- Heimasíða Þórðar Snær Júlíussonar
- Posts
- Þetta verður allt í lagi ... ef mamma og pabbi eiga pening
Þetta verður allt í lagi ... ef mamma og pabbi eiga pening
Sá hópur sem telur sig búa við efnislegan skort á Íslandi tvöfaldaðist milli áranna 2022 og 2023. Á sama tíma hefur fjöldi þeirra sem fá stuðning til að komast inn á húsnæðismarkað aukist gríðarlega. Sá stuðningur er verulega háður baklandi fólks. Það að foreldrar eigi fjármagn til að hjálpa börnum sínum í þessu risaskrefi í lífinu er orðið lykilbreyta í því hvort þau eigi yfir höfuð möguleika á að eignast eigið húsnæði.
Víglínur stjórnmála á Íslandi í dag snúast, að minnsta kosti að hluta til, um það hvernig eigi að mæla árangur. Ráðandi afl í sitjandi ríkisstjórn þreytist ekki á að segja okkur að við höfum sennilega aldrei haft það betra. Hagvaxtatölur síðustu ára sýni það svart á hvítu.
Aðrir, þar á meðal ég, benda á að það sé til góður hagvöxtur og verri hagvöxtur fyrir þjóðríki. Hagvöxturinn sem hefur verið hér hefur verið drifinn áfram af fólksfjölgun og þar af leiðandi ekki verið nægilega mikill þegar honum er deilt niður á hvern íbúa. Störfin sem hafa orðið til hafa flest verið lágframleiðnistörf í þjónustuiðnaði stað þess að leggja áherslu á að fjölga störfum í geirum þar sem framleiðni er miklu meiri og launin hærri.
Þessi stefna er afleiðing af aðgerðum, og á stundum aðgerðarleysi, þeirra sem hafa setið í ríkisstjórn á síðustu árum. Vöxturinn hefur ekki verið sjálfbær og hann hefur haft mikil, og alvarleg, neikvæð hliðaráhrif á önnur svið samfélagsins. Á húsnæðismarkað. Á heilbrigðiskerfið. Á skólanna okkar, samgöngur, löggæslu og aðra innviði.
Ávinningnum af honum hefur svo verið verulega misskipt milli þegnanna. Það eru til sigurvegarar síðustu ára. Og það eru til sýnilegir taparar.
Einstaklingur frekar en samfélag
Það er verið að þykjast að reka velferðarpólitík í landinu þegar áherslan hefur fyrst og síðast verið á það að nýta aukið svigrúm til að lækka skatta á suma í stað þess að styrkja tekjustofna til að borga fyrir betri almannaþjónustu fyrir alla. Með þessu er verið að ala á einstaklingshyggju og draga úr samtryggingu. Að svelta velferðarkerfin þannig að fólk missi trú á þeim og fari að halda að það sé ekki raunverulega til peningur til að fjármagna þau þannig að kerfin standi öllum landsmönnum til boða. Í staðinn þurfi fólk einfaldlega að borga fyrir velferð sína sjálft. Leita lausna á eigin vandamálum. Kaupa sig fram fyrir röðina.
Slíkt andrúmsloft einstaklingshyggju hentar líka þegar verið er að raða strámönnum út um alla umræðu til að stilla upp hópum í „við“ og „þið“ fylkingar. Að í samfélaginu gildi einhverskonar „zero-sum“ fyrirkomulag þar sem aukinn stuðningur við einn hóp sé ástæðan fyrir því að annar hafi það skítt.
Það er verið að senda þau skilaboð að hver og einn eigi bara að sjá um sig sjálfur og því sé eins gott að reyna að tryggja að þú hafir sem mest á milli handanna til að verða ekki undir í baráttunni.
Tvöfalt fleiri búa við efnislegan skort
Hvaða áhrif hefur þessi stefna haft? Að svelta velferðarkerfið til að lækka ákveðna skattstofna og hækka ekki aðra til að standa undir sjálfsagðari þjónustu sem um leið myndi dempa sveiflur og vöxt sem verður of mikill?
Ein birtingarmynd sést í nýlegum tölum sem Hagstofan birti. Þar kom fram að sá hópur landsmanna sem telur sig búa við efnislegan skort tvöfaldaðist milli áranna 2022 og 2023. Hann taldi sjö þúsund manns fyrra árið en 14.300 í fyrra. Hópurinn hefur ekki verið stærri síðan árið 2019.
