- Kjarnyrt
- Posts
- Nokkrar tölulegar staðreyndir um útlendingamál
Nokkrar tölulegar staðreyndir um útlendingamál
Þótt ýmsir stjórnmálaflokkar reyni að gera flóttamannamál að meginatriði komandi kosninga þá sýna tölur skýrt að fólki sem kemur hingað í leit að vernd utan þeirra sem er boðið hingað sérstaklega hefur fækkað mikið og kostnaður vegna þess dregist saman. Það er hins vegar rétt að mikil fólksfjölgun, sem hefur verið undirstaða hagvaxtar og afleiðing pólitískrar ákvörðunartöku, hefur haft mikil, og alvarleg, neikvæð hliðaráhrif á húsnæðismarkað. Á heilbrigðiskerfið. Á skólanna okkar, samgöngur, löggæslu og aðra innviði. Ástæðan er fyrst og síðast sú að stjórnvöld hafa ekki fjárfest í velferð til að halda í við vöxt.
Það er mikið reynt að gera útlendingamál að stærsta máli íslensks samfélags með upphrópunum, og þá sérstaklega móttöku flóttafólks. Stjórnmálamenn á hægri vængnum hafa reglulega kastað fram fullyrðingum um að sá málaflokkur kosti ríkissjóð tugi milljarða króna á ári og að það þurfi að „ná tökum á landamærum“. Formenn þriggja flokka: Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Flokks fólksins, sögðu svo í Silfrinu á mánudag að útlendingamál í einhverri mynd yrðu stórt kosningamál. Í ljósi þessa er gagnlegt að fara yfir nokkrar staðreyndir.
Formenn þeirra flokka sem eiga fulltrúa á þingi mættu í Silfrið á mánudag og hófu kosningabaráttuna. Mynd: Skjáskot/RÚV
Kannanir sýna til að mynda nokkuð skýrt að því fari fjarri að þessi mál séu ofarlega í huga kjósenda. Nýleg könnun Prósents á mikilvægustu stefnumálunum samkvæmt kjósendum, sem framkvæmd var í ágúst, sýndi að einungis ellefu prósent nefndu málefni flóttamanna sem eitt þeirra mála sem mestu skipti. Þjóðin er upptekin af heilbrigðismálum, efnahagsmálum, verðbólgu, húsnæðis- og lóðamálum og ætlar fyrst og fremst að kjósa um þau.
Könnun Prósents var gerð um miðbik ágústmánaðar og niðurstöður hennar birtar í hlaðvarpinu Bakherberginu.
Blessunarlega liggja líka fyrir tölur um kostnað og umfang útlendingamála. Þær er að finna í fjárlagafrumvörpum, ríkisreikningi, hjá Hagstofu Íslands og afar nákvæmum tölfræðilegum samantektum Útlendingastofnunar og embættis ríkislögreglustjóra, svo fátt eitt sé nefnt. Auk þess hafa verið unnar vandaðar skýrslur og úttektir sem greina og skýra þær áskoranir, og þá kosti, sem fylgja því að fólk frá öðrum löndum ákveður að flytja til Íslands.
Hefjum þá leika (ég biðst fyrirfram afsökunar á lengdinni).
OECD met
Í fyrsta lagi þarf að skilgreina, eða réttara sagt aðgreina, það sem talað er um þegar rætt er um útlendingamál. Annars vegar er um að ræða þann hóp sem flytur til Íslands, að mestu á grundvelli samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem tryggir frjálsa för fólks innan aðildarríkja þess, og hins vegar um fólk á flótta af ýmsum ástæðum sem er að leita að vernd.
Fyrri hópurinn hefur vaxið gríðarlega á síðustu árum. Hann er uppistaðan í því að erlendum ríkisborgurum á Íslandi hefur fjölgað úr 18.820 frá því í lok árs 2010 í 65.870 um mitt þetta ár. Til að setja þá fjölgun í samhengi er hægt að nefna að erlendum ríkisborgurum á Íslandi hefur fjölgað um sjö þúsund fleiri á tímabilinu en sem nemur öllum íbúum Kópavogs, næst stærsta sveitarfélags landsins. Hlutfall íbúa landsins sem eru erlendir ríkisborgarar hefur vaxið úr því að vera sex prósent í að vera 17 prósent á þessum árum.
