• Kjarnyrt
  • Posts
  • Af skemmtiferðaskipum, nikótínpúðum, nýsköpun og brú yfir Ölfusá

Af skemmtiferðaskipum, nikótínpúðum, nýsköpun og brú yfir Ölfusá

Í fyrirliggjandi bandormi er gert ráð fyrir að auka tekjur ríkissjóðs af komu skemmtiferðaskipa til landsins verulega, hækka verðið á hverri dós af nikótínpúðum um nokkur hundruð krónur og lækka endurgreiðslur til stórra fyrirtækja sem stunda rannsóknir og þróun. Þar er líka tiltekið að ef veggjöld standa ekki undir kostnaði við nýja brú yfir Ölfusá muni ríkið borga það sem upp á vantar.

Fyrir Alþingi liggur svokallaður bandormur. Þar er ekki um að ræða óhuggulegan aðskotahlut í mannslíkamanum heldur heiti á frumvarpi þar sem mörgum lögum er breytt samtímis og flutt eitt frumvarp um það. 

Þessi er um margt áhugaverður og verði hann samþykktur mun hann hafa margháttaðar afleiðingar. Sitt sýnist hverjum um hversu jákvæðar þær eru og veltur sú sýn, eins og oftast, á því hvar viðkomandi situr og hvort hann hafi sértæka hagsmuni af breytingunni.

Á meðal þess sem á að breyta með fyrirliggjandi bandormi er að láta breyta gistináttaskatti og leggja innviðagjald á skemmtiferðaskip. Það þarf ekki að koma á óvart að hagsmunagæslusamtök ferðaþjónustunnar og atvinnulífsins á móti þessari breytingu, sem felur í sér. 

Áætlað er að tekjur af breyttum gistináttaskatti og innviðagjaldi nemi 5,8 milljörðum króna á næsta ári og þar af verði 1,9 milljarðar króna vegna nýja innviðagjaldsins. Um 13,5 prósent af þeirri upphæð verður greidd af einstaklingum sem búa á Íslandi en 86,5 prósent, alls fimm milljarðar króna, af gistingu erlendra ferðamanna. Breytingin á gistináttaskatti, sem var tekinn upp að nýju í byrjun þessa árs eftir að hafa verið felldur niður í og eftir kórónuveirufaraldurinn, felur í sér að hann hækkar úr 600 í 800 krónur á hverja gistináttaeiningu auk þess sem hann myndar ekki lengur stofn til virðisaukaskatts. Gistináttaskattur á tjaldsvæði tekur sömu hlutfallslegu breytingum og gjaldið fyrir hverja nótt fer úr 300 í 400 krónur. 

Innviðagjaldið sem á að leggja á skemmtiferðaskip á að verða 2.500 krónur fyrir hvern farþega fyrir hvern byrjaðan sólarhring sem skipið dvelur á tollsvæði ríkisins. Þrátt fyrir tilkomu innviðagjaldsins þá munu skemmtiferðaskipin sem stunda innanlandssiglingar á Íslandi áfram greiða gistináttaskatt líka. Hann mun þó lækka úr eitt þúsund krónum í 400 og rukkað verðu fyrir hvern farþega í stað þess að rukka fyrir hverja selda gistinótt. Áætlað er að breytt gjaldtaka af skipum í millilandasiglingum skili 1,5 milljörðum krónum umfram það sem ella hefði orðið, miðað við óbreyttar gjaldfjárhæðir og andlag.

Dósin hækkar í verði

Ríkið ætlar líka að nota bandorminn til að leggja gjöld á nikótínvörur sem hafa verið mikið í umræðunni: nikótínpúða og rafrettuvökva. Tilgangurinn er lýðheilsulegur, að sporna við sífellt útbreiddari notkun meðal barna og ungs fólks, en álagningin skilar líka umtalsverðum tekjum í ríkissjóð að óbreyttu.  

