Hvernig getur yfirdráttur hækkað um 320 milljónir króna á dag?

Hallinn á ríkissjóði jókst um tæpa 18 milljarða á 55 dögum, eða um 320 milljónir króna á dag, frá því að fjárlagafrumvarpið var kynnt í september og þar til að það var endurskoðað nýverið. Ný skýrsla um stöðu efnahagsmála sýnir hvað er að á Íslandi, af hverju kerfin eru ekki að virka og hvernig sé hægt að laga það.

Ríkissjóður Íslands hefur nú verið rekinn stanslaust í halla frá árinu 2019. Það þýðir að ríkið hefur verið að reka sig á nokkurskonar yfirdrætti allan þann tíma, og áætlar að gera það í að minnsta kosti níu ár í röð. Allt stefndi í að uppsafnaður halli frá byrjun árs 2019 og út það næsta yrði 659 milljarðar króna á verðlagi hvers árs fyrir sig. Sú tala hækkaði hins vegar í liðinni viku. 

Þannig háttar nefnilega að væntur halli á næsta ári hefur vaxið úr 41 í 59 milljarða króna frá því að fjárlagafrumvarp ársins 2025 var lagt fram í september. Það eru Á tæpum tveimur mánuðum, eða 55 dögum, bættust 17,6 milljarðar króna við hallann.

Í þessari töflu má sjá að áætlaður halli á ríkissjóði á næsta ári er nú kominn upp í 58,6 milljarða króna. Mynd: Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ástæðurnar eru nokkrar. Í fyrsta lagi munu ekki allar þær tekjur sem lagt var upp með að innheimta á næsta ári skila sér. Til dæmis getur útgerðin fagnað því að tveggja milljarða króna hækkun á veiðigjöldum mun að óbreyttu ekki verða að veruleika og sjóeldisfyrirtæki sleppa við um 300 milljón króna hækkun.

Þá geta þeir sem telja fram launatekjur sem skatttekjur í gegnum einkahlutafélög líka andað léttar. Þeirri skattaglufu verður ekki lokað um sinn. Um er að ræða glufu sem er ekki til staðar á neinum hinum Norðurlandanna. Reyndar hefur sú tillaga um nýtt skattmat á reiknað endurgjald sem leggja átti fram ekki verið birt opinberlega, og ljóst að hún átti að ganga mjög skammt fram miðað við þær tekjur sem áttu að innheimtast. Alþýðusamband Íslands (ASÍ) hefur til að mynda reiknað út að lokun á þessari skattaglufu geti skilað ríki og sveitarfélögum um tíu milljarða króna á núvirði í nýjar tekjur á hverju ári. Það er bara gert með því að láta hóp fólks borga þann skatt sem það á að borga, ekki með því að hækka neinar álögur.

Hér sést að tekjur sem áætlaðar voru vegna hærri veiðigjalda, gjalda á fiskeldi og einhverskonar afar hóflegrar útgáfu af nýju skattmati muni ekki skila sér á næsta ári. Mynd: Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Sjálfstæðisflokkurinn og fjölmiðlar á hans línu reyna nú að forma plan Samfylkingarinnar um að loka þessu gati, líkt og sitjandi ríkisstjórn ætlaði að gera en gerði ekki, sem einhverskonar árás á iðnaðarmenn landsins. Sem er kostulegt þegar horft er til þess að 70 prósent allra fjármagnstekna fara til ríkustu tíu prósent landsmanna. Í fyrra voru það 211 milljarðar króna. Þetta eru ekki píparar og hárgreiðslufólk, heldur ríkt fólk sem kýs að lækka skattbyrði sína með því að nýta sér þessa glufu. Fyrir vikið borga þeir ekki útsvar til sveitarfélaga né launatekjuskatt, heldur bara 22 prósent fjármagnstekjur. Þetta er hópurinn sem Sjálfstæðisflokkurinn og fylgitungl hans eru að verja, ekki píparar, hárgreiðslufólk eða smiðir. Lesið meira hér:

Nánast enginn hagvöxtur

En aftur að ástæðum stóraukins yfirdráttar ríkissjóðs. Hagvaxtahorfur hafa versnað og nú er búist við því að vöxturinn verði nánast enginn, eða 0,1 prósent, í ár og 2,4 prósent á næsta ári. Væntar tekjur ríkissjóðs á árinu 2025 lækka um tæpan 21 milljarð króna en útgjöldin lækka bara um rúma þrjá.

Reiknað er með að verðbólga verði að meðaltali 3,8 prósent á næsta ári en 5,9 prósent í ár. Athyglisvert er að nú stefnir í nánast hagvaxtarlaust ár á Íslandi 2024. Mynd: Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Það þýðir bara eitt: ríkið þarf að taka meiri peninga að láni til að reka sig en áður var reiknað með. Áætluð vaxtagjöld ríkissjóðsins okkar á næsta ári eru nú 120,1 milljarður króna og hafa hækkað um 3,5 milljarða króna á 55 dögum. Þessi staða er ekkert grín. Vegna mikillar skuldsetningar síðustu ára er vaxtakostnaður Íslands orðinn einn sá hæsti í Evrópu, en hlutur verðtryggðra lána er að jafnaði um 20 til 30 prósent af lánasafni ríkissjóðs. Kostnaður vegna þeirra lána hækkar mikið í hárri verðbólgu líkt og verið hefur undanfarin misseri á Íslandi.