Flestir þeirra koma hingað til að vinna í störfum sem skapast hafa í íslenska hagkerfinu á síðustu árum og hafa drifið áfram þann mikla hagvöxt sem varð á árunum fyrir kórónuveirufaraldurinn. Þar hefur skipt mestu máli ferðaþjónusta sem nú er orðin stærsta gjaldeyrisskapandi efnahagsstoðin okkar. Sá gríðarlegi vöxtur, sem byggir á fjölgun lágframleiðnistarfa, hefur líka leitt til aukinnar eftirspurnar eftir starfsfólki í allskyns öðrum geirum. Fólksfjölgunin hefur raunar verið svo mikil að hún er sú mesta á meðal allra ríkja OECD síðastliðinn áratug.
Hagvöxtur drifinn áfram af fólksfjölgun lítur kannski vel út þegar horft er á hann einan og sér. En þegar hagvextinum er deilt niður á íbúa þá kemur í ljós að hann er minni en í flestum samanburðarríkjum.
Slíkur hagvöxtur er ekki sjálfbær og hann hefur haft mikil, og alvarleg, neikvæð hliðaráhrif á önnur svið samfélagsins. Á húsnæðismarkað. Á heilbrigðiskerfið. Á skólanna okkar, samgöngur, löggæslu og aðra innviði. Ríkisstjórn síðustu ára hefur vanrækt að fjárfesta í velferð samhliða vexti. Um það fjallaði ég meðal annars hér:
Fleiri OECD met
Í nýlega birtri úttekt á inngildingu innflytjenda að íslensku samfélagi í samanburði við önnur OECD-ríki, sem unnin var fyrir íslensk stjórnvöld, segir að innflytjendur á Íslandi séu mjög einsleitur hópur í alþjóðlegum samanburði. Fjórir af hverjum fimm erlendum ríkisborgurum koma frá EES-svæðinu, sem er hæsta hlutfallið innan OECD-ríkja Evrópu. Þessum hópi líður greinilega vel á Íslandi þar sem að rúmlega helmingur hans hefur ennþá búsetu hér eftir fimm ára dvöl. Það er hærra hlutfall en í mörgum löndum vestur Evrópu og svipað og í Noregi og Svíþjóð, sem hafa þó langt miklu meira á sig í inngildingu innflytjenda en Ísland.
Samkvæmt úttektinni eru 83 prósent innflytjenda á vinnualdri í starfi. Það er hæsta atvinnuhlutfall innflytjenda innan OECD. Atvinnuþátttaka er líka gríðarlega há í öllum alþjóðlegum samanburði – alls 89 prósent – og er raunar hærri en þátttaka innfæddra Íslendinga á vinnumarkaði. Það liggur þó fyrir, og hefur komið fram í ýmsum skýrslum, að útlendingar eru fyrstir til að missa vinnuna þegar atvinnuleysi eykst. Hvatt hefur verið til þess að auka við úrræði eins og launa- og ráðningastyrki til að koma atvinnulausum, útlendum sem innlendum, aftur í virkni.
Samkvæmt úttektinni eru 83 prósent innflytjenda á vinnualdri í starfi. Það er hæsta atvinnuhlutfall innflytjenda innan OECD.
Hópurinn sem flytur hingað er með aðeins lægra hlutfall af háskólamenntun en innfæddir – 30 á móti um 40 prósent – en innflytjendur á Íslandi skera sig mest út innan OECD fyrir það hversu margir þeirra eru of hæfir fyrir störfin sem þeir sinna. Hlutfallslega bilið milli innflytjenda og innfæddra háskólamenntaðra sem sinna störfum sem krefjast ekki slíkar menntunar er, líkt og svo margt annað, það mesta á meðal aðildarríkja OECD. Stærsta ástæða þessa er, líkt og vikið var að hér að ofan, sú að flestir innflytjendur starfa í láglaunagreinum á borð við ferðaþjónustu.
Eigum met í að kenna ekki tungumálið
Enn einn staðurinn þar sem við skerum okkur úr innan OECD er að innflytjendurnir okkar læra síður tungumálið hér en í nokkru aðildarríkjanna. Það þarf kannski ekki að koma mikið á óvart í ljósi þess að ráðuneytisstjóri málaflokksins sagði á málþingi fyrir fimm árum að það þýddi ekkert að setja fé í íslenskukennslu því innflytjendurnir sjálfir nenntu ekki að læra tungumálið. Hann sagði reyndar líka að að það væri mikill kostur að á Íslandi væri svo einfalt að „losa sig“ við erlent vinnuafl um leið og samdráttur byrjaði í efnahagslífinu. Það hefði enginn beðið erlenda verkamenn um að koma til landsins til að vinna og því væri það ekki á ábyrgð íslenska ríkisins að hjálpa fólkinu við að koma undir sig fótunum með nokkrum hætti. Allt sem maðurinn sagði reyndist kolrangt.