Á meðal þeirra sem selja nikótínpúða í miklu magni er verslunin Svens. Verð hverrar dósar mun hækka umtalsvert verð bandormurinn samþykktur óbreyttur. Mynd: Skjáskot af vefverslun Svens

Verði frumvarpið að lögum mun leggjast 20 króna viðbótargjald á hvert gramm af nikótínvöru sem mun hækka staðlaða dós af nikótínpúðum um sirka 300 krónur. Það mun skila ríkinu um 3,2 milljörðum króna í nýjar tekjur á næsta ári og að auki hafa hliðaráhrif á virðisaukaskatt sem gæti numið um 1,1 milljarði króna. Þá stendur til að leggja 40 króna verðhækkun á hvern millílítra af vökva í rafrettu sem mun hækka verðið á einnota rafrettu um 80 krónur og skila ríkissjóði 1,4 milljarði króna á næsta ári. Hér er ríkið því að hækka gjöld um 6,7 milljarða króna. Tekjur ríkissjóðs gætu þó orðið lægri ef hækkunin dregur úr notkun, líkt og tilgangurinn með henni er. 

Hörð mótmæli stórra nýsköpunarfyrirtækja

Ein stærsta breytingin á styrkjagreiðslum úr ríkissjóði á undanförnum árum hefur falið í sér að ríkið dælir nú gríðarlegu fjármagni í nýsköpunarfyrirtæki sem hafa hlotið staðfestingu frá Rannís um að þau eigi rétt á sérstökum skattaafslætti sem endurgreiddur er úr ríkissjóði. Styrkurinn á að vera vegna rannsóknar- og þróunarstarfs. Fyrir níu árum var styrkurinn 1,3 milljarðar króna. Á næsta ári eru styrkirnir áætlaðir 17,2 milljarðar króna. 

Hvatinn á bakvið þessar greiðslur er afar göfugur, og samfélagslega gagnlegur. Hann er sá að styðja við hugvit svo það geti búið til verðmæt störf og stöndug fyrirtæki í geirum sem eru ekki þegar fyrirferðamiklir í samsetningu íslensks atvinnulífs. Bara eitt Marel, Össur eða Kerecis í viðbót myndi enda gera kraftaverk fyrir Ísland sökum þess hversu lítið hagkerfið er. Þess vegna hafa styrkjagreiðslurnar notið velvildar og þegar styrkirnir rata á rétta staði er um mjög hagkvæma aðgerð að ræða. Það er skynsamlegt að styðja við nýsköpun og af slíkum stuðningi verður samfélagslegur ávinningur þegar fram líða stundir. Allir græða og kakan stækkar.

Stuðningur við þá sem stunda allskyns nýsköpun hefur aukist mikið á síðustu árum. Mynd: Pexels

Stuðningurinn var aukinn verulega en tímabundið í kórónuveirufaraldrinum þannig að nú er skattafrádrátturinn 35 prósent í tilfelli lítilla og meðalstórra fyrirtækja en 25 prósent í tilfelli stórra. Stjórnvöld hafa verið gagnrýnd, meðal annars af OECD, fyrir að mæla ekki nægilega vel árangurinn sem af honum hlýst né sinna eftirliti með því hvort einhverjir séu að telja fram almennan rekstrarkostnað sem þróun til að komast í styrkina. 

Í bandorminum kemur fram að fjármálaáætlun næstu fimm ára geri ráð fyrir að stuðningurinn aukist um ríflega sjö milljarða króna frá fjárlögum þessa árs og út árið 2029. Það er aukning upp á 45 prósent. Að óbreyttu hefði stuðningurinn átt að hafa farið niður í 20 prósent fyrir allar stærðir og gerðir nýsköpunarfyrirtækja eftir áramót. Drög að frumvarpinu gerðu hins vegar ráð fyrir því að stuðningurinn við litlu og meðalstóru fyrirtækin yrði áfram 35 prósent en yrði lækkaður í 15 prósent hjá stórum fyrirtækjum. Þetta er rökstutt með að slíkt sé í samræmi við niðurstöður OECD þar sem sagði að markmiðum laganna væri frekar mætt með stuðningi við minni fyrirtæki en stærri. Auk þess fer hámarksþak frádráttarbærs kostnaðar aftur í það sem hann var fyrir faraldur, sem er 900 milljónir króna, en það hafði verið hækkað tímabundið í 1,1 milljarð króna. 

