- Heimasíða Þórðar Snær Júlíussonar
- Posts
- „Slík ríkisstjórn verður að ljúka störfum og pakka saman“
„Slík ríkisstjórn verður að ljúka störfum og pakka saman“
Forystumenn óvinsælustu ríkisstjórnar Íslandssögunnar segja að áframhaldandi samstarf þurfi að byggja á málefnum. Ályktanir landsfundar Vinstri grænna eru þannig að enginn málefnagrundvöllur er lengur til staðar og ljóst er að stjórnin hefur ekki burði til að klára lykilmál. Rikisstjórnarsamstarfinu er efnislega lokið.
Þegar önnur ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar tók við af ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur í apríl, skipuð sömu flokkum, var staða hennar ekki sérstaklega beysin. Segja má að hún hafi byrjað líftíma sinn í brekku. Brattri brekku.
Einungis 31,1 prósent svarenda í nýjustu könnun Gallup á þeim tíma sögðust vilja kjósa Sjálfstæðisflokkinn, Vinstri græn eða Framsóknarflokkinn. Það var minnsta fylgi sem þeir höfðu nokkru sinni mælst með frá því að flokkarnir hófu samstarf síðla árs 2017 og ansi langt frá þeim 54,3 prósentum sem þeir fengu í kosningunum haustið 2021.
Fylgið var enn minna en það sem ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna mældist með fimm mánuðum fyrir kosningarnar 2013. Sú ríkisstjórn beið afhroð í þeim kosningum, fékk einungis 23,8 prósent atkvæða. Ríkisstjórn Bjarna mældist líka óvinsælli en ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var í kjölfar opinberunar Panamaskjalanna árið 2016, en hún kolféll í kosningum þá um haustið. Og óvinsældirnar mældust á svipuðum stað og hjá fyrri ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar, þeirri sem sat í 323 daga á árinu 2017 og féll með látum um haustið það ár með þeim afleiðingum að einn stjórnarflokkurinn hætti að vera til og hinir tveir töpuðu umtalsverðu fylgi.
Það skiptir víst engu máli að fáir treysti þér
Sá sem leiðir ríkisstjórnina nú var auk þess, og er, óvinsælasti stjórnmálamaður þjóðarinnar. Raunar er hann sennilega óvinsælasti stjórnmálamaður sögunnar. Að minnsta kosti hefur enginn stjórnmálaleiðtogi náð að vera jafn óvinsæll og Bjarni Benediktsson jafn lengi og hann.
Bjarni Benediktsson tók við lyklavöldum í forsætisráðuneytinu öðru sinni þann 10. apríl síðastliðinn. Mynd: Sigurjón Ragnar/Stjórnarráðið
Í könnun sem Maskína gerði fyrir Heimildina skömmu eftir forsætisráðherraskiptin kom í ljós að 73 prósent svarenda báru lítið traust til nýja forsætisráðherrans, 69 prósent sögðust neikvæð gagnvart þeim breytingum sem gerðar voru á ríkisstjórninni og 67 prósent sögðust treysta stjórninni síður. Í annarri könnun Maskínu sem birt var í lok september kom fram að næstum 40 prósent aðspurðra töldu Bjarna vera þann ráðherra sem staðið hefði sig verst á kjörtímabilinu. Einungis einn annar ráðherra náði tveggja stafa tölu í prósentum svara við þeirri spurningu. Um tíu prósent sögðu Svandísi Svavarsdóttur, nýjan formann Vinstri grænna, hafa staðið sig verst.
Botninn undir botninum
Hafi stjórnarflokkarnir verið með væntingar um að lágpunktinum væri náð, og að blómlegri fylgistölur væru framundan eftir sumarfrí þá liggur nú fyrir að þeim varð ekki að ósk sinni. Í nýjustu könnun Gallup mældist sameiginlegt fylgi flokkanna þriggja 24,6 prósent. Það er í fyrsta sinn sem sameiginlega fylgið fer undir 25 prósent. Til að setja það í annað samhengi þá má nefna að þetta er minna fylgi en Samfylkingin mælist með um þessar mundir og nánast það sama og Sjálfstæðisflokkurinn fékk einn í síðustu kosningum, þegar 24,4 prósent kusu hann. Það var samt sem áður næst versta niðurstaða hans frá stofnun.