Í grein sem Hlöðver Skúli Hákonarson, sem skrifaði skýrsluna, birti í Vísbendingu í byrjun september bendir hann á að útgjöld Íslands til íslenskukennslu fyrir fullorðna séu brotabrot af því sem hin Norðurlöndin hafa varið í málaflokkinn. „Einungis flóttafólk og atvinnulausir hafa aðgang að gjaldfrjálsum tungumálatímum. Aðrir geta sótt um endurgreiðslu frá stéttarfélagi, en einungis eftir að hafa borgað stéttarfélagsgjöld, oftast í einhverja mánuði. Líklegt er að margir veigri sér við því að sækja tungumálatíma eftir komu til landsins sökum þessa, enda er um talsverðan kostnað að ræða, og enska er alltumlykjandi. Slík ákvörðun getur hins vegar haft slæm langtímaáhrif á viðkomandi en einnig afkomendur þess.“
Hlöðver bendir til að mynda á að í Lúxemborg, sem er smáríki með ekkert svo miklu fleiri íbúa en Ísland, sé skýr stefna um tungumálakennslu fyrir innflytjendur, en þar geta þeir sem vilja sótt allt að 300 klukkustundir tungumálatíma á afsláttarkjörum. „Lúxemborg býður einnig upp á svokallað tungumálaorlof, þar sem innflytjendur eiga rétt á launuðu leyfi í allt að 200 klukkustundir til að geta sótt tungumálatíma á vinnutíma. Ríkið kemur til móts við atvinnurekendur með því að endurgreiða helming af launakostnaði leyfisins.“
Annað sem Hlöðver beinir sjónum að sem áhyggjuefni er námsframvinda barna af erlendum uppruna í íslenskum skólum, og að tungumálið virðist spila þar stóran þátt. Meira en helmingur þeirra geta ekki leyst verkefni á borð við að túlka einfalda texta. Aðeins í Mexíkó er hlutfallið hærra.„ Það er enn meira áhyggjuefni að börn innflytjenda sem fæðast á Íslandi standa sig jafnvel verr en börn sem flytja hingað á unga aldri. Þetta er hópur sem ætti undir eðlilegum kringumstæðum að skora hærra en samnemendur sínir sem fæðast erlendis, enda hafa þeir fyrrnefndu líklega gengið í leikskóla hér á landi og því haft forskot til að læra tungumálið.“
Ein ástæða þessa er, samkvæmt úttektinni, að börn af erlendum uppruna á leikskólaaldri ganga ekki í leikskóla í sama magni og börn annarra. Margt er talið til sem ástæða þessa. Önnur kynjahlutverk innan menningarheima og heimagreiðslur sem sum sveitarfélög greiða til foreldra til að létta á álagi á leikskólum, sem innflytjendur og lágtekjufólk er líklegra til að þiggja, eru þar á meðal.
Sprenging á tveimur árum
Hinn hópurinn sem kemur til Íslands er flóttafólk, sem sækist hér eftir vernd frá einhverskonar aðstæðum. Sá hópur er svo tvennskonar. Annars vegar svokallað kvótaflóttafólk frá stríðshrjáðum svæðum. Stjórnvöld móttökuríkja ákveða þá sjálf hversu mörgum flóttamönnum þau vilja taka á móti, og bjóða þeim í kjölfarið hingað.
Frá því að Ísland byrjaði að taka á móti flóttamönnum árið 1956 og fram til ársins 2018 tókum við á móti samtals 695 kvótaflóttamönnum, eða 12,2 að meðaltali á ári. Árið 2019 ætluðum við svo að taka á móti 85 manns, sem á endanum urðu 74. Þeir áttu svo að vera 100 árið 2020, en urðu núll. Árið 2021 tókum við svo á móti 86 og á síðustu tveimur árum, 2022 og 2023, voru þeir samtals 66 talsins. Þessi hópur er því mjög lítill í öllu samhengi.
Svo er hópur sem kemur hingað á eigin vegum. Lengst af gerðu það fáir í alþjóðlegum samanburði, enda erfitt að komast til Íslands með öðrum hætti en flugi. Þeir sem sóttu um vernd hér fóru fyrst yfir 350 árið 2015 og skriðu rétt yfir eitt þúsund á ári næstu tvö árin á eftir, fækkaði niður í 800 árið 2018, voru 867 árið 2019, 654 árið 2020 og 874 árið 2021.
