• Kjarnyrt
  • Posts
  • Samfélagið sem almenningur telur að sé á rangri leið

Samfélagið sem almenningur telur að sé á rangri leið

Nýleg könnun sýnir að einungis 17 prósent svarenda töldu íslenskt samfélag vera á réttri leið og að 57 prósent töldu að hlutdeild almennings í þeim arði sem fæst af nýtingu auðlinda á Íslandi væri ranglát. Önnur könnun sýndi að mikill meirihluti landsmanna væri ósáttur við fiskveiðistjórnunarkerfið, þar sem methagnaður hefur verið síðustu ár og arð­greiðsl­urnar eft­ir því. Kak­an skipt­ist þannig að um 70 pró­sent sit­ur eft­ir hjá sjáv­ar­út­veg­in­um en 29 pró­sent fer til sam­neysl­unn­ar í gegn­um op­in­ber gjöld.

Í tengslum við Ársþing Alþýðusambands Íslands (ASÍ) sem fram fór í síðustu viku var gerð afar athyglisverð könnun, sem Gallup sá um, á afstöðu þjóðarinnar til ýmissa mála. Í niðurstöðum hennar má meðal annars sjá að 69 prósent svarenda töldu íslenskt samfélag vera á rangri leið þegar horft sé til hagsmuna almennings.

Úr könnun sem Gallup gerði fyrir ASÍ. Mynd: ASÍ

Einungis 17 prósent þeirra töldu samfélagið vera á réttri leið og þegar rýnt er stjórnmálaskoðanir svarenda kemur í ljós að það eru bara kjósendur Sjálfstæðisflokks sem telja með afgerandi hætti að samfélagið sé að þróast í rétta átt. Mikill meirihluti kjósenda Vinstri grænna, sem setið hafa með Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum í ríkisstjórn í sjö ár, telur að við séum á rangri leið og deilir þeirri skoðun með fylgjendum stjórnarandstöðunnar. Nánast enginn munur er á afstöðu kjósenda Framsóknar til þessa, 38 prósent telja samfélagið á réttri leið en 37 prósent segja það á villigötum þegar kemur að hagsmunum almennings. 

Kjósendur Sjálfstæðisflokksins skera sig mjög úr þegar kemur að því að upplifa þá átt sem samfélagið er að stefna í. Mynd: ASÍ

Í könnuninni var líka spurt um hvað svarendum finnst um hlutdeild almennings í þeim arði sem verður til við nýtingu auðlinda á Íslandi, og hvort þeim finnist arðurinn sem fæst af þeim í dag sé réttlátur eða ranglátur. Vert er að hafa í huga að þetta er nokkuð breið spurning, enda margskonar auðlindir nýttar hérlendis. Hún nær yfir orkunýtingu, þar sem meginþorri orkufyrirtækja er sem stendur í opinberri eigu, ferðaþjónustu, fiskeldi og hefðbundnar fiskveiðar og -vinnslu. Niðurstaðan var afdráttarlaus: alls 57 prósent svarenda sögðu að hlutdeild almennings væri ranglát, en 26 prósent að hún væri réttlát. Einungis kjósendur Sjálfstæðisflokksins voru á þeirri skoðun að skiptingin á hagnaðinum af nýtingu sameiginlegra auðlinda væri réttlát. 

Mun fleiri svarendur töldu að skipting auðlindakökunnar væri ranglát en réttlát. Mynd: ASÍ

Mikill meirihluti ósáttur með kvótakerfið

Þessi niðurstaða kemur svo sem ekki mikið á óvart. Viðhorf almennings til ýmissa þátta sem tengjast sjávarútvegsmálum, þar með talið fiskveiðistjórnunarkerfisins, hafa til að mynda legið fyrir nokkuð lengi. Segja má að erjur um það kerfi og skiptingu arðsins sem verður til vegna þess sé einhverskonar samfélagslegt svöðusár. 