Stór nýsköpunarfyrirtæki mótmæltu þessu harðlega. Má þar nefna Emblu Medical, sem hét áður Össur, CCP og Kerecis. Í umsögn CCP sagði meðal annars að drögin hefðu þegar haft „það í för með sér að verið er að endurskoða hvort þróun á nýjum tölvuleik CCP, EVE Frontier, fari áfram fram hér á landi  (leikurinn hefur nú þegar komið með erlendar fjárfestingar upp á 5,6 milljarða króna og skapað yfir 50 ný stöðugildi hér á landi). Auk þess minnka líkurnar á að ný R&Þ verkefni verði sett af stað á Íslandi verulega ef þetta frumvarp nær fram að ganga, svo ekki sé fastar að orði kveðið.“

Höggið mildað

Ljóst er að stjórnvöld tóku að einhverju leyti tillit til athugasemda stóru fyrirtækjanna, sem hafa öll verið með umfangsmikla rannsóknar- og þróunarstarfsemi á Íslandi á undanförnum árum (CCP fékk til að mynda tvöfaldan hámarksstyrk í fyrra, samtals hálfan milljarð króna, vegna tveggja félaga og Össur einfaldan, eða 250 milljónir króna). Þegar frumvarpið kom inn í þingið var búið að breyta því þannig að nú eiga litlu og meðalstóru fyrirtækin að fá 34 prósent styrk en stóru fyrirtækin 22,5 prósent, sem er 50 prósent aukning frá því sem var. Þá verður hámarksþak frádráttarbærs stuðnings einn milljarður króna og var þar með hækkað um 100 milljónir króna. 

Framangreindar breytingar fela í sér að hámarks stuðningur til lítilla og meðalstórra fyrirtækja verður 340 milljónir króna, sem er 45 milljónum krónum minna en hann hefur verið undanfarin ár, og 225 milljónir króna, eða 25 milljónum krónum minni en hann var, til stórra fyrirtækja. Í frumvarpinu segir: „Þess ber að geta að um 12–14 fyrirtæki hafa að jafnaði notið hámarks stuðnings og þar af telst rúmlega helmingur til stórra fyrirtækja. Samtals er áætlað að þessar breytingar feli í sér hækkun útgjalda um sem nemur 7 milljörðum kr. á árinu 2026 vegna rekstrarársins 2025 miðað við að stuðningurinn væri óbreyttur og bráðabirgðaákvæðið félli úr gildi. Á móti þessari hækkun er jafnframt gert ráð fyrir ýmsum breytingum sem dragi úr útgjaldavexti, um sem nemur 1,5–2 milljörðum kr. Þar vegur þyngst takmörkun á framlengingu umsókna í tvígang í stað ótakmarkaðs árafjölda áður.“

Til viðbótar er gert ráð fyrir að aukið eftirlit dragi úr útgjaldavexti sem nemur 1 til 1,5 milljörðum króna á árinu 2026. Þessu tengt þá er lagt til í frumvarpinu að heimild lífeyrissjóða til þess að eiga allt að 35 prósent í stað 20 prósent í sjóðum um sameiginlega fjárfestingu, sem eingöngu fjárfesta í litlum eða meðalstórum fyrirtækjum, verði gerð varanleg. Hún er sem stendur tímabundin og fellur að óbreyttu niður 1. janúar 2025. Tillagan er talin hafa jákvæð áhrif á sprotafyrirtæki og nýsköpun.