Sprenging varð hins vegar í umsóknum þeirra á árunum 2022 og 2023. Á fyrra árinu sóttu 4.495 um vernd hér á landi og á því síðara 4.159. Til að setja þær tölur í samhengi þá sóttu 2.286 fleiri um vernd á þessum tveimur árum en höfðu gert það samanlagt tólf árin á undan. Það er svakaleg breyting fyrir samfélag sem telur ekki 400 þúsund í heild.
Myndin sýnir þá sprengingu sem varð á komu flóttafólks árin 2022 og 2023. Næstum átta af hverjum tíu sem komu á þeim árum voru frá Úkraínu eða Venesúela. Mynd: Stjórnarráðið
Pólitískar ákvarðanir um að hleypa fram fyrir
Þetta gerðist ekki í tómarúmi heldur er afleiðing af pólitískum ákvörðunum. Sú fyrri er frá árinu 2018, þegar Útlendingastofnun, sem heyrir undir dómsmálaráðuneytið, hóf að veita ríkisborgurum Venesúela viðbótarvernd hér á landi. Í nóvember árið eftir, 2019, tilkynnti forstjóri Útlendingastofnunar að allir Venesúelabúar sem hefðu sótt um vernd hér á landi það ár hefðu fengið hæli vegna ástandsins í Venesúela. Ástandið sem um rædddi væri óðaverðbólga og upplausn í stjórnmálum landsins.
Heimildin greindi frá því fyrr á þessu ári að í millitíðinni, snemma árs 2019, hafði Guðlaugur Þór Þórðarson, þáverandi utanríkisráðherra, sent utanríkismálanefnd Alþingis minnisblað um ástandið í Venesúela þar sem ráðuneytið fór yfir ástandið í Venesúela og sagði að stjórnmálaástandið var sagt í ólestri. Í því stór orðrétt: „Óstjórn, misheppnuð hugmyndafræði byggð á arfleifð Hugo Chavez og flokks Chavista, og ofbeldi núverandi forseta, Nicolas Maduro, hefur valdið því að efnahagskerfi landsins er með öllu hrunið.“
Í umfjöllun Heimildarinnar sagði að nokkrum dögum eftir að minnisblaðið var skrifað hafi Guðlaugur Þór lýst því yfir að Ísland styddi Juan Guiadó, þáverandi leiðtoga venesúelsku stjórnarandstöðunnar, rétt eins og stjórnvöld víðar höfðu gert í kjölfar ákvörðunar bandarískra stjórnvalda um slíkt hið sama. Sá stuðningur hefur síðar verið dreginn til baka.
Á meðan að á þessari stöðu stóð voru 90 prósent allra umsókna frá Venesúelabúum samþykktar. Alls komu 1.209 þaðan árið 2022 og 1.586 í fyrra. Enginn ráðherra sem sat í ríkisstjórn á þessum árum kannast við að bera ábyrgð á ákvörðuninni um að veita öllum sem vildu frá Venesúela viðbótarvernd.
Hætt að taka við Venesúelabúum
Í byrjun árs í fyrra var ákveðið að hætta að veita þessum hópi þá viðbótarvernd sem hann hafði fengið fram af því og við það fór hópur Venesúelabúa að safnast upp hérlendis sem mátti ekki vinna. Atvinnuþátttaka þeirra á árunum 2018 til 2022 hafði verið umtalsvert hærri en hjá íslenskum ríkisborgurum, eða 86,5 prósent.
Fólk sem er í vinnu leggst ekki á kerfin hvað varðar húsnæði eða framfærslu. Ákvörðun stjórnvalda – dómsmálaráðuneytisins undir stjórn Sjálfstæðisflokks – setti því þennan hóp úr vinnu og á opinbera framfærslu á meðan að niðurstaða fékkst í mál þeirra. Þar er kominn stærsta ástæða þess að kostnaður við útlendingamál, eins og þau eru skilgreind á fjárlögum, fór úr 6,9 milljörðum króna árið 2022 í 14,5 milljarða króna í fyrra. Um var að ræða rúmlega tvöföldun. Þegar kærunefnd útlendingamála staðfesti svo ákvörðun Útlendingastofnunar sat hér eftir risastór hópur sem þurfti annaðhvort að senda til baka eða ákveða að veita einhvers konar leyfi til að vera.
