• Kjarnyrt
  • Posts
  • Eru bankarnir í alvöru undir lamandi „Íslandsálagi“?

Eru bankarnir í alvöru undir lamandi „Íslandsálagi“?

Stóru íslensku bankarnir hafa búið til frasann „Íslandsálag“ um þær auknu álögur og kvaðir sem þeim er gert að greiða hérlendis en aðrir bankar í álfunni þurfa ekki að greiða. Þeir láta í það skína að lækkun eða afnám „álagsins“ myndi skila sér í betri kjörum til almennings. Ekkert í fyrri breytni bendir þó til þess. Síðast þegar skattar voru lækkaðir á íslenska banka þá stungu þeir ávinningnum í vasann.

Síðastliðinn mánuð hafa bankar, hagsmunagæsluarmur þeirra og fjölmiðlar sem óma þeirra skoðanir reynt að breiða út þann boðskap að ástæða þess að vextir á neytendalánum séu háir á Íslandi sé hið nýlega uppgötvaða „Íslandsálag“. 

Þessi nálgun á rætur sínar að rekja til úttektar sem ráðgjafarfyrirtækið Intellecon vann fyrir Samtök fyrirtækja í fjármálaþjónustu og kynnt var í nóvember. Helsta niðurstaða hennar er sú að útlánavextir íslensku viðskiptabankanna séu allt að 0,96–1,15 prósentustigum hærri en gerist og gengur annars staðar á Norðurlöndum vegna áðurnefnds „Íslandsálags“, sem nær yfir allar þær álögur sem lagðar eru á innlend fjármálafyrirtæki í formi sértækra skatta, hærri eiginfjárkrafna og óvaxtaberandi bindiskyldu. 

Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, sagði í erindi á fundi þar sem úttektin var rædd að álagið kostaði þann sem væri með 50 milljón króna íbúðarlán um 500 þúsund krónur í viðbótargreiðslur á ári og að það væri fyrst og síðast almenningur sem bæri „Íslandsálagið“. „Álagið bitn­ar þó helst á al­menn­ingi í gegn­um hærri vaxta­álög­ur. Það er því til staðar tæki­færi til að stuðla að lægra vaxtaum­hverfi. Hér skipta íbúðalán­in auðvitað lang­mestu máli því þau eru lang­stærsti skuldaliður heim­il­anna.“

Nóg til

Stóru íslensku bankarnir þrír: Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki, eiga gríðarlega mikið eigið fé, alls 736 milljarða króna samanlagt í lok september síðastliðins. Það er 30 milljörðum krónum meira en það var í lok september í fyrra og um 50 milljörðum krónum meira en það var á þeim tíma fyrir tveimur árum. 

Þá er búið að taka tillit til allra arðgreiðslna og endurkaupa á hlutabréfum sem átt hafa sér stað á árinu, en slíkar greiðslur til hluthafa hlaupa á tugum milljarða króna. Bara Arion banki er til að mynda búinn að greiða arð og kaupa eigin bréf af hluthöfum í ár fyrir 25 milljarða króna, Íslandsbanki er búinn að greiða samtals um 19 milljarða króna með saman hætti og Landsbankinn greiddi 16,5 milljarða króna í arð til ríkisins í vor.  

Stjórnendur bankanna hafa árum saman kvartað yfir því að eiginfjárkröfur á íslenska banka séu miklu hærri en á aðra sambærilega banka í Evrópu. Grynnka þurfi á því með arðgreiðslum og uppkaupum á hlutabréfum – sem skila fjármunum út úr bönkum til hluthafa – til að bæta getu þeirra til að sýna eftirsóknarverða arðsemi á eigin fé, en það er sá mælikvarði sem stjórnendurnir nota til að mæla árangur sinn. Það sé erfitt að ná tíu prósent arðsemiskröfu á 736 milljarða eigið fé, sem útheimtir að það þurfi að græða næstum 74 milljarða króna á ári að lágmarki, en miklu auðveldara að gera það á til dæmis 500 milljarða króna, sem skilar kröfunni niður í 50 milljarða króna. Ef eiginfjárkrafan yrði lækkuð um slíkan þriðjung væri líka hægt að borga hluthöfum út 236 milljarða króna í arð, sem myndi auðvitað kæta þá verulega. 

Það er ástæða fyrir háum eiginfjárkröfum

Ástæður þess að eiginfjárkröfurnar eru svona háar á Íslandi má rekja aftur til hrunsins, þegar bankarnir féllu hver á fætur öðrum og gátu ekki staðið við skuldbindingar sínar. Sú mynd sem birt uppgjör þeirra gaf af getu bankanna til að standa af sér áföll var fölsk. 