Árið 2015 voru sett lög um opinber fjármál. Á meðal þess sem var innleitt með þeim var svokölluð skuldaregla. Samkvæmt henni mega heild­ar­skuldir rík­is­sjóðs, að frá­töldum líf­eyr­is­skuld­bind­ingum og við­skipta­skuldum og að frá­dregnum sjóðum og bankainn­stæð­um, ekki fara yfir 30 pró­sent af vergri lands­fram­leiðslu. Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á var sú skuldaregla tekin úr sambandi og skuldir ríkissjóðs hafa verið yfir því marki síðan 2019. Samkvæmt endurskoðuðu fjárlagafrumvarpi næsta árs verðum við það áfram, sjöunda árið í röð, og staðan hefur versnað frá því í september. Nú er ætlað að skuldahorfur vegna skuldareglu verði 32,5 prósent af landsframleiðslu. 

„Hærra vaxtastig þangað til honum er aftur treyst“

Það hafa fleiri gögn verið birt í þessari viku. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands birti til að mynda skýrslu um stöðu efnahagsmála á haustmánuðum 2024. Hún er mjög athyglisverð lesning og ég mæli með að áhugasamir kynni sér hana í stað þess að láta tilraun starfandi forsætisráðherra til setja varalit á svínið sem hann hannaði með upptalningu á ýmsu sem sé gott við Ísland þrátt fyrir ríkisstjórn hans, ekki vegna hennar, duga sem túlkun. 

Þar segir um ríkisfjármál og fjármálastefnu ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar að „almennt gildir að hallarekstur ríkissjóðs felur í sér frestun á skattlagningu sem hækkar ráðstöfunartekjur heimila til skamms tíma en lækkar þær í framtíðinni.“

Í skýrslunni kemur fram að trúverðugleiki peningastefnu Seðlabankans hafi laskast tímabundið sem kemur fram í því að á skuldabréfamarkaði er búist við að verðbólga verði yfir verðbólgumarkmiði bæði eftir fimm ár og eftir tíu ár. Skýrsluhöfundar segja að að nú þegar tekist hefur að hemja eftirspurn eftir innlendum vörum og þjónustu þá mætti búast við að vextir Seðlabankans kæmu hratt niður, en þessar væntingar geti tafið fyrir því ferli. Seðlabankinn muni þurfa að „sanna fyrir aðilum á skuldabréfamarkaði og einnig vinnumarkaði að verðbólga verði lág í framtíðinni og í seðlabankaheiminum þýðir það hærra vaxtastig þangað til honum er aftur treyst.“ Það megi því ekki endilega búast við skörpum vaxtalækkunum í nánustu framtíð, sem eru mesta kjarabót sem heimili í landinu gætu fengið. 

Þar segir líka að kjarni húsnæðisvandans hérlendis sé „sá að í húsnæði felst bæði neysla á þjónustu þess og fjárfesting. Þegar Seðlabankinn á að koma í veg fyrir að verð á húsnæði hækki of hratt miðað við verðbólgumarkmið þá er hann að hafa áhrif á verð á neyslu en einnig fjárfestingarvöru. Það er þetta sambland neyslu nauðsynlegrar þjónustu, sem enginn getur lifað án, og fjárfestingarvöru sem gerir húsnæðismál einkar erfið viðureignar.“

Afleiðingar hagvaxtar með fólksfjölgun

Skýrsluhöfundar fjalla líka um þá pólitísku ákvörðun að auka hagvöxt með fólksfjölgun, sem hefur haft afar neikvæð áhrif á flest velferðarkerfi og innviði og skilað því að hagvöxtur á mann hefur verið lægri hér á landi en á Norðurlöndunum og víða í Evrópu frá 2017. Þeir skrifa að þótt aðflutt vinnuafl sé mikilvægt fyrir hagkerfið „þá veldur fjölgun fólks þrengslum á húsnæðismarkaði og einnig í heilbrigðis- og menntakerfinu meðan á henni stendur. Sjúklingum hefur fjölgað hraðar en starfsfólki á Landspítalanum síðan árið 2019 samkvæmt upplýsingum frá spítalanum og umönnun sjúklinga af erlendum uppruna krefst meiri tíma og fyrirhafnar og kostar meira. Fjölgun nemenda í grunnskólum sem ekki kunna íslensku veldur sömuleiðis erfiðleikum, frammistaða þeirra er að jafnaði lakari og kennarar ekki nægilega vel þjálfaðir í kennslu þeirra eins og OECD hefur bent á.“