Úr fjárlagafrumvarpi ársins 2025. Fyrsta talan er kostnaðurinn í fyrra, sú næsta í ár og þriðja áætlaður kostnaður á árinu 2025. Mynd: Stjórnarráðið
Kostnaður við brottflutning þeirra hefur spilað stóra rullu í því að kostnaður við útlendingamál er 10,5 milljarðar króna í ár samkvæmt áætlun sem birtist í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi.
Guðrún Hafsteinsdóttir tók við embætti dómsmálaráðherra af Jóni Gunnarssyni í júní 2023. Mynd: Stjórnarráðið
Þegar ráðherrar Sjálfstæðisflokksins hreykja sér af því að hafa dregið úr kostnaði, aukið brottflutning og fækkað umsóknum um vernd er ágætt að muna að þeir gerðu það með því að draga til baka ákvörðun sem þeir báru sjálfir pólitíska ábyrgð á. Það minnir á brennuvarginn sem slekkur bál sem hann kveikti sjálfur og heimtar svo hrós fyrir að hafa bjargað deginum.
Alls 206 aðrir fengið vernd innan árs
Hin ástæðan fyrir því að kostnaður við útlendingamál hefur rokið upp á síðustu árum er líka pólitísk ákvörðun. Ákveðin grein í lögum um útlendinga var virkjuð hérlendis vorið 2022, eftir að stríð braust út, sem veitir Úkraínufólki nánast skilyrðislausa vernd hérlendis. Á árunum 2022 og 2023 komu 3.960 manns hingað til lands í leit af vernd á grundvelli þeirrar ákvörðunar. Í mars á þessu ári framlengdi Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra þessa fjöldaflóttavernd um eitt ár. Alls komu 79 prósent þeirra sem sóttu um vernd á Íslandi árið 2022 frá annað hvort Venesúela eða Úkraínu. Í fyrra var hlutfallið 77 prósent.
Það sem af er þessu ári, eftir að Venesúelabúarnir voru stoppaðir af (einungis 164 þaðan hafa sótt um vernd og nær öllum þeirra er synjað), höfðu 1.621 sótt um vernd hérlendis samkvæmt tölum frá ríkislögreglustjóra. Næstum tveir af hverjum þremur, alls 64 prósent, komu frá Úkraínu í boði íslenskra stjórnvalda. Þau fá nær öll vernd ( um 91 prósent).
Hér má sjá upplýsingar um þróun umsækjenda um alþjóðlega vernd, oft kallað flóttafólk, sem ríkislögreglustjóri tekur saman. Mynd: Lögreglan
Fyrir utan þessa tvo hópa hafa heilir 419 sótt um vernd á Íslandi á fyrstu níu og hálfum mánuði ársins. Það eru bara aðeins fleiri en komu hér í heild árið 2015. Þetta eru umsóknirnar. Þeir sem fá vernd eru enn færri.
Í lok ágúst var staðan þannig að alls 206 umsóknir sem fengu efnislega vernd höfðu verið samþykktar það sem af er ári en 1.042 synjað.
Mælaborð verndarsviðs Útlendingastofnunar þar sem hægt er að sjá upplýsingar um öll mál sem rata inn á borð hennar. Mynd: Útlendingastofnun
Alls 151 hafði verið sendur heim vegna þess að viðkomandi kom frá ríki sem skilgreint var sem öruggt, endursendingar á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar voru 104 og 77 voru sendir til baka vegna þess að þeir höfðu þegar fengið vernd í öðru landi.
Færra flóttafólk og kostnaður lækkar
Samandregið liggur fyrir að það er engin óstjórn á landamærum Íslands sem stendur. Alls 2.546 færri höfðu sótt um vernd hér á landi þann 15. október en allt árið í fyrra. Það er rúmur þriðjungur þess fjölda sem kom 2023 og þá eru Úkraínufólkið talið með bæði árin. Ef sá hópur, sem er með tímabundinn nánast takmarkalausan forgang fram fyrir röðina vegna þess að Rússar réðust inn í landið þeirra, er ekki talin með þá hafa ekki komið færri flóttamenn til Íslands síðan árið 2015. Það er reyndar í takti við þróunina í Evrópu. Alls sótti tæplega þriðjungur þess magns flóttafólks sem kom til aðildarríkja Evrópusambandsins árið 2015 um vernd innan þeirra í fyrra.
