- Heimasíða Þórðar Snær Júlíussonar
- Posts
- Við erum öll í þessu saman: Tilkynning um framboð
Við erum öll í þessu saman: Tilkynning um framboð
Ég verð í þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður í kosningunum í lok nóvember. Það þarf að byggja upp lífskjör og velferð á grundvelli ábyrgrar hagstjórnar og verðmætasköpunar. Að tala hreinskiptið og af sjálfstrausti um að sú stefna sem rekin hefur verið hér á undanförnum árum, þar sem vöxtur hefur verið á kostnað velferðar, gangi ekki lengur. Það ætla ég að gera. Og vona að þið kjósið mig sem flest til þeirra verka.
Ég verð í framboði fyrir Samfylkinguna í komandi þingkosningum og mun sitja í þriðja sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður.
Ástæða þess að ég stíg þetta skref er að ég brenn fyrir betra samfélagi og því að gera gagn. Mig langar að breyta taktinum á Íslandi til hins betra og fer inn í þetta nýja hlutverk af auðmýkt en einlægni. Starf stjórnmálamannsins er enda þjónustustarf, ekki valdastaða, í mínum huga. Eiginlega þegnskylda.
Svo er það á endanum ykkar, kjósenda, að ákveða erindi mitt og flokksins.
***
Ég tel að besti eiginleiki sem stjórnmálamaður getur tileinkað sér og búið yfir sé geta til að setja sig í spor annarra. Hana er hægt að öðlast með reynslu, þekkingu og gildum sem gagnast þér í slíkri viðleitni.
Ég tel mig búa yfir þeirri getu. Persónulega hef ég alist upp við að það var sannarlega aldrei til of mikið. Það þurfti að hafa fyrir hlutunum og sníða stakk eftir vexti. En með þrautseigju, seiglu, dugnaði, bjartsýni og virðingu fyrir öðru fólki að leiðarljósi bjuggu foreldrar mínir til grundvöll fyrir góðu lífi.
Ég hef alla tíð unnið mikið og ekki fengið neitt upp í hendurnar. Það þykir mér sjálfsagt og eðlilegt. Ég var byrjaður að vinna í fiski fyrir fermingu, hef unnið í virkjanaframkvæmdum, í álveri, byggingavinnu, pípulagningarverslun, eldhúsi, skúraði sömu skrifstofuna árum saman og róteraði ruslatunnum í fjölbýlishúsum. Svo fátt eitt sé nefnt.
Eftir að ég fann mína fjöl á fullorðinsárum í blaðamennsku þá hef ég faglega verið í undirbúningi fyrir það að taka þátt í stjórnmálum í 19 ár. Allan þann tíma hef ég sérhæft mig í að greina greina samfélagið, stjórnmálin, efnahagsmál, atvinnulífið. Meira og minna öll svið tilverunnar. Og hef fyrir vikið komið upp mikilli getu til að setja mig inn í mál, skilja áskoranir og koma auga á lausnir.
***
Ég hef líka farið í gegnum það ferli að stofna fyrirtæki, fjölmiðilinn Kjarnann, frá grunni með mögnuðum hópi í kringum stórhuga hugmynd með mjög litla fjármuni á milli handanna. Ég og samstarfsfólk mitt fórum í gegnum „bootstrap“ tímabil þar sem við unnum margfalda vinnudaga launalítið eða -laust, ekki í daga eða vikur heldur mánuði eða ár, til að koma fyrirtækinu á koppinn. Við þurftum að sýna mikla áræðni og æðruleysi til að takast á við þær fjölmörgu hindranir sem röðuðust upp fyrir framan okkur og nauðsynlegt var að finna leiðir framhjá. Úr varð lexía lífs míns.
Það tókst að brjótast í gegn og fyrirtækið hefur á síðustu ellefu árum vaxið í að vera hluti af því sem Sameinaða útgáfufélagið – sem gefur út Heimildina og tengda miðla – er í dag. Fyrirtæki sem er með fullt af fólki í vinnu, veltir á sjötta hundrað milljónum króna á ári og skilaði hagnaði á fyrsta starfsárinu sínu.
Allan þennan tíma sem ég starfaði í þessum fyrirtækjum, frá vordögum 2013 og fram í ágúst síðastliðinn, var ég stjórnandi og tek út úr því dýrmæta reynslu sem gerir mér kleift að setja mig í spor bæði frumkvöðla og nýsköpunarfyrirtækja, sem eru að reyna að færa hugmyndir í fyrirtækjabúning, en ekki síður þeirra sem reka lítil og meðalstór fyrirtæki út um allt land og glíma við allskyns áskoranir sem oft eru ekki öllum sýnilegar.
***
Sú breyting sem orðið hefur á Samfylkingunni á síðustu misserum, þar sem hún hefur færst í kjarnastefnu norrænu jafnaðarmennskunnar og í að vera lausnarmiðuð í stærstu úrlausnarefnum samfélagsins, höfðar til mín. Að gera það að meginstefnu að byggja upp lífskjör og velferð á grundvelli ábyrgrar hagstjórnar og verðmætasköpunar. Að tala hreinskiptið og af sjálfstrausti um að sú stefna sem rekin hefur verið hér á undanförnum árum, þar sem vöxtur hefur verið á kostnað velferðar, gangi ekki lengur.
Stjórnvöld síðustu ára hafa verið að þykjast að reka velferðarpólitík í landinu þegar áherslan hefur fyrst og síðast verið á það að nýta aukið svigrúm til að lækka skatta á suma í stað þess að styrkja tekjustofna til að borga fyrir betri almannaþjónustu fyrir alla. Með þessu er verið að ala á einstaklingshyggju og draga úr samtryggingu.
Ég skrifaði fyrir skemmstu að það væri verið að senda þau skilaboð að hver og einn eigi bara að sjá um sig sjálfur og því sé eins gott að reyna að tryggja að þú hafir sem mest á milli handanna til að verða ekki undir í baráttunni. Að þessi stefna, staða og hugarfar eitri samfélagsgerðina. Að hún auki á misskiptingu og dragi úr jöfnuði. Ali á sundrungu og sendi þau skilaboð að hér sé ekkert sem heitir samfélag og samtrygging, heldur séum við einhverskonar regnhlífarsamtök einstaklinga og fjölskyldna sem berjist um brauðmolana sem ráðandi öfl láta falla af borðinu hjá sér, í stað þess að sitja öll í augnhæð við borðið, passa upp á hvort annað og hjálpast að við að baka enn stærri köku þar sem hráefnið er aukin velferð.
Það er alveg hægt að fjármagna betri almannaþjónustu. Það er hægt með því að hækka álögur á breiðu bökin sem greiða allt of lítið til samneyslunnar. Það er hægt að gera það með því að láta hagkerfið vaxa með sjálfbærum og ábyrgum hætti.
Slíkt er enginn pólitískur ómöguleiki. Það eina sem þarf er þor, von og vilji. Samfylkingin hefur það þor, þá von og þann vilja og leiðin að betra samfélagi fyrir alla liggur í gegnum það að kjósa hana, undir forystu Kristrúnar Frostadóttur, mig og alla hina góðu frambjóðendur flokksins í komandi kosningum.
Með baráttukveðju, Þórður Snær Júlíusson.
Hér er svo ein kosningaleg mynd fyrir mömmu.
Mynd: Golli
P.S. Skrifin hér verða áfram sem áður eins og boðað hefur verið: sanngjörn, vel undirbyggð, greinandi, heiðarleg og gagnrýnin en líka lausnamiðuð.
Reply