- Heimasíða Þórðar Snær Júlíussonar
- Posts
- Hærri vextir bíta heimilin fast en skila stóru bönkunum sífellt meiri tekjum
Hærri vextir bíta heimilin fast en skila stóru bönkunum sífellt meiri tekjum
Um þrjár af hverjum fjórum krónum sem stóru íslensku bankarnir þrír öfluðu á fyrstu níu mánuðum ársins voru vaxtatekjur af lánum. Þær mynda stóran hluta af hagnaði bankanna á sama tíma og svimandi háir vextir og verðbólga hafa aukið árleg vaxtagjöld heimila um tugi milljarða króna á örfáum árum. Þrátt fyrir að bankaskattur hafi verið lækkaður mikið og mikill árangur hafi náðst í því að lækka rekstrarkostnað banka, er vaxtamunur enn mjög hár. Í stað þess að lækka hann stungu bankarnir þrír ávinningnum af skattalækkuninni í vasann. Þeir notuðu hann til að auka arðsemi sína, og þar með hluthafa sinna.
Landsbankinn, Íslandsbanki og Arion banki högnuðust samtals um 62,7 milljarða króna á fyrstu níu mánuðum ársins 2024. Það er 1,8 milljörðum krónum meira en þeir græddu á sama tímabili í fyrra og 25,4 prósent meira en þeir högnuðust um á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins 2022.
Ríkisbankinn Landsbankinn hagnaðist langmest, alls um 26,9 milljarða króna, sem er 4,5 milljörðum krónum meira en hann gerði á sama tímabili í fyrra. Stór ástæða þess er fólgin í því að gangvirði hlutabréfaeignar hans hækkaði um 7,5 milljarða króna. Hvað þýðir það eiginlega? Jú, Landsbankinn á miklu meira af hlutabréfum en hinir stóru bankarnir. Þar munar langmest um 14,2 prósent eignarhlutur Landsbankans, í Eyri Invest, stærsta eiganda Marel með 24,7 prósent hlut. Marel er á lokametrunum með að sameinast bandaríska félaginu JBT og virði bréfa félagsins hefur hækkað um 55 prósent á síðastliðnu ári. Það munar um það.
Íslandsbanki græddi 18 milljarða króna á tímabilinu sem er um 400 milljónum krónum minna en hann gerði á sama tíma í fyrra. Sá samanburður er þó ekki alveg klipptur og skorinn. Á fyrra árinu greiddi bankinn nefnilega restina af stjórnvaldssekt sinni, alls 860 milljónir króna, vegna fjölmargra lögbrota sem hann og starfsmenn hans frömdu í tengslum við sölu á bréfum í bankanum sjálfum vorið 2022. Í ár greiddi Íslandsbanki svo 470 milljónir króna í stjórnvaldssekt vegna margra og alvarlegra brota við framkvæmd varna gegn peningaþvætti.
Arion banki greiddi líka slíka sekt í ár, og reyndar aðeins hærri, eða alls 585 milljónir króna. Hann hagnaðist um 17,8 milljarða króna sem er 1,7 milljarði króna minna en bankinn gerði á fyrstu níu mánuðum ársins 2023.
Mikil arðsemi eiginfjár miðað við kröfur
Bankarnir eiga gríðarlega mikið eigið fé, alls 736 milljarða króna samanlagt. Það er 30 milljörðum krónum meira en það var í lok september í fyrra og um 50 milljörðum krónum meira en það var á þeim tíma fyrir tveimur árum. Þá er búið að taka tillit til allra arðgreiðslna og endurkaupa á hlutabréfum sem átt hafa sér stað á árinu, en slíkar greiðslur til hluthafa hlaupa á tugum milljarða króna. Bara Arion banki er til að mynda búinn að greiða arð og kaupa eigin bréf af hluthöfum í ár fyrir 25 milljarða króna, Íslandsbanki er búinn að greiða samtals um 19 milljarða króna með saman hætti og Landsbankinn greiddi 16,5 milljarða króna í arð til ríkisins í vor.
Stjórnendur bankanna hafa kvartað yfir því að eiginfjárkröfur á íslenska banka séu miklu hærri en á aðra sambærilega banka í Evrópu. Grynnka þurfi á því með arðgreiðslum og uppkaupum á hlutabréfum – sem skila fjármunum út úr bönkum til hluthafa – til að bæta getu þeirra til að sýna eftirsóknarverða arðsemi á eigin fé, en það er sá mælikvarði sem stjórnendurnir nota til að mæla árangur sinn.
Þrátt fyrir háar eiginfjárkröfur hafa bankarnir ekki verið í vandræðum með að ná viðunandi arðsemi á það eigið fé á síðustu misserum.