Það getur verið flókið að byggja brú

Lengi hefur verið beðið eftir nýrri brú yfir Ölfusá. Það vita allir sem þurfa að keyra í gegnum Selfoss á ákveðnum tímum að sú brú sem stuðst er við nú afkastar ekki umferð sem telur tvær milljónir ferðamanna á ári, mikla aukningu á íbúafjölda á Ölfussvæðinu og almennt tæplega 390 þúsund íbúa í landinu sem margir hverjir keyra reglulega Suðurlandið. Umferð vestan megin við Selfoss hefur enda vaxið um 80 prósent á einum áratug. Þar myndast oft langar bílaraðir, og raunar hinu megin líka. 

Til hefur staðið lengi að byggja nýja brú og fjármagna hana með veggjöldum. Í mars síðastliðnum voru opnuð tilboð í verkið og reyndist þá aðeins vera einn þátttakandi sem lagði fram tilboð, ÞG-verk. Hann gerði lokatilboð í verkið í júlí sem fól meðal annars í sér að ríkið myndi gangast í ábyrgð fyrir 17,9 milljarða króna kostnaði vegna hönnunar, framkvæmdar og fjármögnunar verkefnisins, en verktakinn sjálfur á svo að innheimta veggjöldin. Og þjóðin fengi nýja brú yfir Ölfusá. 

Svona á nýja brúin að líta út samkvæmt forhönnun. Mynd: Efla

Ríkisábyrgðarsjóður komst hins vegar að þeirri niðurstöðu að fyrirhuguð ábyrgðarskuldbinding vegna verkefnisins bæri með sér talsverða áhættu fyrir ríkissjóð. Þá er það jafnframt mat sjóðsins að viðskiptalíkan verkefnisins væri mjög háð forsendum og að ekki væri hægt að fullyrða að skilyrði heimildar fjárlaga væri uppfyllt, það er að tekjur af umferð um brúna myndu standa undir öllum kostnaði. Niðurstaða fjármála- og efnahagsráðuneytisins var því sú að ekki væri hægt að virkja heimild í fjárlögum nema fyrir lægi hvernig yrði staðið undir umframkostnaði vegna verkefnisins ef á reyndi.

Ríkið baktryggir allt saman

Og það er gert í bandorminum svokallaða. Í frumvarpinu er lagt til að tryggt verði að hægt verði að mæta mögulegum umframkostnaði standi veggjöld ekki undir framkvæmd við hringveg norðaustan Selfoss og brú yfir Ölfusá. Þar segir orðrétt: „Með frumvarpinu er fjármála- og efnahagsráðherra veitt heimild í samráði við innviðaráðherra að undirgangast skuldbindingar fyrir hönd ríkissjóðs í því skyni. Þá er kveðið á um að standi gjaldtaka ekki undir öllum kostnaði vegna verkefnisins verði gert ráð fyrir mismuninum í samgönguáætlun og veitt fjárheimild fyrir honum í fjárlögum í formi skuggagjalda. Slíkt framlag úr ríkissjóði myndi taka mið af ígildi umferðar sem á vantar um mannvirkið til að tryggja fjárhagslega sjálfbærni að teknu tilliti til þeirra veggjalda sem innheimt verða af því.“ 

Með öðrum orðum: ef veggjöldin sem á að rukka standa ekki undir kostnaðinum við byggingu nýrrar brúar yfir þá mun ríkissjóður borga það sem upp á vantar. Ríkið hefur áður ábyrgst samgönguframkvæmdir í einkaframkvæmd, með misjöfnum árangri.

Útreikningar sem gerðir voru fyrir Félag íslenskra bifreiðareigenda (FÍB) og birtir voru í síðustu viku sýna að miðað við 20 ára innheimtutíma veggjalda verktakans (miðað við 816 krónur á ferð) gætu heildargreiðslur bíleigenda orðið um 59 milljarðar króna. Miðað við 30 ára innheimtutíma (728 krónur á ferð) gætu þær numið um 92 milljörðum króna.

Reply

or to participate.