- Kjarnyrt
- Posts
- Þetta þarf ekki að vera svona – Saga af fúski og sérhagsmunagæslu
Þetta þarf ekki að vera svona – Saga af fúski og sérhagsmunagæslu
Meirihluti atvinnuveganefndar laumaði inn breytingum á frumvarpi á búvörulögum í vor sem gerðu risa í landbúnaði að fríríki. Eftir samþykkt laganna var bann við samráði þeirra á milli afnumið. Formaður nefndarinnar átti fjárhagslega hagsmuni undir afgreiðslunni. Nú hefur dómstóll staðfest að hún var stjórnarskrárbrot.
Alvarlegustu afleiðingar bankahrunsins haustið 2008 voru þær að traust milli almennings og lykilstofnana í samfélaginu hvarf. Þetta traustleysi er helsta ástæða þess pólitíska óstöðugleika sem ríkt hefur á Íslandi síðastliðinn rúm 15 ár. Fólk telur margt stjórnmálafólk ekki vera að vinna fyrir almannahag. Að það sé að vinna fyrir einhvern annan hag. Að starf þeirra sé ekki þjónustustarf heldur valdastaða. Að hlutverk þeirra sé að deila út gæðum í stað þess að tryggja líf með reisn, öryggi og tækifærum fyrir sem flesta.
Til að reyna að endurheimta þetta traust hefur ýmislegt verið reynt. Það hafa verið gerðar rannsóknarskýrslur. Sett lög um aukið gagnsæi og eftirlit. Skrifaðar reglur um hæfi og ábyrgð. Stundum hefur náðst árangur og eitt skref verið stigin áfram. Í kjölfarið hefur þó, því miður, nær undantekningarlaust verið stigin tvö skref afturábak.
„Aðför að neytendum“
Seint í mars síðastliðnum var afgreitt frumvarp á Alþingi sem hafði þær afleiðingar að afurðastöðvum í landbúnaði var gefið frítt spil um að stunda ólögmætt samráð samkvæmt íslenskum lögum. Um var að ræða lagabreytingu sem stjórnendur afurðastöðva sem framleiða lamba-, kjúklinga- og svínakjöt höfðu lengi stefnt að og til stóð að keyra í gegnum Alþingi fyrir nokkrum árum, en var þá stöðvað eftir harða andstöðu Samkeppniseftirlitsins, Neytendasamtaka, og ýmissa hagaðila í verslun og þjónustu. Í umsögnum um það var frumvarpið meðal annars kallað „aðför að neytendum“.
Í þetta skiptið var ráðist í lævísari aðferðir til að tryggja risunum í íslenskum landbúnaði þá niðurstöðu sem þeir ætluðu sér. Hvað fyrirtæki eru það? Helst má nefna Kaupfélag Skagfirðinga, Langasjó (sem á Matfugl, Síld og fisk/Ali, leigufélagið Ölmu og fleiri), Sláturfélag Suðurlands og Stjörnugrís. Tvö fyrstnefndu eru risafyrirtæki sem hafa verið rekin með tug milljarða króna hagnaði á undanförnum árum.
Hjálp frá lögmanni
Í nýju atrennunni var fyrst lagt fram frumvarp sem innihélt ekki heimild fyrir kjötafurðastöðvar til að hafa með sér samráð um verkaskiptingu, verðlagningu eða aðra þætti starfseminnar sem ólögmætt er í öðrum atvinnugreinum. Það átti heldur ekki að innihalda heimild fyrir kjötafurðastöðvar til að sameinast án takmarkana eða að veita þeim fullt sjálfdæmi um verðlagningu til bænda, smásala eða neytenda.
Þegar kom að lokametrum á afgreiðslu frumvarpsins var lagabreytingunni, sem tryggði landbúnaðarrisarnir gætu stýrt verði og neyslu á afurðunum sem þeir framleiða eins og þeim sýnist, laumað inn í frumvarpið af meirihluta atvinnuveganefndar Alþingis. Lögmaður sem unnið hefur fyrir stærsta landbúnaðarfyrirtæki landsins, Kaupfélag Skagfirðinga, og er lögmaður Samtaka afurðastöðva í landbúnaði, hjálpaði atvinnuveganefnd að skrifa breytingartillöguna.
Víðtæk hagsmunagæsla
Fjölmiðlar greindu frá því að forysta Kaupfélagsins og fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins hafi beitt sér í formannskjöri í Bændasamtökunum skömmu áður, sem leiddi til þess að sitjandi formaður tapaði og samtökin breyttu í kjölfarið afstöðu sinni gagnvart lagasetningunni.