Dæmi um það var Kaupþing banki, stærsti banki landsins. Samkvæmt síðasta birta ársreikningi hans var eigið fé bankans jákvætt um 345,6 milljarða króna í lok árs 2007. Samt gat hann ekki, frekar en nokkur hinna bankanna, staðið þegar gaf á á árinu 2008 og féll með látum í október það ár. 

Sérfræðingar sem unnu fyrir embætti sérstaks saksóknara, sem falið var að fara í gegnum ársreikninga föllnu bankanna, komust að þeirri niðurstöðu að eigið fé Kaupþings hefði í raun verið neikvætt um 67,1 milljarð króna í árslok 2007, ekki jákvætt um 345,6 milljarða króna. Það er skekkja upp á litla 412,7 milljarða króna og bankinn samkvæmt því löngu orðinn gjaldþrota.

Til að koma í veg fyrir að svona lagað myndi gerast aftur var nýju bönkunum, sem stofnaðir voru á rústum hinna föllnu, gert að vera með mikið svigrúm til að takast á við áföll og virðisrýrnun lána.

Þrátt fyrir háar eiginfjárkröfur hafa bankarnir ekki verið í vandræðum með að ná viðunandi arðsemi á það eigið fé á síðustu misserum. Hjá Arion banka var hún 12,2 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins, 11,7 prósent hjá Landsbankanum og 10,9 prósent hjá Íslandsbanka. Samanlagt högnuðust þeir um 62,7 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2024. Það er 1,8 milljörðum krónum meira en þeir græddu á sama tímabili í fyrra og 25,4 prósent meira en þeir högnuðust um á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2022. 

Arion banki þegar búinn að skófla út tugum milljarða

Eini bankinn sem er að öllu leyti í einkaeigu, Arion banki, hefur raunar, mokað kerfisbundið tugum milljarða króna út til hluthafa sinna á síðustu árum. Það hefur hann meðal annars gert með því að gera breyt­ingu á fjár­­­mögnun bank­ans, draga úr útlánum hans til fyr­ir­tækja, með því að minnka kostnað í gegnum upp­­sagnir á starfs­­fólki, með því að hrinda í gang umfangs­­mik­illi end­­ur­­kaupa­á­ætlun á hluta­bréfum í bank­­anum og svo auð­vitað í gegnum arð­greiðsl­­ur. 

Þessi áform voru ekkert leyndarmál. Þegar Arion banki var skráður á markað fyrri hluta árs 2018 lá fyrir að mark­mið ráð­andi hlut­hafa væri að greiða sér út eins mikið af eigin fé hans og hægt væri, á sem skemmstum tíma. Í fjár­­­festa­kynn­ingu sem Kvika vann fyrir Kaup­­þing, þá stærsta eig­anda Arion banka, í aðdrag­anda skrán­ingar kom fram að svig­­rúm væri til að greiða út allt að 80 millj­­arða króna, eða þriðj­ung alls eigin fjár Arion banka, á til­­­tölu­­lega skömmum tíma með ýmsum hætt­i. Þeirri áætlun var svo hrint í framkvæmd og endanleg útgreidd upphæð hefur farið vel yfir það svigrúm sem talað var um í fjárfestakynningunni. 

Ríkissjóður gæti greitt sér myndarlega út úr bankanum sínum

Íslandsbanki hefur fetað sig í þessa átt eftir að meirihlutinn af eign ríkisins í honum var seldur og bankinn skráður á markað. Hann átti 58 milljarða króna á þávirði í umfram eigin fé seint á árinu 2020, skömmu áður en ríkið seldi 35 prósent hlut í honum sumarið eftir. Útgreið­an­legt umfram eigið fé var metið á rúm­lega 30 millj­arða króna af grein­endum í aðdrag­anda söluútboðsins. 

Landsbankinn, stærsti banki landsins sem er að nær öllu leyti í eigu ríkisins, hefur hins vegar haldið að sér höndum og byggt upp umtalsvert umfram eigið fé. Eiginfjárhlutfall hans í lok september var 24,1 prósent en krafan um eiginfjárgrunn í heild 20,4 prósent. Það er því svigrúm til staðar hjá eiganda Landsbankans til að greiða sér út tugi milljarða króna í umfram eigið fé með sérstakri arðgreiðslu sé vilji til þess. 

