• Kjarnyrt
  • Posts
  • Flokkarnir sem vilja kaupa sig til valda og kúgun verðleikanna

Flokkarnir sem vilja kaupa sig til valda og kúgun verðleikanna

Miðflokkurinn vill „gefa“ þjóðinni 100 milljarða króna sem hún á nú þegar og kynda með því verðbólgubálið en fá í staðinn ódýr atkvæði. Sjálfstæðisflokkurinn vill lækka skatta á breiðustu bökin um milljarða króna á ári, enda með þá yfirlýstu stefnu að vinna gegn jöfnuði og þar af leiðandi með ójöfnuði. Ef félagshyggjustjórn tekur við eftir helgi þá munu þeir sem eiga mest hins vegar greiða meira í samneysluna svo hægt sé að endurreisa velferðina í landinu. Forðist sjónhverfingar, stuðlið að nýju upphafi.

Popúlismi, eða lýðhyggja á íslensku, er skilgreindur sem hugmyndir sem lýsa vanda samfélagsins á einfaldan og yfirborðskenndan hátt og bjóða fram lausnir sem kalla mætti skyndilausnir. Einfalt meðal við flóknum sjúkdómum. Ein tærasta mynd popúlisma er sú aðferðafræði að bjóða völdum hópum kjósenda reiðufé í skiptum fyrir atkvæði sitt. Að kaupa sig til valda. Um hann eru skýr dæmi í loforðaflaumnum fyrir komandi kosningar. 

Miðflokkurinn hefur til að mynda lofað að „gefa“ þjóðinni eftirstandandi hlut ríkisins í Íslandsbanka. Hlut sem þjóðin á nú reyndar þegar. Ábúðarfullur og landsþekktur frambjóðandi flokksins segir kjósendum frá því með þægilega dinner-tónlist undir í Facebook-auglýsingu að hver landsmaður muni fá andvirði hlutabréfa upp á 370 þúsund krónur í gjöf frá flokknum kjósi þeir hann. 

Best heppnuðustu atkvæðakaup síðustu áratuga

Þetta er ekki ný hugmynd. Árið 2017, þegar Miðflokkur Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar bauð fyrst fram, ætlaði hann að gefa þjóð­inni þriðj­ungs­hlut í Arion banka, eftir að ríkið hefði nýtt sér for­kaups­rétt sinn í bank­anum og keypt hann aftur af þáverandi meiri­hluta­eig­end­um. Forkaupsrétt sem ríkið átti reyndar ekkert.

En megininntakið var auðvitað að gefa fólki beinharða peninga fyrir að kjósa sig. Það hafði Sigmundur Davíð gert áður með góðum árangri fjórum árum áður sem formaður Framsóknarflokksins. Þá hét pakkinn Leiðréttingin. Hún snerist um að greiða bætur úr ríkissjóði til þeirra sem voru með verðtryggð lán vegna verðbólguskots á árunum 2008 og 2009. Plottið svínvirkaði, Framsókn vann mikinn kosningasigur og Sigmundur Davíð varð forsætisráðherra. Kostnaður vegna þessarar aðgerðar var samtals 97,3 milljarðar króna á verðlagi ársins 2023.

Rúmlega þriðji hver skattgreiðandi landsmaður átti rétt á Leiðréttingu. Sá helmingur þjóðarinnar sem átti mestar eignir fékk 72 prósent alls þess fjár sem greitt var út vegna aðgerðarinnar. Hinn helmingurinn fékk 28 prósent. Þegar skipting hennar milli tekjuhópa er skoðuð var niðurstaðan enn ójafnari. Alls fór 86 prósent af Leiðréttingunni til tekjuhærri helmings þjóðarinnar en 14 prósent til þess sem var tekjulægri. Þau tíu prósent Íslendinga sem var með hæstu launin á því tímabili sem greitt var út úr aðgerðinni fengu tæp 30 prósent alls þess fjár sem var ráðstafað úr henni. 

Það var því verið að gefa fólki sem þurfti ekkert á þessari gjöf að halda peninga úr ríkissjóði.

Færa úr einum vasa í hinn og kynda verðbólgubálið

Árið 2021 var Miðflokkurinn í mikilli brekku. Fylgi flokksins var lélegt. Þá var gefið í og enn meiri millifærslum úr ríkissjóði lofað en áður. Nú átti að milli­færa helm­ing af afgangi rík­is­sjóðs ár hvert beint á hvern Íslend­ing á full­veld­is­dag­inn, 1. des­em­ber. Sömu­leiðis átti hver full­orð­inn Íslend­ingur að fá greitt auð­linda­gjald frá rík­is­sjóði sama dag.