Þegar aðrir haghafar komust á snoðir um það sem væri að gerast var það um seinan og frumvarpið var afgreitt sem lög í flýti. Afleiðingin er sú að risar í landbúnaði biðja okkur nú um að treysta sér til að fara ekki illa með það vald, sem þeim er afhent eftirlitslaust.
Samkeppniseftirlitið, Neytendasamtökin, VR, Félag atvinnurekenda og fleiri gagnrýndu bæði vinnubrögð nefndarinnar og lögin sjálf af miklum móð. Meðal annars hefur verið bent á að verulegur vafi leiki á því hvort lögin væru í samræmi við EES-samninginn, að þau séu aðför að neytendum og geri bændur í raun að leiguliðum afurðastöðva. Þá var á það bent að vinnubrögðin við afgreiðslu laganna gætu mjög auðveldlega verið í andstöðu við stjórnarskrá lýðveldisins.
Úr nefnd í ráðherrastól
Á meðal þeirra sem sátu í atvinnuveganefnd þegar lagabreytingunni var laumað inn var Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir. Hún var raunar á meðal þeirra sem stóðu að breytingatillögunni umdeildu. Þremur vikum eftir að það sérhagsmunadekur lukkaðist var Bjarkey óvænt orðin matvælaráðherra, í kjölfar þess að stokkað var upp í ríkisstjórnarsamstarfi vegna forsetaframboðs Katrínar Jakobsdóttur.
Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir tók við lyklum að matvælaráðuneytinu úr hendi Svandísar Svavarsdóttur þann 10. apríl síðastliðinn. Mynd: Stjórnarráðið
Matvælaráðuneytið hafði í millitíðinni sent bréf til atvinnuveganefndar þar sem hún var harðlega gagnrýnd fyrir vinnubrögðin við afgreiðslu á búvörulögunum. Sú gagnrýndi beindist, eðli málsins samkvæmt, líka að nýja ráðherranum. Fá ef nokkur dæmi eru um að slík gagnrýni hafi komið frá fagráðuneyti til fagnefndar Alþingis.
Áfram hélt gagnrýni á frumvarpið að flæða fram. Formaður Neytendasamtakanna sagði til að mynda í að meðferð Alþingis á málinu hlyti að stappa nærri spillingu. Úr ranni þeirra sem höfðu hag af frumvarpinu var líka reynt að spyrna við. Í leiðara Morgunblaðsins – Kaupfélag Skagfirðinga er á meðal stærstu eigenda þess – var þannig skammast yfir bréfinu til atvinnuveganefndar. „Þetta bréf er ótrúleg nóta, óskammfeilin og óþolandi umvöndun framkvæmdavaldsins við löggjafann í berhögg við stjórnskipan landsins. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, hinn nýi matvælaráðherra, hlýtur að draga bréfið til baka og biðja Alþingi afsökunar,“ skrifaði leiðarahöfundurinn.
Bæði Bjarkey og Þórarinn Ingi Pétursson, þingmaður Framsóknarflokks og formaður atvinnuveganefndar, héldu sig á þessari línu. Halda skyldi kúrs sama hvað. Þau gáfu það bæði út að ekkert væri við málsmeðferðina að athuga.
Formaðurinn átti hlut
En þetta var ekki allt, heldur kom í ljós í sumar að Þórarinn Ingi, formaður atvinnuveganefndarinnar sem keyrði breytinguna í gegn, átti hlut í Búsæld ehf., félagið sem átti rúmlega 43 prósent hlut í Kjarnafæði Norðlenska hf. Hluthafar Kjarnafæðis Norðlenska höfðu þá samþykkt að selja félagið til Kaupfélag Skagfirðinga á grundvelli fríríkislaganna. Hann hefði getað fengið sex og hálfa milljón króna fyrir hlutinn, rúmlega tvöfalt bókfært verð hans, en eftir að málið komst í hámæli greindi Þórarinn Ingi frá því að hann ætlaði ekki að selja. Það er þó engri loku skotið fyrir að hann selji hlutinn síðar, enda kominn nýr verðmiði á hlutaféð.