Þessi mikli aðflutningur vinnuafls stafi af mikilli innlendri eftirspurn, háum launum í evrum talið, í samanburði við það sem bauðst í heimalandi, og hagvexti. „En hann endurspeglar einnig hagstjórn og stefnu stjórnvalda þegar kemur að vexti hinna ýmsu atvinnuvega. Við gætum spurt hvað landsmenn eigi að vinna við í framtíðinni. Hvernig atvinnulíf sjá stjórnvöld fyrir sér á hverjum tíma? Sumar atvinnugreinar nota mikið fjármagn og minna vinnuafl, aðrar mikið vinnuafl. Þær vaxa stundum hratt og stundum ekki eins hratt, en stjórnvöld geta haft áhrif á þessa þróun með hagstjórnartækjum sínum og skattkerfi.“

Tillögur sem ríma við plan

Það hafa íslensk stjórnvöld einfaldlega ekki gert. Aðgerðarleysi þeirra er ástæða þess að við glímum við þá brekku sem er nú uppi á húsnæðismarkaði og í mörgum velferðarkerfum. Í stað þess að beita sér og fjármagna uppbyggingu var valið að fjársvelta og ráðast í ófjármagnaðar skattalækkanir sem hafa skilað því fyrst og síðast að efstu tekjuhóparnir, ríkasta fólk landsins, er nú með lægri skattbyrði en allir aðrir borga meira. 

Á áratug lækkaði skattbyrði þeirra tíu prósent landsmanna sem höfðu hæstu heildartekjurnar. Hún hækkaði hjá öllum öðrum. Mynd: Samfylkingin

Ýmsar tillögur til úrbóta eru lagðar fram í skýrslunni, sem skrifuð er af Sigurði Jóhannessyni, forstöðumanni Hagfræðastofnunar, og Gylfa Zoega, prófessor í hagfræði. Þær eiga það flestar sameiginlegt að ríma mjög vel við það skýra langtímaplan sem Samfylkingin hefur lagt fram fyrir komandi kosningar. Þeir hvetja til að mynda til þess að metið verði hvert umfang útleigu íbúðarhúsnæðis í þéttbýli til ferðamanna (Airbnb) sé sem er til frádráttar frá íbúðamarkaði og niðurstöður birtar. „Ef umfangið er nægilega mikið til þess að hafa umtalsverð áhrif á húsnæðisverð þá væri hægt að takmarka starfsemina frekar en gert er.“ Það ætlar Samfylkingin að gera.

Þeir hvetja til þess að stjórnvöld bjóði upp á skattalegt hagræði fyrir þau verktakafyrirtæki sem reisa ódýrar og hagkvæmar íbúðir. Það ætlar Samfylkingin að gera. 

Þeir segja æskilegt að koma föstu formi á gjaldtöku sem standi straum af þjónustu og öryggismálum varðandi ferðaþjónustu og að kerfi virðisaukaskatts verði einfaldað í átt til kerfis með einu skattþrepi, enda sé æskilegt að skattar leiði ekki til þess að sumar atvinnugreinar vaxi á kostnað annarra. Fyrri rannsóknir sýna að þetta myndi ekki hafa mikil áhrif á útgjöld heimila. Allt þetta er eitthvað sem Samfylkingin er með til skoðunar í sínu plani. 

Það er hvatt til að koma á stöðugleikareglu í ríkisfjármálum á nákvæmlega sama hátt og Samfylkingin vill. Í núverandi fjármálareglu, sem komið var á í tíð þeirra stjórnarflokka sem stýra nú málum, er hvorki hvatt til  þess að reka ríkissjóð með afgangi í góðæri, sem myndi draga úr eftirspurn og verðbólgu, né leyfa miklum halla að myndast í kreppu, sem stutt getur við innlenda eftirspurn. „Hún hefur einnig í för með sér að viðhald á innviðum er vanrækt,“ segir í skýrslunni. Það er nákvæmlega það sem gerst hefur hér á landi. 

Ísland þarf að virka

Það er margt gott á Íslandi. Eðlilega. Við erum auðlindaríkt og öruggt land. Hér er mikill kraftur í stórkostlegum mannauði til að skapa og bæta og mögnuð samheldni til staðar þegar á reynir. En komandi kosningar snúast um það hvað sé hægt að gera til að laga það sem er ekki að virka. Kerfin sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur haft forystu um að smíða eru ekki að virka. Ófjármagnaðar skattalækkanir hans, sem hafa fyrst og síðast gagnast ríku fólki, eru ekki að virka. Skipbrot hans í efnahagsmálum, sem hefur leitt af sér hærri vexti, hærra verð og hærri skatta á venjulega Íslendinga, er algert. 

Eftir rétt rúmar þrjár vikur þarf að kjósa ríkisstjórn sem stýrir fyrir fólkið í landinu. Sem leggur áherslu á vöxt með velferð í stað vaxtar á kostnað velferðar. Sem býr til störf sem Íslendingar mennta sig til að vinna og bjóða upp á íslensk laun. Sem nær hratt niður vöxtum og dregur úr þeim ofurskatti sem óstjórn efnahagsmála á síðustu árum hefur lagt á íslensku heimili.

Sem gerir Ísland betra og lætur það virka.

Reply

or to participate.