samkeppniseftirlitsins og hefur oft verið skotspónn helstu gagnrýnenda þess. Mynd: RÚV
Samkvæmt mati á reiknuðum ábata vegna íhlutunar Samkeppniseftirlitsins á árunum 2014 til 2023 þá var hann á bilinu 10,7 til 17,7 milljarðar króna á hverju ári á föstu verðlagi. Það eru 17 til 29föld fjárframlög til stofnunarinnar á tímabilinu. Frá því að eftirlitið var stofnað fyrir næstum tveimur áratugum hefur það rannsakað og upplýst um samráð aðila mörgum af mikilvægustu neytendamörkuðum sem fyrirfinnast í íslensku samfélagi.
Er farið vel með opinbert fé?
Það þarf ekki einungis að hafa skynsamlegt eftirlit með þeirri starfsemi sem er í landinu. Það þarf líka að hafa eftirlit með þeim fjármunum sem eru greiddir úr ríkissjóði til ganga úr skugga um að þeir skili sér þangað sem þeir eiga að fara og að árangurinn af þeim styrkjagreiðslum úr sameiginlegum sjóðum sé sá sem stjórnvöld stefna að. Það þarf að tryggja að farið sé vel með opinbert fé.
Íslenska ríkið styður nefnilega við allskyns atvinnurekstur. Fjölmörg fyrirtæki fá styrki úr Orkusjóði vegna orkuskipta, úr Matvælasjóði í ýmis konar verkefni, tugir milljarða króna fara á ári í styrki til landbúnaðar, ríkið setur árlega á sjöunda milljarð króna í rannsóknir, þróun og nýsköpun í sjávarútvegi, myndarlegir styrkir eru greiddir til bókaútgefenda, milljarðar króna fara úr ríkissjóði á hverju ári til að endurgreiða framleiðslukostnað kvikmyndaframleiðenda af verkefnum sem tekin eru upp hér á landi og einkareknir fjölmiðlar fá rekstrarstyrki á hverju ári. Svo fátt eitt sé nefnt.
Ein stærsta breytingin á styrkjagreiðslum úr ríkissjóði á undanförnum árum hefur falið í sér að ríkið dælir nú gríðarlegu fjármagni í nýsköpunarfyrirtæki sem hafa hlotið staðfestingu frá Rannís um að þau eigi rétt á sérstökum skattaafslætti sem endurgreiddur er úr ríkissjóði. Styrkurinn á að vera vegna rannsóknar- og þróunarstarfs. Fyrir níu árum var styrkurinn 1,3 milljarðar króna. Á næsta ári eru styrkirnir áætlaðir 17,2 milljarðar króna.
Réttmætar áhyggjur af útgreiðslu hárra styrkja
Hvatinn á bakvið þessar greiðslur er afar göfugur, og samfélagslega gagnlegur. Hann er sá að styðja við hugvit svo það geti búið til verðmæt störf og stöndug fyrirtæki í geirum sem eru ekki þegar fyrirferðamiklir í samsetningu íslensks atvinnulífs. Bara eitt Marel, Össur eða Kerecis í viðbót myndi enda gera kraftaverk fyrir Ísland sökum þess hversu lítið hagkerfið er. Þess vegna hafa styrkjagreiðslurnar notið velvildar og þegar styrkirnir rata á rétta staði er um mjög hagkvæma aðgerð að ræða. Það er skynsamlegt að styðja við nýsköpun og af slíkum stuðningi verður samfélagslegur ávinningur þegar fram líða stundir. Allir græða og kakan stækkar.
Það eru hins vegar uppi réttmætar áhyggjur um að aðgerðin sé ekki svo hagkvæm í öllum tilvikum. Á hverju ár er birtur listi yfir þau fyrirtæki sem fá slíka styrki sem eru yfir 500 þúsund evrum, eða um 75 milljónum krónum á gengi dagsins í dag. Á þeim lista má sjá að sum fyrirtækin sem fá mörg hundruð milljón króna styrki á ári eru þegar skráð á markað, velta tugum milljarða króna á ári og eru á meðal stærstu fyrirtækja landsins nú þegar. Önnur starfa á mörkuðum sem erfitt er að sjá að mikil nýsköpun fari fram á.