Þegar Matvælaráðuneytið vann að verkefninu Auðlindin okkar, sem átti að leggja fram í frumvarpsformi að hluta í haust áður en ríkisstjórnin sprakk, var Félagsvísindastofnun fengin til að gera víðtækustu könnun sem gerð hefur verið á því viðhorfi. Niðurstöður hennar birtust í könnun sem kom fyrir sjónir almennings í síðsumars 2023. Könnunin leiddi í ljós að 56,6 prósent svarenda voru ósátt með íslenska fiskveiðistjórnunarkerfið, 21 prósent svarenda voru hlutlaus og 22,4 prósent svarenda voru sátt með kerfið. Aftur voru það kjósendur Sjálfstæðisflokks sem skáru sig úr. Um 60 prósent þeirra eru sátt með kerfið á meðan að kjósendur allra annarra flokka nema Framsóknar, sem er „á girðingunni“ í þessum málum eins og svo mörgum öðrum, voru mjög afdregið ósátt við kerfið. 

Þessum svörum svipar til könnunar Maskínu frá árinu 2021. Þar voru 56,2 prósent svarenda annað hvort mjög eða fremur andvíg kvótakerfinu, 25,5 prósent í meðallagi og 17,1 prósent fremur eða mjög hlynnt kerfinu. 

Eða réttara sagt skiptingu arðsins

Í könnun Félagsvísindastofnunar kom skýrt fram að það var þó ekki kvótakerfið sjálft, það að gefnar séu út takmarkaðar veiðiheimildir til að vernda fiskistofna og tryggja sjálfbærni í nýtingu þeirra, sem truflar fólk. Sjö af hverjum tíu sögðu að það hefði verið nauðsynlegt að koma því á. Um leið sögðust sex af hverjum tíu að þeir væri ósammála því að kerfið væri að virka eins og því hafi verið ætlað. Það átti, enn og aftur, við alla nema kjósendur Sjálfstæðisflokks. 

Þegar fólki var gefið tækifæri á því að segja hvað það væri sem virkaði ekki var afgerandi niðurstaða sú að arðurinn af nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar væri að fara í hendur „einstaklinga og fjölskyldna þeirra í stað þess að þjóðin njóti þess,“ „að auðlindin sé ekki nýtt til að styrkja samfélagið,“ „Að auðlind þjóðarinnar einungis nýtist örfárra manna, sem greiða sér arð á borð við þá upphæðir sem sárlega vantar inn í t.d. mennta- og heilbrigðiskerfið okkar,“ „Að auður af auðlindinni í sameign þjóðar renni til fárra. Að kerfið hafi kippt fótunum undan smærri byggðum. Að kerfið hafi búið til ofurríkt fólk og afkomendur þeirra,“ „Að ekki sé skýrt að um þjóðareign sé að ræða, að veiðigjald sé greitt í samræmi við markaðsverðmæti og standi undir öllum kostnaði og í þjóðarsjóð á la Norðmenn.“ Kerfið var ítrekað kallað spillt og að tilvist þess græfi undan lýðræðinu. Hér er bara um örfá svör af mjög mörgum á þessum nótum að ræða. Hægt er að sjá fyrstu blaðsíðu svara hér að neðan: 

Úr spurningakönnun sem Félagsvísindastofnun gerði fyrir Auðlinda okkar. Mynd: Stjórnarráðið

Svörin fylla 25 blaðsíður í viðbót. Samandregið þá kemur fram í könnuninni að langmest óánægja er um það að arðurinn af fiskveiðiauðlindinni rennur að langmestu leyti til eigenda stórútgerða en ekki þjóðarinnar. 

Fimmtán stærstu halda á 69 prósent kvóta

Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa verið dugleg að tefla fram allskyns túlkunum sem sýni framlag sjávarútvegs til íslensks samfélag, sem er sannarlega mikið, og varað mjög við því að auka álögur á geirann. Best væri að stuðla að meiri stærðarhagkvæmni í sjávarútvegi, sem þýðir að kvótinn safnist á enn færri hendur, til að efla hann í alþjóðlegri samkeppni. Það sé besta leiðin til aukinnar verðmætasköpunar. Um er að ræða einn áhrifaríkasta hagsmunagæsluarm sem starfað hefur hérlendis. SFS hefur vanalega fengið flest sem samtökin vilja. 

Mikil samþjöppun hefur því átt sér stað innan íslensks sjávarútvegs á undanförnum árum. Gagnrýnendur segja að fámennum hópum eigenda og stjórnenda stórra blokka innan geirans, sem séu að sölsa hann undir sig, séu færð allt of mikil völd og áhrif í íslensku samfélagi með þessu. Völd og áhrif, í gegnum mikla auðsöfnun, sem þeir nota til að kaupa sig inn í óskylda geira og herða þar með tökin á samfélaginu enn frekar.