Ástæður þess að eiginfjárkröfurnar eru svona háar á Íslandi má rekja aftur til hrunsins, þegar bankarnir féllu hver á fætur öðrum og gátu ekki staðið við skuldbindingar sínar. Til að koma í veg fyrir að það gerist aftur var nýju bönkunum, sem stofnaðir voru á rústum hinna föllnu, gert að vera með mikið svigrúm til að takast á við áföll og virðisrýrnun lána.
Þrátt fyrir háar eiginfjárkröfur hafa bankarnir ekki verið í vandræðum með að ná viðunandi arðsemi á það eigið fé á síðustu misserum. Hjá Arion banka var hún 12,2 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins, 11,7 prósent hjá Landsbankanum og 10,9 prósent hjá Íslandsbanka.
Um 75 prósent hreinna tekna vegna vaxta
Mesti vöxturinn í tekjum íslensku bankanna á undanförnum árum hefur verið í vaxtatekjum. Hærri vextir, sem bíta heimili og fyrirtæki landsins fast, skila stórauknum tekjum í bauka viðskiptabankanna.
Hreinar vaxtatekjur þeirra voru samanlagt 115,5 milljarðar króna á fyrstu þremur ársfjórðungum ársins, sem er um 2,5 milljörðum krónum meira en á sama tíma í fyrra og 21,5 milljörðum krónum meira en tímabilinu 2022. Á tveimur árum hafa vaxtatekjur bankanna þriggja því vaxið um 23 prósent.
Til samanburðar má nefna að vaxtagjöld heimila landsins hafa aukist um 71 prósent frá því sem þau voru á síðasta ársfjórðungi ársins 2021 og í það sem þau voru á öðrum ársfjórðungi yfirstandandi árs.
Til að átta sig á því hvað hreinar vaxtatekjur eru stór partur af starfsemi fjármálakerfisins má benda á að hreinar vaxtatekjur þeirra voru 72 til 76 prósent af öllum rekstrartekjum bankanna þriggja það sem af er ári.
Vaxtamunur hærri en á Norðurlöndunum
Vaxtatekjurnar byggja á muninum á þeim vöxtum sem bankarnir borga fyrir að fá peninga að láni og þeim vöxtum sem þeir rukka fyrir að lána einstaklingum og fyrirtækjum fjármuni. Sá munur kallast vaxtamunur. Hann var 2,7 til 3,1 prósent á árinu 2022, sem er meiri munur en var árið áður, þegar hann var 2,3 til 2,8 prósent. Nú er hann 2,9 til 3,1 prósent, mestur hjá Arion banka en minnstur hjá Landsbankanum.
Vaxtamunur í Kaupmannahöfn og öðrum norrænum borgum er mun minni en hérlendis. Mynd: Pixabay
Þessi vaxtamunur er sögulega mjög mikill í norrænum samanburði. Í skýrslu starfshóps um greiningu á gjaldtöku og arðsemi viðskiptabankanna sem birt var í fyrrasumar sagði að hjá öðrum norrænum bönkum af svipaðri stærð og þeir íslensku sé hann 1,6 prósent og hjá stórum norrænum bönkum sé hann enn minni, eða 0,9 prósent.
Svona var málum háttað þrátt fyrir að bankaskattur hafi verið lækkaður mjög myndarlega árið 2021, á meðan að kórónuveirufaraldrinum stóð, úr 0,376 prósent af heildarskuldum banka umfram 50 milljarða króna í 0,145 prósent. Bankarnir höfðu árum saman kallað eftir lækkuninni og sagt að með henni myndi vaxtamunur dragast saman. Lán til heimila og fyrirtækja yrðu, samkvæmt yfirlýsingum, ódýrari. Af því varð ekki. Þess í stað stungu bankarnir þrír ávinningnum af skattalækkuninni í vasann. Þeir notuðu hann til að auka arðsemi sína, og hluthafa sinna, en áætlað hefur verið að skattalækkunin hafi minnkað skattgreiðslur bankanna þriggja um samtals tólf milljarða króna fram til ársins 2024.
Rekstrarkostnaður hækkar hjá tveimur
Hinn stóri reglulegi tekjupósturinn hjá bönkunum eru þóknana- og þjónustugjöld sem þeir innheimta af heimilum og fyrirtækjum landsins. Hreinar tekjur vegna þeirra voru samtals 29,6 milljarðar króna frá byrjun árs og út septembermánuð. Þær drógust saman um 1,5 milljarða króna á milli ára. Sá samdráttur hefur raunar verið nokkuð stöðugur frá því seint á árinu 2022.
