- Heimasíða Þórðar Snær Júlíussonar
- Posts
- Engin bankasala, meiri skuldir og stofnunin sem loksins verður lögð niður
Engin bankasala, meiri skuldir og stofnunin sem loksins verður lögð niður
Íslenska ríkið þarf að taka meiri pening að láni vegna þess að það nær ekki að selja hlut í Íslandsbanka fyrir árslok. Það hækkar vaxtakostnað þess um næstum 15 milljarða króna og lengir tímann sem ríkið er yfir skuldareglunni sem þá má ekki vera yfir. Bankasýslan, sem hefur starfað í tvö og hálft ár eftir að tilkynnt var um að leggja ætti hana niður, verður loks lögð niður.
Eftir að stjórnarsamstarfi var slitið og boðað var til kosninga hefur pólitískur fókus, kannski eðlilega, færst mjög yfir á þá baráttu sem er framundan og hvernig listar verði mannaðir, en minna er pælt í því að þingið er enn starfandi og þar á eftir að afgreiða stór mál.
Á þriðjudag komu til að mynda inn í þingið fimmtu fjáraukalög ársins. Þau eru óvenjuleg ein og sér, en það er auðvitað ekki síður óvenjulegt að það sé verið að samþykkja svona mörg fjáraukalög. Til að útskýra hvað þau eru þá eru þetta í raun beiðnir um að fá að eyða meiri pening í ákveðin verkefni en samþykkt fjárlög fyrir árið heimila.
Fyrri fjáraukalög hafa aðallega verið vegna þess að annars vegar þurfti auknar heimildir til að greiða fyrir aðgerðir vegna Grindavíkur og jarðhræringanna þar í kring og hins vegar vegna þess 13,5 milljarða króna framlags sem ríkissjóður lagði til í ár svo hægt yrði að klára kjarasamninga á almennum markaði.
203 milljarðar króna
Á meðal þess sem þarf að sækja heimild fyrir nú eru fjármunir vegna kosninga sem farið hafa fram á þessu ári, og afleiðinga þeirra, sem ekki hafði verið gert ráð fyrir á fjárlögum. Í fyrsta lagi þurfti að sækja 13,6 milljónir króna „í tengslum við og í framhaldi af embættistöku nýs forseta“ og 25 milljónir króna vegna kostnaðar við innsetningu forseta Íslands ásamt kostnaði Alþingis vegna undirbúnings innsetningar. Þá kosta biðlaun fyrrverandi forseta, Guðna Th. Jóhannessonar, 25 milljónir króna og endurbætur á íbúðarhúsnæði nýs forseta, Höllu Tómasdóttur, og fjölskyldu hennar, sem talið var brýnt að ráðast í í tengslum við forsetaskiptin ásamt kostnaði vegna öryggismála kosta 86 milljónir króna. Samtals er um að ræða um 150 milljónir króna. Í öðru lagi er kostnaður vegna komandi þingkosninga áætlaður 468 milljónir króna.
Stóra breytingin í fimmtu fjáraukalögunum er heimild til að ríkið fái heimild til að taka hærri lán en lagt var upp með í ár og að lántökuheimildin verði hækkuð upp í 250 milljarða króna. Ástæðan er skýr: það er búið að fresta því að selja helming af 42,5 prósent eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka. Gert hafði verið ráð fyrir að sú sala hefði skilað 48,3 milljörðum króna í ár og að þeir peningar yrðu notaðir til að grynnka á skuldum ríkissjóðs.
Þess í stað hækka skuldirnar og verða 1.907 milljarðar króna í árslok. Það er 203 milljörðum krónum meira en áætlað var í fjárlögum ársins 2024. Vaxtagjöldin hækka eðlilega vegna þessa og í fimmtu fjáraukalögunum er verið að greina frá því að þau verði 14,6 milljörðum krónum hærri en reiknað var með, og alls 113,7 milljarðar króna í ár.