Þeir sem teljast búa við skort á efnislegum gæðum búa á heimili þar sem að minnsta kosti þrennt af eftirfarandi á við:
Hafa lent í vanskilum húsnæðislána eða annarra lána vegna fjárskorts á síðastliðnum tólf mánuðum.
Hafa ekki efni á að fara árlega í vikulangt frí með fjölskyldunni.
Hafa ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð að minnsta kosti annan hvern dag.
Geta ekki mætt óvæntum útgjöldum.
Hafa hvorki efni á heimasíma né farsíma.
Hafa ekki efni á sjónvarpstæki.
Hafa ekki efni á þvottavél.
Hafa ekki efni á bíl.
Hafa ekki efni á að halda húsnæði nægjanlega heitu.
Hagstofan sýnir að það er fyrst og fremst ungt fólk sem segist upplifa aukin skort á efnislegum gæðum. Fjöldi þeirra sem eru á aldrinum 18 til 44 ára sem sögðust vera í þeirri stöðu árið 2022 var um 2.300. Árið síðar var hann kominn upp í 5.700. Það er aukning upp á 148 prósent milli ára.
Áhrifin eru á móti langminnst á þá sem eru 65 ára og eldri og mikill munur er á áhrifum eftir menntun og kyni. Því lægra menntunarstig því meiri áhrif og konur eru að upplifa skortinn harðar en karlar.
Skortur á efnislegum gæðum var líka algengari á heimilum á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og er miklu meiri hjá þeim sem eru fastir á leigumarkaði, þar sem 12,2 prósent upplifa hann, en þeim sem hafa komið sér upp eigin húsnæði, þar sem hlutfallið var 2,1 prósent í lok síðasta árs.
Fleiri sjá á eftir efnislegum gæðum
Þegar horft er yfir stöðuna á honum þá má ljóst vera að hópurinn sem býr við skort á efnislegum gæðum hefur stækkað umtalsvert það sem af er þessu ári. Vaxtagjöld hafa enda hafa enda aukist mun hraðar en ráðstöfunartekjur heimila. Í nýlega birtu fjárlagafrumvarpinu segir að þau hafi hækkað um sem nemur tvö prósent af ráðstöfunartekjum heimila síðan þau voru lægst árið 2021. „Vaxtagjöld hafa þannig að meðaltali aukist um sem nemur meira en eins árs vexti kaupmáttar í venjulegu árferði. Fyrir heimili með íbúðalán hefur hækkun vaxta þannig vegið á móti aukningu kaupmáttar.“
Frá miðju þessu ári og út næsta ár munu svo óverðtryggð lán upp á 450 milljarða króna, sem eru með vegna fasta vexti á bilinu 4,57 til 5,90 prósent, losna. Þá þurfa þeir sem eru með slíkt lán annað hvort að fara í verðtryggða vexti í 5,4 prósent verðbólgu – sem stóru bankarnir þrír hafa nú allir hækkað myndarlega til að halda uppi arðsemiskröfu sinni – eða sætta sig við um ellefu prósent óverðtryggða vexti.
Staðan er án efa að versna
Það er athyglisvert að þessi þróun, að mun fleiri upplifi skort á efnislegum gæðum en áður, er að eiga sér stað á sama tíma og uppfærðar tölur Hagstofunnar sýna að heilt yfir hafi kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist lítillega í fyrra, þótt hann sé reyndar á hraðri niðurleið í ár.
Það hlýtur að benda til þess að ákveðnir betur settir hópar halda sínum kaupmætti, og bæta jafnvel við hann á tímum hárra vaxta og mikillar verðbólgu, á sama tíma og efnahagsleg vandræði annarra halda áfram að verða dýpri. Þetta er líka að gerast á sama tíma og eigið fé íslenskra heimila jókst um 1.386 milljarða króna, en 83 prósent aukningarinnar má rekja til þess að virði fasteigna hækkaði á milli ára. Um helmingur þessa nýja auðs sem varð til í íslensku samfélagi fór til þeirra tíundar sem átti mest. Um það fjallaði ég nýverið hér:
Þetta eru líka hóparnir sem hafa fengið mest úr ríkissjóði í húsnæðisstuðning síðastliðinn áratug, líkt og ég fjallaði um hér:
Önnur athyglisverð staðreynd er að samkvæmt nýlegu minnisblaði fjármála- og efnahagsráðuneytisins til ríkisstjórnar Íslands þá hefur fyrstu íbúðakaupendum fjölgað það sem af er ári þrátt fyrir svimandi hátt vaxtastig. Það eru semsagt einhverjir í hópi ungs fólks sem eru ekki að upplifa sömu vandamál og sífellt stærri hópur samferðafólks þeirra.