Peningagjöfunum átti ekki að vera lokið þar. Miðflokkurinn hélt áfram að reyna að kaupa atkvæði með því að segjast ætla að gefa þjóðinni þriðjung í Íslandsbanka. Trikkið klikkaði og Miðflokkurinn rétt náði inn. Þorra kjörtímabilsins hefur hann verið með tvo þingmenn.

Kosningaloforðið um bankagjöfina er samt sem áður endurnýtt nú, þótt fallið hafi verið frá fullveldisdagsgreiðslunum, enda ríkissjóður rekinn í umtalsverðum halla undanfarin ár. Munurinn er reyndar sá að Miðflokkurinn vill ekki lengur gefa landsmönnum þriðjung í því sem þeir eiga nú þegar, heldur allan eftirstandandi 42,5 prósent hlut. Andvirði hans er rúmlega 100 milljarðar króna.

Nú liggur fyrir að stýrivextir hafa verið svimandi háir á Íslandi í langan tíma. Tilgangur þess hjá Seðlabanka Íslands er að fá fólk til að hætta að eyða peningum. Draga úr neyslu. Kæla hagkerfið. Þannig lækkar verðbólga. Sú hugmynd að dæla 100 milljörðum króna í veski landsmanna á þessum tímapunkti, í stað þess að nýta þá fjármuni í að byggja upp innviði eða greiða niður skuldir ríkissjóðs til að ná niður vaxtakostnaði sem slagar upp í 120 milljarða króna á ári, er hagfræðilega fullkomlega galinn. Framkvæmd hennar myndi vinna gegn öllu sem Seðlabankinn er búinn að láta okkur ganga í gegnum, með tilheyrandi ofurgreiðslubyrði á lánum, og auka verðbólgu. 

Flokkurinn sem vinnur gegn jöfnuði

Sjálfstæðisflokkurinn hefur, nokkuð óvænt, rekið alveg skelfilega andlausa kosningabaráttu. Hin vel þekkta kosningavél, sem allir hafa beðið eftir að trekkist í gang, virðist hálf máttvana. 

Flokkurinn hefur síðustu árin dundað sér við að innleiða ófjármagnaðar skattalækkanir upp á tugi milljarða króna. Tölur frá Hagstofu Íslands sýna svart á hvítu að þær skattalækkanir hafa að uppistöðu nýst þeim tíu prósentum landsmanna sem þéna mest. 

Skattbyrði efsta lagsins hefur dregist saman á meðan að hún hefur aukist hjá öllum öðrum.

Allir aðrir bera nú þyngri skattbyrði. Það rímar fullkomlega við yfirlýsingar eins þingmanns flokksins sem sagði berum orðum í sjónvarpsþætti á kjörtímabilinu: „Við sjálfstæðismenn munum aldrei tala fyrir kerfi eða umhverfi þar sem fyrsta eða æðsta markmið er að jafna kjör fólks.“

Samhliða hefur ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins valið að fjársvelta velferðarkerfin þannig að þau geta ekki sinnt þeirri almannaþjónustu sem þeim er ætlað að gera og reka ríkissjóð samt í umtalsverðum halla mörg ár í röð. 

Kúgun verðleikanna

Í örvæntingu sinni vegna vondrar stöðu samkvæmt könnunum þá hefur Sjálfstæðisflokkurinn ákveðið að leggja áherslu á að reyna að halda í sinn tryggasta kjósendahóp, breiðustu bökin sem elska skattalækkanir fyrir sig. 

Það byggir á því sjónarmiði að þetta sé eðlilegt ástand og að „verðleikar“ séu mældir í eignum. Því meiri eignir, því „verðugri“ sé einstaklingur. Allt miðar þetta við þá hugmynd að þeir sem njóti velgengni líti svo á að það sé fyrst og síðast þeim sjálfum að þakka að þeim vegni vel, ekki kerfi sem umbuni þeim umfram aðra. Og að sama skapi sé þeim sem vegni illa sjálfum um að kenna um eigin afdrif. 

Í bók bandaríska stjórnmálaheimspekingsins Michael Sandel, Kúgun verðleikanna (e. The Tyranny of Merit), er fjallað ítarlega um að tilviljanir og heppni séu helsta hreyfiafl tilverunnar. Hvar og hverjum viðkomandi fæðist og á hvaða tímabili hæfileikar hans geta gagnast. Þessi ofurtrú á verðleika er að mati Sandel stórskaðleg samfélagi manna og orsök þess pólitíska og samfélagslega klofnings sem tröllríður nú heiminum.