Lilja Björk Einarsdóttir er bankastjóri Landsbankans. Mynd: Landsbankinn

Ofan á það er Landsbankinn með risastóra hlutabréfaeign sem tækifæri er til að losa um í allra nánustu framtíð. Alls á bankinn 14,2 prósent í Eyri Invest, stærsta eiganda Marel með 24,7 prósent hlut. Marel er á lokametrunum með að sameinast bandaríska félaginu JBT og virði bréfa félagsins hefur hækkað um 49 prósent á síðastliðnu ári. Íslenskir hluthafar hafa val um að fá reiðufé fyrir hlutabréf sín í Marel, blöndu af hlutabréfum í sameinuðu félagi og reiðufé eða bara hlutabréf. Þeir hafa til 20. desember næstkomandi að samþykkja eða hafna samrunanum. 

Landsbankinn hefur reynt að selja hlut sinn í Eyri Invest áður, bæði 2016 og 2018, í opnu söluferli enda stefna bankans að selja eignir sem hann heldur á en eru ekki hluti af kjarnastarfsemi bankans. Í hvorugt skiptið tókst að koma hlutnum út. Nú gefst Landsbankanum nýtt tækifæri til að losa um þessa eign og auka verulega við umfram eigið fé sitt. Fordæmi eru fyrir því að greiða út sérstakar arðgreiðslur eftir stórar sölur í íslensku viðskiptalífi. Arion banki seldi greiðslumiðlunarfyrirtækið Valitor fyrir nokkrum árum og greiddi söluandvirðið út hluthafa. Síminn gerði slíkt hið sama þegar hann seldi Mílu og Origo líka eftir að hafa selt Tempo. 

Fákeppni vegna „krónuálagsins“

Enn aftur af áróðri bankanna um að það sé „Íslandsálaginu“ að kenna að vextir á íslensk íbúðalán eru ekki lægri. Nú er það þannig að íslensku bank­arnir starfa að mestu bara á Íslandi. Viðskiptavinir þeirra eru íslensk heimili og fyrirtæki og þeir eru einu fjár­mála­fyr­ir­tækin í heim­inum sem nota íslenska krónu. Sá gjaldmiðill kemur svo í veg fyrir að erlendir bankar íhugi það að koma inn á íslenskan bankamarkað. Áhættan af „krónuálaginu“ er of mikil og ávinningurinn í stóra samhenginu allt of lítill. 

Fyrir þá sem þurfa á við­skipta­banka­þjón­ustu að halda ríkir ekki, og hefur aldrei ríkt, nein alvöru sam­keppni milli banka á Íslandi. Það er fullkomið fákeppnisumhverfi, þægileg uppskipting á kúnnum og samþjöppun valds hjá þeim sem ráða því hverjir fá fyrirgreiðslu og hverjir ekki. Það er helst að líf­eyr­is­sjóð­irnir hafi hrist upp í kyrr­stöð­unni á íbúða­lána­mark­aði með því að bjóða sjóðs­fé­lögum sínum stundum miklu betri vaxta­kjör en bank­arnir bjóða. Þau íslensku fyrirtæki sem eru nægilega stór og starfa alþjóðlega eru flest búin að yfirgefa þetta krónuhagkerfi, að minnsta kosti að hluta, og fá mun betri vaxtakjör hjá erlendum bönkum. 

Stungu síðustu lækkun í vasann

Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á notaði ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Vinstri grænna og Framsóknarflokks tækifærið og lækkaði hinn svokallaða bankaskatt, sérstakan skatt sem lagður hefur verið á starfsemi banka árum saman úr 0,376 í 0,145 prósent af heildarskuldum yfir 50 milljarða króna. Áætlað hefur verið að skattalækkunin hafi minnkað skattgreiðslur stóru bankanna þriggja um samtals tólf milljarða króna frá því að ráðist var í hana 2020 og til loka yfirstandandi árs. 

Bankarnir höfðu árum saman kallað eftir lækkuninni og sagt að með henni myndi vaxtamunur – munurinn á  á þeim vöxtum sem bank­arnir borga fyrir að fá pen­inga að láni og þeim vöxtum sem þeir rukka fyrir að lána ein­stak­lingum og fyr­ir­tækjum fjár­muni – dragast saman. Ein eftirminnilegasta gagnrýnin var frá Höskuldi Ólafssyni, þáverandi bankastjóra Arion banka, þegar ársuppgjör bankans var birt árið 2016. Þar gagnrýndi hann stjórn­völd í land­inu fyrir að fram­lengja banka­skatt­inn, sem hann sagði fyrst og fremst stuðla að hærra vaxta­stigi í land­inu, sérstaklega á íbúða­lána­mark­aði. „Þar sem skatt­ur­inn leggst á fjár­mögnun banka þá leiðir hann til kostn­að­ar­auka hjá við­skipta­vinum bank­anna og stuðlar þegar allt kemur til alls að hærra vaxta­stigi í land­inu. Mik­il­vægt er að þessi skatt­lagn­ing verði end­ur­skoð­uð.“