Í áðurnefndri skýrslu kom fram að þóknana- og þjónustutekjur bankanna á árinu 2022 skiptist nokkuð jafnt niður á þrjú starfssvið þeirra: 31 prósent kom frá einstaklingssviði sem þjónar heimilunum, um 35 prósent frá fyrirtækjasviðum bankanna og 27 prósent frá eignastýringu og miðlun.
Síðustu ár hefur rekstrarkostnaður bankanna farið hríðlækkandi sem hlutfall af tekjum. Hann var 59 prósent árið 2018 í 47 prósent 2022. Það hlutfall var með því lægsta sem þekkist meðal norrænna banka af svipaðri stærðargráðu. Í fyrra var það enn lægra, eða 33,7 prósent hjá Landsbankanum, 44,7 prósent hjá Arion banka og 41,6 prósent hjá Íslandsbanka.
Á fyrstu níu mánuðum ársins hækkaði það hins vegar hjá bæði Arion banka og Íslandsbanka, meðal annars vegna áðurnefndra stjórnvaldssekta sem bankarnir þurftu að greiða út af ónógum peningaþvættisvörnum. Hjá ríkisbankanum hélt það hins vegar áfram að lækka og er nú komið niður í 32,3 prósent.
Tveir af stóru bönkunum þurftu að greiða háa stjórnvaldssekt í ár vegna ónógra peningaþvættisvarna. Mynd: Pixabay
Tugir milljarða króna undir
Það er ekki útilokað að högg sé framundan í rekstri bankanna þriggja. Neytendasamtökin höfðuðu fyrir nokkrum árum dómsmál sökum þess að þau telja að skilmálar þeirra á óverðtryggðum breytilegum vöxtum séu ekki nógu skýrir. Vinnist málin munu bankarnir þurfa að endurgreiða stórum hópi lántakenda miklar fjárhæðir.
Valin voru fimm mál – tvö gegn Landsbanka og Íslandsbanka og eitt gegn Arion banka – úr á sjötta þúsund sem send voru til Neytendasamtakanna. Niðurstaða þeirra verður fordæmisgefandi og mun hafa áhrif á fullt af öðrum málum.
Málin fimm eru stödd á mismunandi stað í dómskerfinu. Sum bíða aðalmeðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur, í einu var sýknað þar og er nú á leið fyrir Landsrétt og í einu – máli sem höfðað var gegn Landsbankanum var sakfellt í héraði. Málinu var áfrýjað til Landsréttar þar sem bankinn krefst sýknu af öllum kröfum stefnenda og fer aðalmeðferð málsins fyrir Landsrétti 14. nóvember næstkomandi. Í árshlutareikningi Landsbankans segir: „Verði niðurstaða héraðsdóms staðfest með endanlegum dómi er það mat bankans að hámarkstap hans vegna þeirrar niðurstöðu verði um 39 m. kr. að því er varðar lánasafn bankans með sama vaxtaákvæði. Bankinn hefur fært sömu fjárhæð í varúðarfærslu vegna þessa lánasafns.“
Arion banki reiknar með að hámarkstap hans, tapist málin, verði á bilinu 14 til 17 milljarðar króna og bankastjóri Íslandsbanka sagði við mbl.is í síðustu viku að kostnaður Íslandsbanka, tapi bankinn sínu dómsmáli, muni hlaupa á 10-20 milljörðum króna.
Ríkið stærsti eigandinn
Íslenska ríkið á Landsbankann nánast að öllu leyti. Heimild er til staðar í fjárlögum til að selja 30 prósent hlut í honum en enginn vilji virðist vera til staðar til að hefja það söluferli og enginn eiginlegur undirbúningur hefur farið fram til að ráðast í slíka framkvæmd.
Ríkissjóður er líka stærsti eigandi Íslandsbanka með 42,7 prósent eignarhlut. Til hefur staðið að selja þann hlut, og þegar er búið að samþykkja ný lög um hvernig það verður gert svo hægt sé að koma í veg fyrir aðra katastrófu á borð við þá sem varð vorið 2022. Þá var hlutur í bankanum seldur í ferli sem síðar hefur opinberast að var alsett lögbrotum og spillingu. Komandi kosningar frestuðu þeim söluáformum og það mun koma í hlut næstu ríkisstjórnar að ákveða hvort og þá hvernig þeim verður áframhaldið.
Gildi lífeyrissjóður er stærsti einstaki hluthafinn í Arion banka með 9,16 prósent hlut, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins á 8,98 prósent hlut og Lífeyrissjóður verzlunarmanna á 8,7 prósent. Stoðir er stærsti einkafjárfestirinn með 5,29 prósent hlut en allt í allt eru hluthafar Arion banka 10.251 talsins.
Reply