Fylgi Sjálfstæðisflokks (14,1 prósent) og Framsóknar (6,2 prósent) hefur aldrei mælst minna í könnunum Gallup. Vinstri græn mælast svo með 4,3 prósent stuðning, sem myndi ekki duga inn á þing. Þau fóru lægst í 3,3 prósent í maí. Stjórnarflokkarnir, sem eru með 38 þingmenn, myndu fá 13 ef kosið yrði í dag.
Könnun Gallup sýndi líka að sitjandi ríkisstjórn hefur stöðugt bætt met sitt í óvinsældum og náði því um síðustu mánaðamót að verða sú fyrsta í Íslandssögunni sem nýtur stuðnings undir fjórðungs þjóðarinnar. Bæði hrunstjórnin og sú sem tók við af henni fóru aldrei neðar en í 26 prósent stuðning.
Mynd: RÚV
Samkvæmt könnun sem Prósent gerði í síðasta mánuði er staða stjórnarinnar enn verri. Þar mælast Sjálfstæðisflokkur, Vinstri græn og Framsókn með einungis 20 prósent samanlagt fylgi og Miðflokkurinn einn og sér mældist með meira fylgi en Sjálfstæðisflokkur og Framsókn til samans.
Málefni, málefni, málefni
En ríkisstjórnarsamstarf snýst auðvitað ekki um skoðanakannanir. Það snýst um málefni. Bjarni Benediktsson sagði i fréttum Stöðvar 2 á þriðjudag að „ef ríkisstjórn er með mál á dagskrá, sem hún getur klárað, þá á hún bara að halda áfram að starfa þar til að þarf að kjósa. Stjórn hins vegar sem er með mál á sinni þingmálaskrá eða stjórnarsáttmála, sem hún hefur ekki burði til að ljúka við og ekki er sátt um forgangsröðun mála, sem eru nægilega í takt við stöðuna í samfélaginu, slík ríkisstjórn verður að ljúka störfum og pakka saman.“
Slík ríkisstjórn verður að ljúka störfum og pakka saman.
Þegar nýja ríkisstjórnin var kynnt sagði Bjarni að þrjú mál yrðu á oddinum: Baráttan við verðbólguna, útlendingamál og orkumál. Ekkert þessara mála var hins vegar útkljáð í stjórnarmyndunarviðræðunum og hugmyndir flokkanna þriggja um lausn þeirra voru, og eru, æði ólíkar. Tilfinningin sem lá í loftinu í Hörpu þennan dag, þar sem hver formaðurinn túlkaði nýtt samkomulag með sinu nefi og allir töluðu eins og þeir væru ekki þátttakendur í sama samtali, var að þeir vonuðust bara til þess að þetta myndi allt saman reddast.