Eitt af fyrirferðamestu loforðum Sjálfstæðisflokksins nú er til að mynda að helminga erfðafjárskatt og rúmlega þrefalda frítekjumark hans í 20 milljónir króna. Erfðafjárskattur leggst ekki á vinnu fólks eða hugvit, heldur eignir sem færðar eru milli kynslóða. Sá sem er haghafi af þeirri tilfærslu átti engan þátt í að búa til þær eignir, heldur fær þær sem forskot í lífinu á þá sem eru ekki í sömu stöðu. Sem stendur er greiddur tíu prósent skattur af þeim eignum sem börn eða aðrir niðjar erfa eftir látið fólk. Frítekjumörkin eru 6,2 milljónir króna. Það þýðir að þeir sem erfa upp að þeirri upphæð borga ekkert í skatt, en tíu prósent af öllu sem fer yfir það. Miðflokkurinn vill ganga lengra en vinir hans í villta hægrinu og afnema erfðafjárskatt með öllu. 

Það þarf ekkert að koma neinum á óvart að ríkasta fólk landsins borgar sem stendur mest í erfðafjárskatt. Í minnisblaði frá því í fyrra, sem fjármála- og efnahagsráðuneytið vann fyrir fjárlaganefnd kom fram að eignamesta tíundin hafi greitt börnum sínum um 64 prósent af öllum arfi sem var skattlagður á árinu 2022. 

Hin 90 prósent landsmanna greiddu erfingjum sínum 36 prósent.

Milljarðar í skattalækkun fyrir ríkasta fólkið

Í ár er áætlað að erfðafjárskattur skili 12,6 milljörðum króna í tekjur í ríkissjóð. Það er sama upphæð og skatturinn skilaði árið 2023 og svipuð og áætlað er að hann skili á næsta ári. Það þýðir að stofninn, það sem greitt er í arf í ár, er sennilega nálægt 130 milljörðum króna hið minnsta, enda þarf að taka frítekjumarkið með í reikninginn. Miðað við þá tölu er ríkasta tíundin að greiða sínum niðjum um 83 milljarða króna í arf á ári. Allir hinir eru að greiða sínum um 47 milljarða króna. 

Ef skattprósentan er helminguð, og frítekjumarkið rúmlega þrefaldað, má með góðu móti áætla að um sé að ræða skattalækkun upp á sjö til átta milljarða króna. Hún lendir fyrst og síðast hjá þeim sem eiga langmestu eignirnar. Ef leið Miðflokksins er farin þá er um að ræða skattalækkun upp á 12,6 milljarða króna. 

Við skulum taka tilbúið dæmi. Jón útgerðarmaður seldi kvóta fyrir nokkrum árum og fékk fyrir tíu milljarða króna. Hann greiddi einungis fjármagnstekjuskatt upp á 22 prósent af sölunni, en kvótann hafði hann fengið annars vegar endurgjaldslaust úthlutað frá ríkinu og hins vegar með því að kaupa upp kvóta annarra fyrir lánsfé úr banka á mun lægra verði en selt var fyrir. Ekkert útsvar til sveitarfélaga er greitt af fjármagnstekjum sem stendur. Því voru skattgreiðslur Jóns útgerðarmanns 2,2 milljarðar króna en hann hélt sjálfur eftir 7,8 milljörðum króna. Jón lést í ár og tvö börn hans erfðu föður sinn. Við skulum gefa okkur að dánarbúið sé gert upp eins og lög geri ráð fyrir, en ekki með því að nýta ýmiskonar glufur eins sem fyrir liggur að margir nýta til að færa eignir milli kynslóða með það að markmiði að lágmarka skattbyrðina sem því fylgir.

Miðað við núgildandi erfðafjárskatt myndu erfingjarnir greiða 780 milljónir króna til ríkisins af arfinum mínus 6,2 milljón króna frítekjumarkið, alls 773,8 milljónir króna. Ef tillögur Sjálfstæðisflokksins ganga eftir munu þau börnin greiða 370 milljónir króna að teknu tilliti til hækkaðs frítekjumarks. Það er skattaafsláttur upp á 403,8 milljónir króna fyrir tvo einstaklinga sem voru að erfa 7,8 milljarða króna. Ef tillögur Miðflokksins ganga eftir yrði skattaafsláttur kvótaerfingjanna 780 milljónir króna.