Hún er sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri sagði fyrir nokkrum árum að lífskjör fólks á Íslandi ráðist „mjög á stöðu þess á fasteignamarkaði. Hvenær fólk kom inn á fasteignamarkaðinn og á hvaða aldri þú ert.“ Þegar Seðlabankinn greindi frá því að hann væri að lækka veðsetningshlutfall þeirra lána sem byðust fólki þá sagði Ásgeir að aðgerðin fæli „kannski í sér að foreldrar þurfi að vera með börnin lengur heima eða eitthvað álíka.“
Mamma og pabbi borga fyrir suma
Í minnisblaðinu segir orðrétt: „Vísbendingar eru um að meirihluti fyrstu kaupenda njóti einhvers konar aðstoðar við að fjármagna kaupin, t.d. frá skyldmennum, og að umfang aðstoðarinnar hafi vaxið undanfarin tvö ár [...] Hér er horft til íslenskra ríkisborgara, en hjá erlendum ríkisborgurum er staðan önnur, m.a. þar sem meirihluti þeirra hefur ekki búið á landinu nema í nokkur ár.“ Raunar hefur hlutfall erlendra ríkisborgara sem á fasteign lækkað á síðustu árum, samhliða því að þeim hefur fjölgað meira hérlendis en í nokkru OECD-ríki. Í minnisblaðinu kemur líka fram að ungt fólk í efstu tekjuhópunum á mun greiðari aðgang að kaupum á fasteign en aðrir. Þar segir: „hlutfall íbúðaeigenda í efri helmingi tekjudreifingar ungs fólks hefur aukist hraðar en í neðri helmingnum. Um 70 prósent íslenskra ríkisborgara í efsta tekjufimmtungi 25-29 ára á fasteign. Hjá neðsta tekjufimmtungnum er hlutfallið 30 prósent.“
Stöldrum aðeins við og greinum þetta. Þröskuldurinn inn á íbúðamarkað hefur hækkað mikið. Fyrir þá sem þurfa að takast á við hann án stuðnings foreldra eða annarra velgjörðarmanna hefur múrinn sem þarf að klífa stækkað og ágrónu axlaböndin sem auknar takmarkanir Seðlabankans á veðsetningarhlutfalli og greiðslubyrði eru hafa þyngst.
Seðlabankastjóri hafði því rétt fyrir sér í yfirlýsingum sínum sem vitnað var til hér að ofan. Hann sagði hins vegar ekki að þetta gilti bara um þá sem eiga ekki vel stæða foreldra, bara alla hina.
Fyrir þau sem eiga mömmu og pabba sem nutu verulega góðs af þeim aðgerðum sem gripið var til á faraldurstímum sem ýttu upp eignaverði og stórjuku sparnað, eða unnu í stærsta íslenska lottóinu og komust inn á markaðinn á réttum tíma, þá er þetta nefnilega ekki fyrirstaða. Mamma og pabbi geta hjálpað til við að borga.
Tilfærsla á auð
Í títtnefndu minnisblaði segir að ætla megi að tvennt hafi valdið þessum aukna fjárhagsstuðningi til fyrstu kaupenda. „Annars vegar má segja að hækkun húsnæðisverðs hafi falið í sér tilfærslu auðs frá þeim sem búa ekki í eigin húsnæði til þeirra sem það gera, gjarnan frá ungu fólki til eldra fólks eða frá börnum til foreldra. Með stuðningi við fyrstu kaup barna má líta svo á að foreldrar séu að skila hluta tilfærslunnar til baka. Hins vegar kann aukinn stuðningur að vera leið fjölskyldna til þess að víkja sér undan ströngum reglum um veðsetningu og greiðslubyrði. Eðli máls samkvæmt er þessi stuðningur verulega háður baklandi fólks.“
Þau sem eiga ekki slíkt bakland, uppfylla ekki eiginfjárkröfur lánveitenda og reglur Seðlabankans eiga einn opinberan kost til að komast inn á húsnæðismarkað. Hann kallast hlutdeildarlán og felur í sér að ríkið lánar vaxtalaust til þeirra sem uppfylla skilyrði fyrir slíkum lánum og fær svo endurgreitt þegar eignin er seld síðar meir. Fjármála- og efnahagsráðuneytið segir hins vegar að fyrir liggi að þetta úrræði geti „aldrei verið annað en smátt í sníðum og mjög afmarkað, rétt eins og það er nú, eigi það ekki að hækka íbúðaverð og valda óásættanlegri áhættu gagnvart efnahagslegum stöðugleika og fjármálastöðugleika sem þjóðhagsvarúðarreglum Seðlabankans er ætlað að takmarka. Nægir að vísa til aðdraganda hrunsins, þar sem veiting íbúðalána með 90-100 prósent veðhlutfalli var útbreidd, til að finna sýnidæmi um þetta.“
Eiga tækifærin sem við eigum í lífinu að ráðast af því hverra manna við erum eða af því sem við getum? Mynd: Vidal Balielo Jr./Pexels
Þess utan hafa stjórnvöld dregið það mánuðum saman að greiða út þá litlu upphæð sem ætluð er í þessi lán. Þeir sem uppfylla skilyrði, og töldu sig hafa tryggt sér lánin, sjá framtíðarheimili sín renna sér úr greipum í millitíðinni.