Enn á eftir að birta tölur um úthlutun vegna yfirstandandi árs en í fyrra fengu fyrirtæki sem búa til tölvuleiki samtals um einn milljarð króna úr ríkissjóði. Helmingur þeirrar upphæðar fór til eins fyrirtækis sem var selt til Suður-kóresks fyrirtækis fyrir sex árum síðan. Í lok árs 2022 störfuðu 366 við tölvuleikjagerð á Íslandi. Hvert starf í geiranum var því niðurgreitt um nokkrar milljónir króna árlega.
Skortur á eftirliti og gagnsæi
Þrátt fyrir að um gríðarlega háa styrki sé að ræða þá er eftirlit með útgreiðslu þeirra lítið og gagnsæi enn minna. Skatturinn sagði í umsögn fyrir um þremur og hálfu ári til Alþingis að mikil þörf væri á eftirliti með útgreiðslu styrkjanna meðal annars vegna þess að „nokkur brögð hafa verið að því að við skattskil hafi almennur rekstrarkostnaður og kostnaður sem telja verður að tilheyri frekar eðlilegum endurbótum á fyrirliggjandi afurð sem viðkomandi fyrirtæki hefur tekjur af verið færður undir kostnað vegna staðfestra nýsköpunarverkefna“.
Líkt og áður sagði þá upplýsir Skatturinn einungis um þá sem fá endurgreiðslur upp á um 75 milljónir króna. Á síðustu sex árum hafa rúmlega 20 milljarðar króna farið til fyrirtækja sem þiggja styrki undir þeirri upphæð.
Þá eru ekki ákvæði í lögum sem heimila refsingar fyrir þá sem reyna að telja fram rangar upplýsingar til að fá meira fé úr ríkissjóði en tilefni var til. Að mati Skattsins var bent á að „misnotkun á þessum stuðningi með óréttmætum kostnaðarfærslum getur leitt til verulegra útgjalda af hálfu hins opinbera, í formi óréttmætra endurgreiðslna, auk þess að raska samkeppni á markaði“. OECD gerði líka alvarlegar athugasemdir við eftirlit með nýsköpunarstyrkjunum í úttekt um Ísland sem stofnunin birti seint á síðasta ári og sagði að því væri „verulega ábótavant.“
Líkt og áður sagði þá upplýsir Skatturinn einungis um þá sem fá endurgreiðslur upp á um 75 milljónir króna. Á síðustu sex árum hafa rúmlega 20 milljarðar króna farið til fyrirtækja sem þiggja styrki undir þeirri upphæð. Morgunblaðið reyndi að fá upplýsingar um öll þau fyrirtæki sem fengið höfðu styrk í nóvember 2022. Skatturinn hafnaði þeirri beiðni og málið endaði svo fyrir úrskurðarnefnd um upplýsingamál sem tók rúmlega 15 mánuði að taka undir þá skoðun Skattsins að stofnunin mætti einfaldlega ekki afhenda gögnin.
Í minnisblaði sem fjárlaganefnd hefur fengið afhent vegna nýlegs fjárlagafrumvarps kemur fram að gagnrýni á þetta fyrirkomulag á undanförnum árum virðist þó hafa skilað því að nú á að herða eftirlit og gert er ráð fyrir því að sú herðing skili „sparnaði“ upp á einn milljarð króna á ári.