Lán til heimila og fyrirtækja yrðu, samkvæmt yfirlýsingum eins og þessari, ódýrari ef bankaskatturinn yrði lækkaður. Þegar það loks gerðist þá varð auðvitað ekkert af því. Þess í stað stungu bankarnir þrír ávinningnum af skattalækkuninni í vasann. Þeir notuðu hann til að auka arðsemi sína, og hluthafa sinna.

Þrjár af fjórum krónum vaxtatekjur

Þetta sést ágætlega á níu mánaða uppgjöri stóru bankanna þriggja í ár. Þar kemur fram að um þrjár af hverjum fjórum krónum sem þeir öfluðu á tímabilinu voru vaxtatekjur af lánum. Þær mynda stóran hluta af hagnaði bankanna á sama tíma og svimandi háir vextir og verðbólga hafa aukið árleg vaxtagjöld heimila um tugi milljarða króna á örfáum árum. 

Þrátt fyrir að bankaskattur hafi verið lækkaður mikið og mikill árangur hafi náðst í því að lækka rekstrarkostnað banka, er vaxtamunur enn mjög hár. Hann var 2,7 til 3,1 prósent á árinu 2022, sem er meiri munur en var árið áður, þegar hann var 2,3 til 2,8 prósent. Nú er hann 2,9 til 3,1 prósent, mestur hjá Arion banka en minnstur hjá Landsbankanum. 

Þessi vaxtamunur er sögulega mjög mikill í norrænum samanburði. Í skýrslu starfshóps um greiningu á gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna sem birt var í fyrrasumar sagði að hjá öðrum norrænum bönkum af svipaðri stærð og þeir íslensku sé hann 1,6 prósent og hjá stórum norrænum bönkum sé hann enn minni, eða 0,9 prósent. 

Hver er eiginlega undir álagi?

Það bendir því ekkert til þess í sögunni að lækkun á sértækum sköttum, háum eiginjárkröfum eða óvaxtaberandi bindiskyldu Seðlabankans, sem bankamenn kalla nú saman „Íslandsálagið“, muni skila íslenskum neytendum neinum ávinningi. Miklu meiri líkindi eru til þess að lækkun þess yrði notað til að skófla frekari peningum út úr bönkunum til hluthafa. Vissulega er það þannig að ríkið og lífeyrissjóðir eru stórir eigendur að bankakerfinu, en þar er líka að finna fullt af einkafjárfestum sem eru helsti drifkrafturinn á bakvið þá stefnu að reyna að tappa af kerfinu eins miklu fé og hægt er. 

Svo má auðvitað velta fyrir sér af hverju „Íslandsálaginu“ er velt á viðskiptavini banka í fákeppnisumhverfi? Af hverju eru þeir ekki látnir taka það á kassann og lækka einfaldlega arðsemiskröfuna sína, þær hlutfallslegu væntingar sem stjórnir þeirra hafa til ágóða? 

Í áðurnefndri skýrslu frá því í fyrrasumar kom meira að segja fram að þrátt fyrir „Íslandsálagið“ hafi arðsemi eigin fjár bankanna farið úr 6,1 prósent á árinu 2018 í árið 2022 10,7 prósent. Þetta er allt ívið meira en hjá bönkum af svipaðri stærðargráðu á hinum Norðurlöndunum, þar sem hún var 9,6 prósent á sama tíma. Arðsemin var líka meiri þegar borin er saman arðsemi heildareigna, sem var 1,5 prósent hjá íslensku bönkunum en að meðaltali eitt prósent slétt hjá öðrum norrænum bönkum af svipaðri stærð. 

Það er fásinna að bankar tali um sérstakt „Íslandsálag“ þegar allt ofangreint er talið saman. Nær væri að heimili og fyrirtæki landsins töluðu um slíkt álag í ljósi þeirra fjarstæðukenndu vaxtakjara sem þeim bjóðast og skila því að vaxtakostnaður hér á landi er miklu hærri en í öllum samanburðarlöndum. Álag sem er vegna of hárra arðsemiskrafna bankanna sem bætist við áðurnefnd „krónuálag“.

Reply

or to participate.