Í nýjustu aðgengilegu tölum um hvernig kvótinn deilist niður á útgerðir þá kemur fram að tíu stærstu útgerðir landsins haldi samtals á tæplega 57 prósent alls úthlutaðs kvóta, og að 15 stærstu haldi á 69 prósent. Þrjú útgerðarfyrirtæki eru skráð á markað. Restin er í einkaeigu, oft fjölskyldna. 

Það segir þó ekki alla söguna, þar sem að á milli margra þessara útgerða eru eignatengsl. Fjórar blokkir, sem hverfast um Samherja, Brim, Fisk Seafood (sjávarútvegsarmur Kaupfélags Skagfirðinga) og Ísfélagið, halda í dag á vel á sjötta tug prósenta af öllum úthlutuðum kvóta. 

Högnuðust um 58 milljarða króna í fyrra

Í allri þeirri upplýsingaóreiðu sem umlykur okkur velta margir því fyrir sér hvað sé satt um skiptingu arðseminnar af nýtingu fiskveiðiauðlindirnar, sem landslög segja að sé í eigu þjóðarinnar, ekki þeirra sem fá að halda á henni. 

Til að rýna í það er best að skoða tölur frá útgerðinni sjálfri. Allar tölurnar sem farið verður yfir hér að neðan eru teknar úr gagnagrunni sem Deloitte tekur saman um rekstur sjávarútvegsfyrirtækja landsins, fyrir geirann sjálfan. Alls deila þeir sem halda á 96 prósent úthlutaðs kvóta rekstrarupplýsingum sínum með Deloitte svo fyrirtækið geti uppfært gagnagrunn sinn. Það speglar síðan þær upplýsingar upp í 100 prósent og Deloitte kynnir niðurstöðuna árlega á Sjávarútvegsdeginum, sem haldinn er hvert haust af fyrirtækinu, SFS og Samtökum atvinnulífsins. Síðasti slíkur fundur fór fram á þriðjudaginn fyrir viku, 15. október. 

Þar var farið yfir afkomuna í fyrra. Niðurstaðan var sú að hagnaður veiða og vinnslu var 58 milljarðar króna. Það var minna en geirinn hagnaðist um árinu 2021 og 2022, þegar samanlagður hagnaður var 132 milljarðar króna, en þessi þrjú ár eru samt sem áður sterkustu ár útgerðarinnar í sögunni. Til samanburðar má nefna að Landsvirkjun, gullgæs Íslands og langstærsta orkufyrirtæki landsins sem er að öllu leyti í opinberri eigu, hagnaðist um 29 milljarða króna í fyrra. Það var langbesta árið í sögu þess fyrirtækis. 

Frá árinu 2009 hefur sjávarútvegurinn hagnast samtals um vel á sjöunda hundrað milljarða króna á gengi hvers árs fyrir sig. Á föstu gengi er sá hagnaður enn meiri.

Kvótinn færður á lægra verði en virði hans er

Bókfært eigið fé, eignir að frádregnum skuldum, var komið upp í 449 milljarða króna og hefur aukist um 152 milljarða króna á tveimur árum. Það er um 173 milljörðum krónum meira en allt eigið fé þess 60 prósent hluta þjóðarinnar sem hefur lægstu tekjurnar.

Úr kynningunni í síðustu viku. Mynd: Gagnagrunnur Deloitte

Þetta eigið fé er þó sennilega miklu hærra í raunveruleikanum en það sem er bókfært. Fyrir liggur að kvótinn er vanmetinn í bókum sjávarútvegsfyrirtækja. Hann er færður þangað inn á nafnvirði, sem þýðir að kvótinn er bókfærður á því verði sem hann var keyptur á eða því verði sem hann kom fyrst inn í bækur fyrirtækjanna. Þannig gæti til dæmis sjávarútvegsfyrirtæki sem fékk úthlutað kvóta á níunda áratugnum án endurgjalds, á grundvelli veiðireynslu, bókfært þann kvóta á krónur núll. Sá kvóti sem það hefur svo keypt, meðal annars með því að veðsetja upprunalega kvótann til að fá lán í banka, er svo færður inn í bækurnar á því verði sem er borgað fyrir. 