Sú mikla aukning sem varð á umsóknum um verndarveitingum á árunum Íslandi árin 2022 og 2023 var vegna pólitískra ákvarðana ráðandi stjórnvalda um að hleypa tveimur hópum fram fyrir röðina. Ráðuneyta sem stýrt er af ráðherrum Sjálfstæðisflokks, þeim sama og boðar nú að vandamál tengd flóttafólki og landamærum verði lykil kosningamál. Með því er sá áður klassíski, og að minnsta kosti í orði alþjóðlegi og frjálslyndi íhaldsflokkur, að afbaka staðreyndir til að draga fram falskan veruleika. Og fría sig um leið ábyrgð á eigin ákvörðunum.
Fullyrðingar líkt og sú sem sett var fram í Óðni Viðskiptablaðsins í vikunni, um að flóttamannakerfið kosti ríkissjóð um 50 milljarða króna á ári, eru staðlausir stafir. Ekki nóg með að flóttafólki, öðru en því sem er boðið hingað frá Úkraínu, er að fækka gríðarlega, þá er kostnaður líka að dragast verulega saman. Í fjárlagafrumvarpi sitjandi ríkisstjórnar segir að kostnaðurinn við útlendingamál í heild í ár verði 10,5 milljarðar króna. Það er um fjórum milljörðum krónum minna en árið 2023. Á næsta ári er hann áætlaður um 700 milljónum krónum meiri en í ár en það er rúmlega allt vegna þess að auka á í framlög til Íslenskukennslu (sem voru 332 milljónir króna í fyrra) og samræmingar í móttöku og þjónustu við börn með fjölbreyttan tungumála- og menningarbakgrunn.
Skjáskot úr Óðni Viðskiptablaðsins í vikunni.
Kjósendur og fjölmiðlar þurfa, nú í aðdraganda kosninga, að vera duglegir að spyrja þá flokka sem telja viðeigandi að segja upphátt að flóttamannamál séu ástæðan fyrir því að velferðarkerfin okkar virki ekki og að þeir séu ástæðan fyrir því að það ríki neyðarástand á húsnæðismarkaði um hvað þeir eigi eiginlega við?
Úr grein Bergþórs Ólasonar, þingmanns Miðflokksins, sem birtist í Morgunblaðinu í vikunni.
Eru þessir stjórnmálamenn að tala um þá tugi þúsunda sem hafa flutt til Íslands frá EES-svæðinu til að vinna, og eru með meiri atvinnuþátttöku en innfæddir, þegar þeir tala um útlendingavandamál? Vilja þeir loka á þá, senda jafnvel heim og ganga um leið úr EES-samstarfinu? Eru þeir að tala um Úkraínufólkið sem við buðum tímabundið að koma hingað vegna þess að það er stríð heima hjá því? Eða eru þeir að tala um þessa heilu 419 sem hafa sótt um vernd sem koma frá öðrum löndum? Kannski bara þá 206 sem hafa fengið vernd það sem af er ári. Þeir eru að minnsta kosti ekki að tala um fólk frá Venesúela. Það er meira og minna hætt að koma.
Þeir þurfa líka að svara því hvernig landamærin okkar séu ekki að virka þegar það kemst enginn hingað inn óséður og skráður? Og horfast svo í augu við það að ástæða þess að velferðarkerfin okkar og lykilinnviðir eru ekki lengur að virka eru pólitískar ákvarðanir ríkisstjórnar síðustu ára um að svelta þau í stað þess að styrkja.
Trúir þú á tröllasögur eða raunveruleika?
Það þarf að ræða þessi mál af raunsæi og réttlæti. Til þess þarf að styðjast við staðreyndir. Við eigum að byggja upp kerfi í innflytjendamálum sem er almennt, skýrt, og hefur fyrirsjáanleika bæði fyrir íslenska stjórnsýslu og þá sem leita verndar. Kerfi sem hefur það að markmiði að bæði þeir sem hingað koma og þeir sem eru hér fyrir hafi margvíslegan hag af.
Við eigum ekki að leyfa stjórnmálaflokkum að stunda pólitík korteri fyrir kosningar sem felur fyrst og síðast í sér örvæntingarfullar tilraunar til að hræða fólk með ósönnum tröllasögum til að kjósa sig. Með því þá draga þeir athyglina frá þeim risastóru áskorunum sem við stöndum frammi fyrir, en þurfum nauðsynlega að takast á við í efnahags- og velferðarmálum.
Tröllasögurnar eru nefnilega ekki sannar. Tölurnar, fortíðin og skýrslurnar sem farið var yfir hér að ofan sýna það svart á hvítu.
Reply