- Heimasíða Þórðar Snær Júlíussonar
- Posts
- Takk fyrir viðbrögðin
Takk fyrir viðbrögðin
Sæl öll. Ég þakka ótrúleg viðbrögð. Þau voru langt umfram væntingar. Eins og er þá hafa um þrjú þúsund manns skráð sig.
Mér hafa borist fjölmargir tölvupóstar og annars konar skilaboð og ábendingar eftir að hafa sett fréttabréfið í loftið og birt fyrsta skoðanapistilinn. Við lestur þeirra er mér ljóst að ég hef mögulega ekki verið alveg skýr með að segja hvers eðlis þetta fyrirbæri, fréttabréfið Kjarnyrt, er. Því er ágætt að nýta tækifærið hér til að skerpa á því.
Þegar ég deildi skráningarsíðu á Kjarnyrt á fimmtudag þá sagði ég að þar ætlaði ég að birta reglulega greiningar og pistla um samfélagið, stjórnmál, efnahagsmál og viðskipti. „Bottom-up“ með hagsmuni heildarinnar og neytenda að leiðarljósi, ekki „top-down“ með sérhagsmuni þröngra valdakjarna í forgrunni.
Svo það sé alveg skýrt þá er ekki um neinskonar fjölmiðil að ræða. Ég ætla ekki að vinna fréttir, leggjast í rannsóknarblaðamennsku eða gæta sérstaklega að hlutleysi í framsetningu. Um það sjá skráðir og fullburða fjölmiðlar landsins. Ég ætla hins vegar að reyna að vera sanngjarn, greina hlutina eins heiðarlega og ég get og lýsa skoðunum mínum á þeim. Ég ætla að gagnrýna en líka að vera lausnamiðaður – benda á leiðir út úr vandamálum og áskorunum – og lyfta því sem vel er gert. Fyrir vikið geta skrifin tekið á sig pólitískari blæ en það sem ég hef verið að skrifa á undanförnum árum. Það ætla ég ekki að fela með neinum hætti.
Tilgangurinn með því að setja fréttabréfið í loftið er að sefa löngun sem ég hef til að láta mig samfélagið varða og miðla því til þeirra sem hafa áhuga á að lesa það. Vonandi skýra þessar línur eðli þess og vonandi er það nákvæmlega það sem þið voruð að leita að.
Fyrir þá sem hafa áhuga á að deila síðasta efni þá er það aðgengilegt á netinu hér: https://kjarnyrt.beehiiv.com/p/fyrir-hverja-er-etta-allt-koma
Næsti efni lendir í tölvupóstkassanum ykkar á þriðjudag. Þar tek ég fyrir ójafna eignaskiptingu á Íslandi.
Mbk. Þsj
Reply