Skuldareglan upp, ekki niður
Hærri skuldir hafa líka áhrif á hina svokölluðu skuldareglu. Árið 2015 voru sett lög um opinber fjármál. Á meðal þess sem var innleitt með þeim var slík regla. Samkvæmt henni mega heildarskuldir ríkissjóðs, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, ekki fara yfir 30 prósent af vergri landsframleiðslu. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á var sú skuldaregla tekin úr sambandi og skuldir ríkissjóðs hafa verið yfir því marki síðan 2019. Þannig verður áfram í ár og nær örugglega, að minnsta kosti, á næsta ári líka.
Lagt hafði verið upp með að ná skuldareglunni niður í 31,8 prósent í ár en ofangreindar sviptingar hækka það hlutfall upp í 33,4 prósent, sem er svipað hlutfall og var árið 2021. Í frumvarpinu segir: „Hækkunin skýrist eins og áður sagði af frestun á sölu á hlutum ríkissjóðs í Íslandsbanka auk afkomubreytinga sem orðið hafa á rekstri ríkissjóðs frá áætlun fjárlaga.“
Það stóð líka til að selja hinn helminginn af eftirstandandi hlut í Íslandsbanka á næsta ári, og þá fyrir 51,8 milljarð króna. Samanlagt reiknar ríkið því með að fá um 100 milljarða króna fyrir hlut sinn í bankanum. Í frumvarpinu kemur fram að „klárist sala hlutanna á árinu 2025, eins og stefnt var að í fjárlögum, verða áhrif á skuldastöðu ríkissjóðs í árslok 2025 takmörkuð.“
Það tekur á þriðja ár að loka Bankasýslu
Sama dag og fjárlagafrumvarpið birtist var lagt frumvarp sem felur í sér að það eigi að loka Bankasýslu ríkisins. Það sem kemur mest á óvart við það er hversu lengi það hefur tekið að taka í gikkinn. Formenn ríkisstjórnarflokkanna sem seldu síðast hlut í Íslandsbanka sendu nefnilega frá sér yfirlýsingu 19. apríl 2022, fyrir tveimur og hálfu ári síðan, þar sem boðað var að Bankasýslan yrði lögð niður.
Síðan þá hefur hún starfað og kostað skattgreiðendur að minnsta kosti á annað hundrað milljónir króna, en forsvarsmenn hennar geta þó ekki gert grein fyrir öllum útgjöldum hennar. Í september 2023 var greint frá því í tilkynningu á vef stjórnarráðsins að fjármála- og efnahagsráðherra myndi leggja frumvarp um að leggja stofnunina niður fram „í janúar 2024 og að það feli í sér að lög um Bankasýslu ríkisins falli brott, og starfsemin verði þannig lögð niður í núverandi mynd“. Það eru næstum tíu mánuðir liðnir og enn er Bankasýslan starfandi.
Einn starfsmaður er eftir í Bankasýslunni samkvæmt heimasíðu hennar. Mynd: Skjáskot af heimasíðu Bankasýslu ríkisins
Samkvæmt heimasíðu Bankasýslunnar er Jón Gunnar Jónsson, forstjóri hennar, eini starfsmaður stofnunarinnar. Hún hefur víðtækari hlutverk en einungis það að selja hluti í bönkum ríkisins. Bankasýslan fer líka með eignarhluti ríkisins og beitir sér ef stjórn og stjórnendum þykir ástæða til. Það gerði hún fyrr á þessu ári þegar Landsbanki Íslands keypti tryggingafélagið TM á 28,6 milljarða króna og sagði tilboð bankans í tryggingafélagið ekki vera í samræmi við eigendastefnu ríkisins og skipti í kjölfarið út öllu bankaráði Landsbankans. Þegar Landsbankinn undirritaði samning um kaupin á TM í lok maí birti hann samhliða lögfræðiálit tveggja fyrrverandi hæstaréttardómara sem komust að þeirri niðurstöðu að bankaráðinu sem skipt var út hafi verið heimilt að samþykkja kauptilboðið í TM.