Á mánudag komst héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu, í máli sem Innes höfðaði gegn Samkeppniseftirlitinu vegna laganna, að undanþága kjötafurðastöðva frá samkeppnislögum stríði gegn stjórnarskránni og hafi ekki lagagildi. Dómurinn segir að lagabreytingin brjóti gegn 44. grein stjórnarskrárinnar þar sem kveðið er á um að ekkert lagafrumvarp megi samþykkja nema það hafi verið rætt við þrjár umræður á Alþingi. Von er á fleiri dómum.
Til að skilja hversu mikið frumvarpinu var breytt milli umræðna er sennilega best að lesa þessa stuttu færslu Páls Rúnars M. Kristjánssonar, lögmanns Innes. Myndirnar sem fylgja henni sýna þetta svo skýrt svart og yfirstrikuðu á hvítu.
Lögmenn vöruðu víst við
Þórarinn Ingi, sem er í framboði til þings í kosningunum eftir rúma viku, brást við dómnum með því að segja að markmið með búvörulögum hafi ekki breyst við meðferð nefndarinnar. Hann bætti við, í samtali við Vísi, að lögfræðingar nefndarsviðs Alþingis hafi ekki talið að atvinnuveganefnd hafi farið út fyrir rammann hvað varðar breytingu á frumvarpinu. Þórarinn Ingi sagðist líka bara vera ósammála dómsvaldinu.
Þessi afstaða formanns atvinnuveganefndar reyndist ekki eldast vel. Degi eftir að að hann setti hana fram var birt frétt á RÚV um minnisblað nefnda- og greiningasviðs Alþingis um aðdraganda afgreiðslu meirihluta atvinnuveganefndar á búvörulögum umdeildu. Í fréttinni segir: „Í minnisblaðinu kemur fram að lögfræðingar á nefnda- og greiningarsviði Alþingis hafi fundað með formanni atvinnuveganefndar áður en málið var afgreitt úr nefnd. Þar hafi honum verið tjáð að fyrirhugaðar breytingar væru það miklar að best færi á því að leggja fram sérstakt frumvarp um sama efni.“
Lögfræðingarnir bentu líka á að fulltrúar Matvælaráðuneytisins hafi ekki komið að vinnslu þeirra breytingartillagna sem lagðar voru til líkt og vanalegt er „þegar um jafn viðamiklar breytingar er að ræða og lagðar voru til á þingmálinu.“
Hægt að auka traust
Snemma í apríl birti forsætisráðuneytið nýja handbók um siðareglur ráðherra. Í handbókinni segir meðal annars: „Í daglegu tali er sú háttsemi að misbeita valdi sínu í þágu eigin hagsmuna eða hagsmuna tengdra aðila kölluð spilling. Spilling er meinsemd sem hefur neikvæð áhrif á frammistöðu stjórnvalda og hagkvæmni stjórnkerfisins í heild auk þess sem hún grefur undan trausti á stjórnmálum og stjórnsýslu. Traust stuðlar aftur að bættri frammistöðu og hagkvæmni þar sem það auðveldar stjórnvöldum að framkvæma stjórnarstefnu að njóta almenns trausts borgaranna.“
Yfirlýstur tilgangur með setningu siðareglnanna á sínum tíma var að stuðla að auknu trausti almennings á stjórnsýslunni. Kjósendur geta nú metið hvort framganga ráðherra í þessu máli, sem lýst var sem aðför að neytendum, hafi verið til þess að auka traust. Þeir geta líka tekið með inn í dæmið hvort að það sé neytendum til happs að samkeppnislög hafi verið tekin úr sambandi fyrir stærstu landbúnaðarfyrirtæki landsins. Þeir geta líka metið hvort þátttaka Þórarins Inga, sem átti skýra fjárhagslega hagsmuni undir, í meðferð málsins standist siðareglur þingmanna þar sem stendur að slíkir eigi „ekki nýta opinbera stöðu sína til persónulegs ávinnings fyrir sig eða aðra“ og forðast „árekstra milli almannahagsmuna annars vegar og fjárhagslegra eða annarra persónulegra hagsmuna sinna eða fjölskyldu sinnar hins vegar.“
Þetta þarf nefnilega ekkert að vera svona.
Þegar kjósendur gera slíkt má benda þeim á að hafa eftirfarandi færslu Pawels Bartoszek, frambjóðanda Viðreisnar, til hliðsjónar. Þar bendir hann á að frá því að ný búvörulög tóku gildi hafi almennt verðlag hækkað um 1,7 prósent. Verð á kjöti hefur hins vegar hækkað um 3,2 prósent.
Er það til happs fyrir neytendur?
Reply