Sammála um ekkert
Fyrir liggur, eftir landsfund Vinstri grænna um liðna helgi, að sá flokkur gengur alls ekki í takt við Sjálfstæðisflokkinn þegar kemur að efnahagsmálum. Í ályktun fundarins um ríkisstjórnarsamstarfið stendur: „Ástand efnahagsmála og þrálát verðbólga kallar á víðtækar aðgerðir. Stýrivextir hafa nánast staðið í stað í rúmt ár og lagt ómældar byrðar á bæði almenning og fyrirtæki. [...] Hægri öflin í samfélaginu leita helst lausna sem þjóna hagsmunum fjármagnsaflanna, umfram almannahagsmuni. Þar má nefna einkavæðingu og niðurskurðarstefnu og aðrar aðgerðir sem fela í sér að færa almannagæði frá almenningi og gera þau að féþúfu fyrir einkaaðila.“
Fyrir liggur að Vinstri græn munu ekki samþykkja frekari breytingar á útlendingalögum, sem þó eru á þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar og Sjálfstæðisflokkurinn leggur höfuðáherslu á að verði samþykkt. Svandís sagði við fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis í lok september að hún telji að slík frumvörp eigi ekki erindi inn í þingið. „Við höfum ekki áformað að taka þátt í frekari breytingum á útlendingalögum.“ Í áðurnefndri ályktun segir að hægri öflin ýti „undir útlendingaandúð í samfélaginu og halda uppi áróðri gegn fólki sem flýr stríð. Allt gengur þetta gegn stefnu Vinstri grænna.“
Hinn félagslegi grunnur í forgrunni
Þá standa eftir orkumál. Á þingmálaskrá er meðal annars að finna frumvörp sem eiga að einfalda regluverk svo hægt sé að virkja meira og frumvarp Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, um breytingu á lögum sem snúa að því að leyfa virkjunarkosti í vindorku. Verði frumvarpið að lögum mun Guðlaugur Þór, og aðrir orkumálaráðherrar framtíðar, geta tekið ákvörðun um að hleypa ákveðnum vindorkuverkefnum fram hjá rammaáætlun og færa þannig ákvörðunarvald yfir þeim til sveitarfélaga. Í frumvarpinu felst líka að hagnýting vindorku verði ekki heimil á sérstaklega tilgreindum svæðum, en meira og minna alls staðar annars staðar. Ljóst er að einkaaðilar með umtalsverð pólitísk tengsl bíða í röðum eftir því að þetta frumvarp verði samþykkt svo þeir geti hafist handa við uppsetningu á risastórum vindmyllum víða um landið.
Svandís Svavarsdóttir tók við formennsku í Vinstri grænum um síðustu helgi. Mynd Facebook-síða Vinstri grænna
Nú liggur ljóst fyrir að þeim mun ekki verða að ósk sinni á meðan að Vinstri græn sitja í ríkisstjórn. Í ályktun flokksins um ríkisstjórnarsamsamstarfið segir að verði vindorkuver „að veruleika eiga opinberir aðilar að sjá um uppbygginguna“ og að slík ver eigi að „falla undir rammaáætlun og áður en hafist er handa skal samþykkja skýrt regluverk um auðlindagjald, staðsetningu og annað sem að þeim snýr.“ Á öðrum stað er bætt við að „atburðir liðinna missera og ára hafa sýnt að veik löggjöf sem ekki hvílir á traustum stjórnlögum er lítil vörn gegn ásókn erlendra auðhringa og auðmanna í vatn og vind, firði og fjöll, ár og voga til að auka sér hagnað og einkagróða, sem oft hverfur úr landi án skattlagningar.“
Þessar áherslur eru svo allar teknar saman í lok ályktunarinnar þar sem segir að til þess að það sé hægt „að halda ríkisstjórnarsamstarfinu áfram telur landsfundurinn að takast verði á við þau knýjandi verkefni sem við blasa á félagslegum grunni. Jafnframt telur fundurinn að ganga verði til kosninga með vorinu.“
Sparkað í viðkvæma staði
