• Kjarnyrt
  • Posts
  • Garðabær hækkaði skatta til að hætta að reka sig á yfirdrætti

Garðabær hækkaði skatta til að hætta að reka sig á yfirdrætti

Garðabær var lengi vel það sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem rukkaði lægsta útsvarið. Það breyttist nýverið þegar ákveðið var að hækka það myndarlega svo hægt yrði að standa undir auknum verkefnum sem fallið hafa til samhliða vexti. Íbúar Garðabæjar greiða alls um 14 prósent meira í útsvar í ár en þeir gerðu í fyrra.

Sveitarfélagið Garðabær birti nýverið fjárhagsáætlun sína fyrir næsta ár, 2025. Þar kemur fram að mikill bati hafi orðið á grunnrekstri Garðabæjar, þess hluta sem fjármagnaður er með skattfé, í ár. Veltufé frá rekstri A-hlutans styrktist verulega. Það fór úr því að vera neikvætt, sem er alvarlegt, í að vera jákvætt, sem er … jákvætt.

Búist er við að smávægilegur hagnaður upp á 93 milljónir króna verði á rekstrinum á þessu ári en til að ná þeim hagnaði þarf Garðabær reyndar að selja byggingarétt fyrir 1,3 milljarða króna. Eignir voru því seldar til að brúa bilið í rekstrinum og án afraksturs sölu þeirra þá hefði Garðabær skilað tapi. 

Það vekur hins vegar athygli að Garðabær þurfti að selja mun minna af byggingarétti í ár en í fyrra til að láta enda ná saman. Þá seldi sveitarfélagið slíkan fyrir næstum 4,5 milljarða króna en skilaði einungis 1,1 milljarðs króna hagnaði. 

Árið í fyrra var nefnilega mjög erfitt hjá Garðabæ, þar sem Sjálfstæðisflokkurinn situr alltaf einn í meirihluta, og við því þurfti að bregðast. Skuldir á hvern íbúa voru til að mynda komnar í tæplega 1,9 milljónir króna og voru þær hæstu á höfuðborgarsvæðinu. 

Skuldir á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu voru hæstar í Garðabæ í lok síðasta árs. Hér er um skuldir A-hlutans að ræða, þess hlutar sem fjármagnaður er með skattekjum. Mynd: Samband íslenskra sveitarfélaga

Eina leiðin til að bregðast við því var að auka tekjur. Hækka skatta. Þeir voru ekki hækkaðir á suma. Þeir voru hækkaðir á alla sem greiða útsvar. 

Mikið af fjármagnseigendum sem greiða ekki útsvar

Það hefur lengi vel verið markmið Garðabæjar að halda útsvarinu lágu. Það þýðir á mannamáli að íbúar þar greiða einfaldlega lægri skatta en aðrir á höfuðborgarsvæðinu. Á móti hefur Garðabær sögulega haldið aftur af sér í veitingu á allskyns félagslegri þjónustu sem veitt er í flestum öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu, og aðallega Reykjavík. Farið verður betur yfir þá skiptingu hér aðeins neðar.  

Garðabær hefur hins vegar verið að vaxa mikið á síðustu árum. Íbúum hefur fjölgað mikið og eru nú ríflega 20 þúsund. Íbúarnir og húsnæðið eru fjölbreyttari og þarfirnar með. Slíkum vexti fylgja áskoranir, sérstaklega í fjárfestingu í allskyns innviðum. Skólum, leikskólum, íþróttamannvirkjum og svo framvegis. 

Vegna þessara áskorana stóð Garðabær frammi fyrir þeirri stöðu í fyrra að tekjurnar stóðu ekki undir kostnaðinum við uppbygginguna og skuldir sveitarfélagsins hrönnuðust upp. Skuldahlutfallið, sem var 101 prósent árið 2020, var komið upp í 131 prósent um síðustu áramót. Verið var að reka bæinn á yfirdrætti. 

Garðabær er líka, ásamt Seltjarnarnesi, það sveitarfélag höfuðborgarsvæðisins sem sker sig úr hvað varðar fjármagnstekjur. Það eru tekjur sem ein­stak­l­ingar hafa af eignum sín­­­­­um. Þær eru til að mynda vext­ir, arð­­­­­ur, sölu­hagn­aður eða leig­u­­­­­tekjur af lausafé og af útleigu á fast­­­­­eign­­­­­um. Þeir sem fá mestar fjár­­­­­­­magnstekjur á Íslandi eru því sá hópur ein­stak­l­inga sem á flest hluta­bréf og flestar fast­­­­eign­­­­ir. Sá hópur sem hefur sankað að sér flestum eign­­­­um. Ekki er greitt útsvar af fjármagnstekjum. 

Ef ehf-gatinu svokallaða yrði lokað myndi það gagnast Garðabæ umtalsvert, og einna mest allra sveitarfélaga. Tekjur sveitarfélagsins myndu aukast þar sem fleiri íbúar myndu borga útsvar. 

Útsvarið upp um 2,2 milljarða á einu ári

Til að takast á við þessa krefjandi stöðu ákvað bæjarstjórnin, fyrir um ári síðan, að hækka skattanna sem hún leggur á íbúa Garðabæjar. Henni varð ljóst að það væri ekki hægt að standa undir þeirri þjónustu sem bærinn þarf að standa undir, og ráðast í þær fjárfestingar sem nauðsynlegar eru fyrir sveitarfélag í vexti. Það var ábyrgð ákvörðun.