Meiri húsnæðisstuðningur við ríka

Þetta eru bara bröttustu loforð systurflokkanna Sjálfstæðisflokks og Miðflokks um tilfærslu á peningum úr ríkissjóði til hinna ríkustu. Flokkarnir vilja líka báðir framlengja skattfrjálsa ráðstöfun séreignarsparnaðar inn á húsnæðislán og hækka fjárhæðarmörk, en sitjandi ríkisstjórn ætlaði að leggja það úrræði niður. Ástæðan: alls 34 prósent þeirra rúmlega 80 milljarða króna sem ríkið hefur gefið eftir af skatttekjum framtíðar vegna úrræðisins til þessa hefur farið til ríkustu tíu prósent landsmanna. Á sama tíma hefur 20 prósent upphæðarinnar farið til þeirra 70 prósent þjóðarinnar sem er með lægstu tekjurnar og mest íþyngjandi húsnæðiskostnað.

Ofan á þetta vill Sjálfstæðisflokkurinn hækka mörkin sem þarf að fara yfir til að greiða skatt í efsta þrepi tekjuskatts. Í dag er greiddur 46,3 prósent skattur af tekjum yfir 1.252 þúsund krónum á mánuði en gangi áætlanir Sjálfstæðisflokksins eftir verður það tekjumark fær nær 1.600 þúsund krónum.  Miðflokkurinn vill líka lækka tekjuskatta og það mikið. En hann hefur ekki haft mikið fyrir því að útfæra þær hugmyndir. 

Réttlátt og uppfært Ísland

Ísland er gott land með fullt af tækifærum, en það þarf uppfærslu. Það þarf að fjármagna velferðarkerfi og innviðauppbyggingu og það þarf að sækja nýjar tekjur til þess þangað sem svigrúm er fyrir. 

Það er hægt að gera með álagningu almennra auðlindagjalda á sjávarútveg, eldi, ferðaþjónustu og orku. Sjávarútvegur hefur til að mynda, einn og sér, hagnast um 190 milljarða króna frá byrjun árs 2021 og út árið 2023. Þetta er hagnaður eftir alla fjárfestingu og greiðslu allra opinberra gjalda, meðal annars veiðigjalda. Síðustu ár hefur kakan skipst þannig að um 70 prósent af hagnaði fyrir greiðslu opinberra gjalda hefur setið eftir hjá útgerðunum en um 30 prósent farið í samneysluna. Hærra auðlindagjald á sjávarútveg með þrepaskiptingu til að hlífa smærri útgerðum, til að ná stærri hluta af auðlindarentunni til þjóðarinnar er bæði góð leið til að afla fjár til að reisa við velferðarkerfið og sanngjarnt og réttlátt.

Það er hægt að gera með hækkun fjármagnstekjuskatts úr 22 í 25 prósent. Samkvæmt skattframtölum voru fjármagnstekjur landsmanna alls 303 milljarðar króna á árinu 2023 og hækkuðu um 61 milljarða króna, eða 25 prósent, milli ára. Ríkasta eitt prósent landsmanna þénar almennt tæpan helming allra fjármagnstekna. Ríkasta 0,1 prósent landsmanna þénar rúmlega fjórðung allra fjármagnstekna. Þar er borð fyrir báru að greiða fjármagnstekjuskatt í anda hinna Norðurlandanna.

Það er hægt að gera með því að loka fyrir skattaglufur sem hafa meðal annars gert fjármagnseigendum kleift árum að telja fram launatekjur sem fjármagnstekjur, og greiða fyrir vikið mun lægri skatta en aðrir til samneyslunnar. Glufur sem metnar hafa verið á um tíu milljarða króna. Þarna er ekki verið að fara að skattleggja pípara, smiði eða hárgreiðslufólk heldur fólk í rándýrum drögtum og jakkafötum. Ríkasta lag samfélagsins.

Það er hægt ef kjósendur líta framhjá sjónhverfingum og gylliboðum um peningagjafir þegar þeir velja hvar þeir ætla að setja atkvæði sitt. Það er afar mikilvægt að þeir líti á heildarmyndina og hvað skili þeim betra og blómlegra samfélagi. Það er afar mikilvægt að þeir sjái að flestar skattalækkunarhugmyndir villta hægrisins eru til ríkustu hópa samfélagsins, og að þær veikja tilveru venjulegs vinnandi fólks. 

Því er afar mikilvægt að kjósa til valda samhenta frjálslynda félagshyggjustjórn undir forystu jafnaðarmanna sem vill laga Ísland. Hinn kosturinn er hægri stjórn íhaldsflokka sem munu, áfram sem áður, dæla peningum úr ríkissjóði í þá sem eiga nóg af þeim fyrir. Þá sem telja sig eiga það skilið, á grundvelli hugmyndar um verðleika, að kerfin virki fyrst og síðast fyrir sig en ekki alla. 

Reply

or to participate.