Með öðrum orðum þá er gengið út frá því að fyrirtæki sem eiga ekki að fá svona styrki séu að minnsta kosti að svindla einum milljarði króna úr kerfinu á ári. Starfshópur sé að störfum sem mótar hvernig eftirlitinu á að vera háttað og hann á að skila tillögum á komandi vikum. Hópurinn er meðal annars að horfa til fjölgunar eftirlitsferða til fyrirtækja og að auka samhæfingu „milli Rannís og Skattsins þegar kemur að upplýsingaflæði.“
Þegar spurt var um veikleika aðgerðanna og mælikvarða þeim tengdum kom hins vegar í ljós að Rannís og Skatturinn séu „með fáa einstaklinga sem sinna þessum verkefnum og því ljóst að verkefnið er viðkvæmt fyrir mannabreytingunum.“
Sumir sluppu vegna niðurskurðar
Annað embætti sem hefur þótt til óþurftar í huga ýmissa í gegnum árin er héraðssaksóknari. Það varð til úr embætti sérstaks saksóknara sem sett var á laggirnar eftir bankahrunið til að rannsaka og eftir atvikum saksækja þá sem talið var að framið hefðu glæpi í aðdraganda þess að íslenska fjármálakerfið féll með látum haustið 2008. Embættið var langt komið með margar rannsóknir á sambærilegum málum þegar ný ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks tók við völdum árið 2013. Sú ríkisstjórn ákvað að skera niður framlög til embættisins um tæplega 1,2 milljarðar króna á núvirði. Niðurskurðurinn varð til þess að saksóknaraembættið gat ekki klárað rannsóknir á nokkrum fjölda mála tengdum hruninu sem það taldi fullt tilefni til að klára. Sumir, sem voru svo óheppnir að rannsókn á þeim hófst snemma, voru dæmdir fyrir glæpi en aðrir sem gerðu nákvæmlega það sama sluppu vegna þess að það var ekki til peningur til að klára rannsókn á þeim. Slík staða getur varla talist sæmandi í réttarríki.
Biðin eftir réttlæti
Í nóvember 2019 sendi Ólafur Þór Hauksson héraðssaksóknari minnisblað til dómsmálaráðuneytisins og sagði að hundrað mál biðu rannsóknar hjá embættinu og að þáverandi starfsmannafjöldi dygði ekki til að sinna öllum þeim rannsóknarverkefnum sem það þyrfti að takast á við, hvað þá viðbótarmálum af stærra umfangi. Meiri fjármuni þyrfti til.
Ólafur Þór Hauksson var sérstakur saksóknari og tók við sem héraðssaksóknari þegar það embætti varð til. Mynd: RÚV
Ástæða þess að minnisblaðið var sent var Samherjamálið svokallaða, sem þá var nýkomið upp. Embættið fékk, ásamt Skattinum og skattrannsóknarstjóra einskiptis viðbótarframlag upp á 200 milljónir króna.
Fyrir nokkrum dögum birtist frétt á Vísi þar sem Ólafur Þór endurtók það sem hann hefur oft sagt áður: embætti hans hefur ekki mannafla til að halda úti rannsóknum á fjöldamörgum og alvarlegum málum vegna þess að stjórnvöld hafa ítrekað gert kröfu um niðurskurð á starfsemi þess umfram það sem til dæmis dómstólar og löggæsla hafa þurft að sæta. Á milli áranna 2023 og 2024 var sá niðurskurður rúmlega fimm prósent, eða 81,2 milljónum króna. Vegna þess þurfti að segja upp sex starfsmönnum, meðal annars aðstoðarsaksóknurum og rannsakendum. Tíu árum eftir stóra niðurskurðinn hjá embættinu er staðan enn þannig að það getur ekki sinnt öllum málum sem lenda inni á borði þess. Fyrir vikið sleppa sumir áfram fyrir sömu brot sem aðrir eru dæmdir fyrir og fullt af fólki sætir því að líf þeirra sé á bið í allt að áratug vegna þess að ekki er til peningur að klára rannsóknir mála þar sem það hefur fengið stöðu sakbornings.
Spilum öll eftir sömu reglunum
Á Íslandi er fákeppni á nánast öllum mörkuðum. Smæð og fámenni gerir það að verkum að samkeppnishindranir myndast víða á stöðum sem aðrar og stærri þjóðir þurfa ekki að horfa til. Þessi nálægð gerir það líka flóknara að rannsaka möguleg lögbrot sem framin eru hérlendis, enda meiri líkur en víða annarsstaðar að rannsakandi kannist við eða þekki einhvern tengdan málinu eða þekki einhvern sem þekkir hann.
Á litlum fákeppnismörkuðum skapast umtalsvert meiri freistnivandi til að misnota aðstæður en á þeim stærri. Þetta stafar mögulega af því að það er mun auðveldara að fremja slík brot þegar samkeppnin er lítil. Þess vegna er enn mikilvægara í samfélögum eins og því íslenska að vera með sterkt og virkt eftirlit.
Kjör íslenskra neytenda og tækifæri almennings til athafna batna nefnilega umtalsvert ef við tryggjum að allir spili eftir sömu reglunum.
Reply