Litlir skattar og leiðir til að borga enga
Ráðuneytið fer yfir það að fjárhagsstuðningur foreldra geti verið með mismunandi hætti. Hann geti falið í sér lán, fjárfestingu (kaup á hlut í fasteign með börnum), fyrirframgreiddan arf eða gjöf. Almennt sé ríkissjóður ekki að fá miklar skatttekjur af þessum gjörningum og mun minna en í þeim löndum sem við berum okkur saman við. Ef um lán er að ræða þá reiknast bara skattar af því ef það er umfram frítekjumark vaxtatekna. Hagnaður foreldra af sölu á eignarhlut í fasteign barna er ekki skattlagður ef fasteignin er innan við 240 fermetrar að stærð ef um eitt foreldri er að ræða og 480 fermetra ef um hjón er að ræða.
Fyrirframgreiddur arfur sætir tíu prósent skatti. Árið 2022 greiddu þau tíu prósent landsmanna sem áttu mest börnum sínum 48,8 milljarða króna í fyrirframgreiddan arf. Hin 90 prósent landsmanna voru hálfdrættingar þeirra, og komu 24,9 milljarða króna af arfi fyrirfram til erfingja á árinu 2022.
Ef um er að ræða gjöf til barna þá ætti sú ráðstöfun að leiða til skattlagningar í launaskatthlutfalli. Hins vegar eru fá dæmi um að ráðstöfun til barna hafi sætt skattlagningu sem gjöf og spilar þar inn í að strangar sönnunarkröfur hafa verið lagðar á skattyfirvöld að sýna fram á að um gjöf sé að ræða, en ekki lán.
Þetta er alveg hægt
Það er áhyggjuefni þegar það er farið að skipta meira máli hverra manna þú ert en hvað þú getur þegar kemur að tækifærum til þess að öðlast grundvallarmannréttindi eins og þau að geta eignast öruggt þak yfir höfuðið. Það er líka áhyggjuefni þegar þessi staða eðlileg í huga margra. Að þeir sem hafa notið þeirrar gæfu að fara inn á fasteignamarkað á réttum tíma, eða hafa notið þess að örvunaraðgerðir ríkisstjórnarinnar á faraldurstímum hafa beinst að vösum þeirra, líti svo á að þeir búi yfir meiri verðleikum en aðrir. Að þeir eigi skilið þá forréttindastöðu að geta tryggt börnum sínum og öðrum niðjum húsnæði á sama tíma og stórir hópar í samfélaginu sem geta ekki leitað til mömmu og pabba sitja fastir í sífellt dýpri holu.
Þessi stefna, staða og hugarfar eitrar samfélagsgerðina. Eykur á misskiptingu og dregur úr jöfnuði. Hún elur á sundrungu og sendir þau skilaboð að hér sé ekkert sem heitir samfélag og samtrygging, heldur séum við einhverskonar regnhlífarsamtök einstaklinga og fjölskyldna sem berjist um brauðmolanna sem ráðandi öfl láta falla af borðinu hjá sér, í stað þess að við sitjum öll í augnhæð við borðið, pössum upp á hvort annað og hjálpumst að við að baka enn stærri köku þar sem hráefnið er aukin velferð.
Það er alveg hægt að fjármagna betri almannaþjónustu. Það er hægt með því að hækka álögur á breiðu bökin sem greiða allt of lítið til samneyslunnar. Slíkt er enginn pólitískur ómöguleiki.
Það eina sem þarf er þor og vilji.
Reply