Áfelli, metsekt og afsögn ráðherra
Ástæðan fyrir því að það þótti nauðsynlegt að leggja Bankasýsluna niður er klúður hennar við sölu á 22,5 prósent hlut ríkisins sem fram fór 22. mars 2022. Sá hlutur var seldur með svokölluðu tilboðsfyrirkomulagi þar sem 207 fagfjárfestar fengu að taka þátt. Síðar kom í ljós að hluti þess hóps hafði ekki uppfyllt skilyrði laga um að flokkast sem fagfjárfestar og hefðu því ekki átt að fá að taka þátt. Það kom líka í ljós að á meðal þeirra sem keyptu var faðir Bjarna Benediktssonar, þá fjármála- og efnahagsráðherra.
Bjarni Benediktsson þurfti að segja af sér ráðherraembætti eftir niðurstöðu umboðsmanns Alþingis. Hann skipti þá um ráðherrastól við Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur. Mynd: Stjórnarráðið
Þrátt fyrir mikinn þrýsting var komið í veg fyrir að skipuð yrði rannsóknarnefnd Alþingis um söluna. Þess í stað var Ríkisendurskoðun falið að fara yfir hana. Hún skilaði af sér skýrslu í nóvember 2022 þar sem fellt var áfelli yfir söluferlinu á Íslandsbanka í mars það ár og sérstaklega hlutverki Bankasýslunnar í því. Síðar komst umboðsmaður Alþingis að þeirri niðurstöðu að Bjarna hefði skort hæfi til að selja félagi í eigu föður síns hlut í Íslandsbanka, sem leiddi til þess að Bjarni sagði af sér ráðherraembætti … en reyndar bara til að taka við öðru. Rannsókn Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslandd skilaði því svo að Íslandsbanki viðurkenndi margháttuð lögbrot í söluferlinu og samþykkti að greiða næstum 1,2 milljarða króna í sekt í ríkissjóð, sem er metsekt.
Klúður eyddi trausti
Sennilega hefur enginn einn atburður dregið jafn mikið úr trausti á þá ríkisstjórn sem hrökklaðist nýverið frá völdum og þessi sala, sem níu af hverjum tíu landsmönnum töldu að illa hefði verið staðið að. Forsvarsmenn Bankasýslunnar hafa þó alla tíð verið brattir og sagt útboðið hafa verið bæði eitt af farsælustu útboðum Íslandssögunnar og „væntanlega eitt af farsælustu hlutafjárútboðum sem átti sér stað í Evrópu á síðustu mánuðum. Fáir eru sammála þeim.
Fyrr á þessu voru svo samþykkt lög um nýtt fyrirkomulag á sölu á Íslandsbanka sem kemur í veg fyrir að næsta sala verði jafn agalegt, og ólögmætt, klúður og sú sem fór fram í apríl 2022. Og það er búið að ráða ráðgjafa til að halda utan um hana. Í þeim lögum er bæði Bankasýslunni og Íslandsbanka líka bannað að koma að frekari sölu. Þar er reyndar líka komið í veg fyrir að reglurnar sem felldu Bjarna Benediktsson, sem snúast um sérstakt hæfi, þvælist fyrir næsta ráðherra sem tekur ákvörðun um sölu. Slíkar reglur munu einfaldlega ekki gilda um næstu sölu.
Salan var hins vegar óhjákvæmilega sett á ís þegar Bjarni ákvað að slíta ríkisstjórnarsamstarfinu fyrr í þessum mánuði. Í tilkynningu á vef stjórnarráðsins sagði að undirbúningur sölunnar væri kominn langt á veg í samstarfi við ráðgjafa ríkisins, Kviku, Barclays og Citi, fjármálaráðgjafann Landsbankann, auk lögfræðiráðgjafa. „Mun sú vinna nýtast þegar sölunni verður fram haldið, jafnvel þó það verði ekki fyrr en á nýju ári.“
Kannski var það eins gott. Í könnun sem gerð var seint í nóvember 2022 kom fram að næstum tveir af þremur landsmönnum treystu alls ekki síðustu ríkisstjórn til að selja banka. Einungis 16 prósent sögðust treysta henni vel.
Reply