Fyrir utan að álykta gegn öllum megin áherslumálum ríkisstjórnar Bjarna Benediktssonar þá notuðu Vinstri græn tækifærið á landsfundi sínum til að sparka af alefli í samstarfsflokkinn á ýmsum öðrum sviðum. Í ályktun fundarins er til að mynda tiltekið að þingmenn Sjálfstæðisflokksins hafi lagt fram frumvörp um að framlög til stjórnmálaflokka verði lækkuð á nýjan leik og flokkunum gert heimilt að sækja hærri styrki til einkaaðila. „Það býður heim hættu á feluleik, spillingu og leyndarhyggju. Opinber og fyrirsjáanleg framlög til stjórnmálahreyfinga eru besta leiðin til að tryggja heiðarlegt stjórnmálastarf óháð fjárframlögum frá fjársterkum hagsmunaaðilum.“
Ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk sé að nálgast leiðarlok og að æskilegt sé að boða til kosninga með vorinu
Það mál sem hefur farið einna verst í þingmenn Sjálfstæðisflokksins á kjörtímabilinu er viðleitni ráðherra Vinstri grænna til að koma í veg fyrir hvalveiðar. Landsfundurinn ályktaði að „hvalveiðar verði bannaðar varanlega í samræmi við ákall almennings.“ Þá var Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, varaformaður Sjálfstæðisflokksins og utanríkisráðherra, sértækt tekin fyrir vegna ummæla hennar á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í lok september þar sem hún sagði að srael væri undanþegið alþjóðalögum þegar kæmi að því að varpa sprengjum á spítala á Gaza vegna þess að spítalarnir hefðu verið notaðir í ógreindum tilgangi. Vinstri græn telja þessi ummæli ámælisverð og „að utanríkisráðherra beri skylda til að skýra á hvaða gögnum þessi ummæli byggja en þau eru til þess fallin að grafa undan alþjóðalögum og mannréttindum.“
Sá hluti ályktunar landsfundarins sem vakið hefur mesta athygli fjölmiðla, um að fundurinn álykti „að ríkisstjórnarsamstarf við Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk sé að nálgast leiðarlok og að æskilegt sé að boða til kosninga með vorinu“ ætti því ekki að koma neinum á óvart þegar ofangreint er lesið. Raunar er hálf óskiljanlegt hvernig Vinstri græn ætla að halda samstarfinu áfram fram á þetta óskilgreinda vor í ljósi þess að flokkurinn er búinn að marka sér á stefnu að standa á móti öllu því sem stærri samstarfsflokkurinn stendur fyrir í lykilmálaflokkum. Ef samstarfið snýst um málefni þá er því lokið. Þetta er ekkert að fara að reddast.
Samstarfinu er efnislega lokið
Ofan á allt þetta þá eru frumvörp sem eru afleiðing af „Auðlindunum okkar“ á þingmálaskrá. Þar er um að ræða hápólitiskar og margvíslegar breytingar á fiskveiðilöggjöfinni sem eiga að auka gjaldtöku, auka gagnsæi og stuðla að meira réttlæti i meðferð fiskveiðiauðlindarinnar. Verkefnið er hugarsmíð Svandísar Svavarsdóttur sem leggur mikla áherslu á að það komist í gegn. Gríðarleg andstaða er við það innan raða Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og lítill salur fyrir því innan Sjálfstæðisflokksins. Dugi andstaða Vinstri grænna við það sem flokkur forsætisráðherra telur vera málefnalegan tilgang ríkisstjórnarinnar ekki til að sprengja samstarfið á næstu vikum þá ættu „Auðlindirnar okkar“ að gera það.
Það sjá það allir með sæmilega dómgreind og lesskilning að ríkisstjórnin hefur ekki burði til að ljúka við lykilmál sem hún hefur sett á þingmálaskrá og tiltekin eru í loðnum stjórnarsáttmála. Það blasir við að engin sátt er á milli flokkanna sem í henni sitja um forgangsröðun mála. Ég er sammála sitjandi forsætisráðherra um að slík ríkisstjórn verður að ljúka störfum og pakka saman og hvet hann til að fylgja þeirri sannfæringu sinni.
Ályktun landsfundar Vinstri grænna um ríkisstjórnarsamstarfið um liðna helgi, og viðbrögð samstarfsflokkanna við henni, þýðir einfaldlega að samstarfi óvinsælustu ríkisstjórnar sögunnar er efnislega lokið. Haldi það áfram í einhvern tíma þá eru aðrar ástæður fyrir því framhaldslífi en málefnalegar.
Reply