Upplausnarverð alls úthlutaðs kvóta á Íslandi, miðað við kaup Síldarvinnslunnar á útgerðinni Bergi Hugin árið 2021, var áætlað um 1.200 milljarðar króna. Kvótinn var hins vegar bókfærður á 460 milljarða króna í lok árs 2022. Þar skeikar sirka 740 milljörðum króna. 

Sjö krónur til eigenda útgerða, þrjár til eigenda auðlindar

Vegna þess að reksturinn hefur gengið frábærlega á síðustu árum, meðal annars vegna mikillar loðnuveiði sem verður hins vegar engin á yfirstandandi fiskveiðiári, þá hefur geirinn getað greitt eigendum sínum umtalsverðan arð. Árið 2022 var raunar sett met í arðgreiðslu þegar eigendur útgerðanna sem fá að veiða þjóðarauðlindina greiddu sér 23 milljarða króna. Í fyrra var arðgreiðslan 21 milljarður króna. Árið 2020 gerðist það að arðgreiðslan til eigenda var hærri en það sem sjávarútvegur greiddi í opinber gjöld. 

Sjávarútvegurinn hefur getað greitt eigendum sínum út myndarlegan arð á síðustu árum. Mynd: Gagnagrunnur Deloitte

Í yfirferð Deloitte er líka farið yfir hvað sjávarútvegur greiðir í bein opinber gjöld. Mjög mikilvægt er að benda á að þar er ekki um að ræða hið svokallaða skattspor sem fyrirtæki vitna stundum í, og inniheldur til að mynda líka alla skatta og gjöld sem starfsfólk greiðir af launum sínum. Í tilfelli sjávarútvegs eru þær greiðslur ekki langt frá því að vera helmingur af skattsporinu. Bein opinber gjöld eru hins vegar veiðigjöld (sem telst hluti rekstrarkostnaðar og má því draga frá tekjuskattsstofni), tekjuskattur og tryggingagjald. Samtals voru þau 29,5 milljarðar króna á árinu 2023. 

Hagnaður sjávarútvegsins áður en hann greiddi veiðigjald, tekjuskatt og tryggingagjald í ríkissjóð í fyrra var því um 87,5 milljarðar króna. Af honum fóru tvær af hverjum þremur krónur til útgerðanna en ein af hverjum þremur krónum í opinber gjöld. Frá árinu 2011 hefur skiptingin verið þannig að sjö af hverjum tíu krónum hafa farið til útgerða en þrjár af hverjum tíu hafa farið til samneyslunnar. 

Búum til einhverskonar sátt

Það þarf að fara að leiða deilumálið um skiptingu á arðsemi af nýtingu auðlinda, sérstaklega í hafi, í jörð í eitt skipti fyrir öll og það hlýtur að vera eitt af helstu málunum sem þarf að ráðast í á komandi kjörtímabili. Það hafa vissulega verið stigin skref á síðustu árum með skráningu stórra sjávarútvegsfyrirtækja og innkomu lífeyrissjóða, sem eru sameign landsmanna, inn í eigendahópa þeirra en fyrir liggur að það þarf að ganga mun lengra til að búa til grundvöll fyrir einhverskonar sátt. 

Það mætti til að mynda koma strax á hærra veiðigjaldi með þrepaskiptingu til að hlífa smærri útgerðum en ná stærri hluta af auðlindarentunni til þjóðarinnar án þess að ráðast í meiriháttar kerfisbreytingar. Svo þarf að binda í stjórnarskrá á auðlindir séu þjóðareign og skoða að tímabinda úthlutun á fiskveiðikvóta, til einhverra ára svo hægt sé að tryggja fyrirsjáanleika, þannig að það sé skýrt hver raunverulega eigi hann. 

Þær kannanir sem ég minntist á hér í byrjun sýna að allt of margir landsmenn telja samfélagið á rangri leið og að stefnan hunsi almannahag. Þær sýna að ósættið um sjávarútvegskerfið er djúpstætt og að það verði aldrei leyst nema með breytingum á þeirri skiptingu á kökunni sem skilar 70 prósent hennar til útgerða en 30 prósent til hins opinbera. Þær sýna að sú tilfinning er ráðandi að almenningur sé hluti af fáveldi sjávarútvegs í stað þess að útgerðirnar séu hluti af almannahagsmunakerfi. 

Þá skoðun meginhluta þjóðarinnar er ekki hægt að hunsa.

Reply

or to participate.