Hámarksútsvar í ár er 14,97 prósent og Reykjavík og Mosfellsbær innheimta það en bæði Hafnarfjörður og Kópavogur innheimta aðeins minna, eða 14,93 prósent. Garðabær skreið yfir 14 prósentin þegar ákveðið var að færa útsvar þess sveitarfélags úr 13,92 í fyrra í 14,71 prósent í ár. Skattaparadís höfuðborgarsvæðisins er því nú Seltjarnarnes, þar sem útsvarið er 14,54 prósent. 

Skattahækkunin hefur gert það að verkum að útsvarstekjur Garðabæjar munu hækka um 2,2 milljarða króna milli ára. Þær fara úr 15,4 í 17,6 milljarða króna. Það er aukning á útsvarstekjum upp á rúmlega 14 prósent milli ára. 

Fyrir vikið stefnir í að skuldahlutfallið lækki niður í 122 prósent, að veltufé frá rekstri verði jákvætt í ár en veltufjárhlutfallið verður einungis 0,34. Síðasti mælikvarðinn, veltufjárhlutfallið, segir til um peningalega stöðu um áramót og þumalputtareglan er að mikilvægt sé að það sé yfir 1,0. Ef það er yfir þeirri tölu þá hefur sveitarfélagið laust fé um áramót til að greiða útistandandi skuldir sem gjaldfalla á árinu, allar lausaskuldir og afborganir á lánum á yfirstandandi ári.

Skattgreiðendur í Reykjavík greiða meira fyrir félagsþjónustu

Ég minnist á þjónustu hér að ofan, og hvernig veiting hennar skiptist mjög misjafnt niður á sveitarfélög. Í stuttu máli þá axla skattgreiðendur í Reykjavík, lengi vel eina sveitarfélaginu á höfuðborgarsvæðinu sem stýrt var af öðrum en Sjálfstæðisflokknum, eða allt þar til að félagshyggju-meirihluti tók við í Mosfellsbæ 2022, mun þyngri byrðar en aðrir íbúar. 

Mest ber á milli þegar kemur að félagsþjónustu. Í tölum sem Samband íslenskra sveitarfélaga hefur tekið saman kemur fram að á árinu 2023 greiddi hver íbúi í Reykjavík 326.435 krónur í veitta félagsþjónustu. Hún hækkaði um tíu prósent milli ára og er langhæsta greiðsla á hvern íbúa hjá nokkru sveitarfélagi en vegið meðaltal var 241.088 krónur. Það þýðir að hver íbúi í höfuðborginni greiddi um 35 prósent meira í félagsþjónustu en meðallandsmaðurinn. 

Þetta er ekki að öllu leyti óeðlilegt. Höfuðborgir heims hafa oftast nær stærra hlutverki að gegna við veitingu á félagsþjónustu en aðrar borgir og bæir og þær njóta þess líka að hafa umtalsverðar tekjur af því að flestar lykil stjórnsýslubyggingar eru staðsettar í þeim. Af því fá höfuðborgir umtalsverðar tekjur, til dæmis vegna fasteignagjalda. 

Skattgreiðendur í Garðabæ greiða minnst í félagsþjónustu

Íbúar í Garðabæ greiða minnst allra íbúa á höfuðborgarsvæðinu í félagsþjónustu, eða 183.720 krónur hver íbúi. Kópavogsbúar borga aðeins meira, eða 191.056 krónur hver, og íbúar Seltjarnarness borga 198.784 krónur hver. Hafnfirðingar komast næst Reykvíkingum þegar kemur að því að greiða fyrir félagsþjónustu, með 255.678 krónur á hvern íbúa, og þar á eftir eru íbúar Mosfellsbæjar, sem greiddu að meðaltali 256.108 krónur hver. 

Það hlutfall af skatttekjum Reykvíkinga sem fór í félagsþjónustu árið 2023 lækkaði úr 31,7  í 29,5 prósent. Einungis tvö önnur sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, Hafnarfjörður (23,1 prósent) og Mosfellsbær (22,2 prósent), nýttu yfir fimmtung skatttekna sinna í félagslega þjónustu. Í Kópavogi og á Seltjarnarnesi var hlutfallið rétt yfir 18 prósent en í Garðabæ 17 prósent. 

Nesið gerir vel við aldraða

Þegar fjárhagsaðstoð á íbúa er skoðuð kemur í ljós að hún nam 19.293 krónur á hvern íbúa í Reykjavík árið 2023. Hafnfirðingar voru þeir einu sem komust í tveggja stafa tölu utan þeirra, en þar nam fjárhagsaðstoð á íbúa 11.608 krónur. 

Lægstar voru greiðslurnar á Seltjarnarnesi, þar sem hver íbúi greiddi einungis 1.833 krónur í fjárhagsaðstoð á ári en þær greiðslur lækkuðu um 36 prósent milli ára. Í Garðabæ var kostnaður á hvern íbúa 3.933 krónur eða 20 prósent af því sem hann var í Reykjavík. Í Mosfellsbæ var hann litlu meiri og hver Kópavogsbúi skreið rétt yfir sjö þúsund króna kostnað vegna veittrar fjárhagsaðstoðar á síðasta ári. 

Eini flokkur félagslegrar þjónustu sem Reykjavík leiðir ekki er þjónusta við aldraða. Það gerðist í fyrra að Seltjarnarnes tók stökk upp úr 36.169 krónum á hvern íbúa og upp í 60.722 krónur. Á sama tíma greiddi  hver íbúi í Reykjavík 52.312 krónur, hver íbúi í Mosfellsbæ 23.506 krónur og hver Hafnfirðingur 20.925 krónur. Hver íbúi í Kópavogi borgaði um 20.656 krónur en lægstur var kostnaðurinn milli ára í Garðabæ, alls 12.558 krónur.

Reply

or to participate.