• Kjarnyrt
  • Posts
  • Vond póli­tísk menn­ing er ekki föst og óhagganleg breyta

Vond póli­tísk menn­ing er ekki föst og óhagganleg breyta

Enn og aftur er búið að opinbera spillingu í íslenskum stjórnmálum þar sem beita átti opinberu valdi og aðstöðu til persónulegs ávinnings. Enn og aftur eru sérhagsmunir teknir fram yfir almannahagsmuni. Enn og aftur hefur það engar afleiðingar. Þetta þarf ekki að vera svona. Þetta getur breyst. En það mun einungis gerast ef félagshyggjustjórn verður mynduð eftir komandi kosningar. Hinn valkosturinn er íhaldssöm hægri stjórn sem telur spillingu einfaldlega vera hluta af eðlilegri pólitískri menningu.

„Spilling er misbeiting á opinberu valdi til persónulegs ávinnings. Spilling þrífst þar sem eftirlit skortir, ákvarðanataka er óljós og aðkoma og áhrif almennings eru lítil eða engin. Spillingu má fyrirbyggja með gagnsæi hvað varðar upplýsingar og gjörðir valdhafa, sem almenning getur skilið, treyst og fylgst með.“ Svona lýsir Transparency International Iceland, félagasamtök sem vinna að því að efla gagnsæi í íslensku þjóðfélagi og minnka spillingu, hvað spilling sé á heimasíðu sinni. 

Orðabókaskilgreining á hugtakinu er að svipuðu meiði. Þar segir að spilling sé misnotkun á valdi eða stöðu þar sem einstakir aðilar eða hópur þeirra nýtir sér aðstöðu sína á óeðlilegan hátt til að hafa áhrif á stöðu mála, oftast til þess að hagnast persónulega. Algeng dæmi um spillingu eru mútur, fjárkúgun, frændhygli og fjárdráttur.

Í nýlega birtri handbók um siðareglur ráðherra, sem Katrín Jakobsdóttir lét gera áður en hún hætti sem forsætisráðherra, segir meðal annars: „Í daglegu tali er sú háttsemi að misbeita valdi sínu í þágu eigin hagsmuna eða hagsmuna tengdra aðila kölluð spilling.“ Þar segir enn fremur að spilling sé meinsemd sem hafi „neikvæð áhrif á frammistöðu stjórnvalda og hagkvæmni stjórnkerfisins í heild auk þess sem hún grefur undan trausti á stjórnmálum og stjórnsýslu. Traust stuðlar aftur að bættri frammistöðu og hagkvæmni þar sem það auðveldar stjórnvöldum að framkvæma stjórnarstefnu að njóta almenns trausts borgaranna.“

Spilling er því vel skilgreint hugtak í íslenskum veruleika. 

Allt of mörg dæmi

Við höfum mörg dæmi um spillingu, líkt og henni er lýst hér að ofan, í íslenskri stjórnsýslu og stjórnmálum. Svo mörg að margir telja hana hreinlega hluta af pólitískri menningu, eins hræðilega og það hljómar. Þing­menn hafa til að mynda orðið uppvísir af því að taka sér end­ur­greiðslu úr sam­eig­in­legum sjóðum vegna keyrslu sem þeir réðust í þegar þeir sinntu próf­kjörs­bar­áttu. Ráðherrar hafa skipað vini sína, eða vini vina sinna, í sendiherrastöður og í störf hjá alþjóðastofnunum sem íslenska ríkið greiðir svo fyrir. 

Ráðherra þurfti að segja af sér fyrir nokkrum árum eftir að hafa skipað dómara við nýtt dómsstig í trássi við stjórnsýslulög eftir að hafa fiktað í lista hæfisnefndar og fært fólk sem tengdist henni og flokki hennar ofar en fært mann með tengsl við pólitíska andstæðinga neðar. Enn einn ráðherrann hringdi í vin sinn sem var sakaður um mútugreiðslur innan málaflokks ráðherrans og spurði hvernig hann hefði það. Sami ráðherra hætti síðar í stjórnmálum og fór að vinna hjá þessum vini sínum

Bara á þessu kjörtímabili höfum við upplifað að fjármála- og efnahagsráðherra þurfti að segja af sér – eða réttara sagt flytja sig úr einum ráðherrastól í annan – vegna þess að hann reyndist vanhæfur til að taka ákvörðun um að selja föður sínum hlut í ríkisbanka. Fyrir ekki svo löngu gerðist það að lagabreyting sem leiddi til þess að áður ólögmætt samráð stærstu landbúnaðarfyrirtækja landsins var afnumið. Formaður atvinnuveganefndar var leiðandi í því að keyra hana í gegn. Sami formaður er reyndar líka eigandi í einu þeirra fyrirtækja sem lagabreytingin hafði bein fjárhagsleg áhrif á. Þessi málsmeðferð hefur nú verið dæmd í andstöðu við stjórnarskrá.

Skömmu áður hafði þáverandi fjármála- og efnahagsráðherra, sú sem tók við af þeim sem þurfti að færa sig eftir að hafa selt föður sínum hlut í ríkisbanka, lýst sig opinberlega afar andsnúna kaupum ríkisbanka á tryggingafyrirtæki og beitti sér fyrir því að þau færu ekki í gegn. Það gerði hún þrátt fyrir að ráðherrar eigi að vera í armslengd frá fjármálafyrirtækjum í ríkiseigu og að bróðir hennar ætti fjárhagslega hagsmuni undir því hvernig mál þróast á tryggingamarkaði á Íslandi, verandi forstjóri fjárfestingafélags sem á stóran hlut í samkeppnisaðila hins keypta tryggingafélags. 

Hægt væri að halda lengi áfram. Flestir þeirra sem bera ábyrgð á ofangreindu eru í framboði til þings um komandi helgi.

„Tilbúinn að gera eitthvað fyrir mig“

Fyrr í þessum mánuði var afhjúpað að Bjarni Benediktsson, sitjandi forsætisráðherra í starfsstjórn og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Jón Gunnarsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, eigi að hafa gert með sér samkomulag. Það var gert með fyrst frásögn af, og svo birtingu á, myndbandsupptöku af syni Jóns sem alþjóðlegt rannsóknarfyrirtæki í vinnu fyrir óþekkt alþjóðleg samtök tóku upp án hans vitundar. 

Jón Gunnarsson verður ólíklega þingmaður eftir komandi kosningar. Mynd: Skjáskot/Vísir

Þar kom fram að samkomulagið átti að fela í sér að Jón, sem hafði tapað slag við varaformann flokks síns um annað sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Suðvesturkjördæmi fyrir komandi kosningar, myndi taka sæti neðarlega á listanum ef forsætisráðherrann væri tilbúinn „að gera eitthvað fyrir mig“. Þetta eitthvað var að gera Jón að nokkurs konar skuggaráðherra í matvælaráðuneytinu. Tilgangurinn var, samkvæmt upptökunni, að gefa Jóni færi á að gefa út leyfi til hvalveiða til fimm ára, helst fyrir kosningar. Ef það næðist ekki þá ætti það að gerast í stjórnmálalega tómarúminu sem myndi skapast eftir þær þegar verið væri að mynda nýja ríkisstjórn. 

Samkvæmt frásögninni á myndbandsupptökunni ætlaði Jón að gera þetta fyrir náinn vin sinn, Kristján Loftsson, eiganda Hvals hf. Mann sem sonur Jóns lýsti sem einum ríkasta manni landsins. Manni sem væri svo ríkur að hann þurfi „ekki að treysta á banka“. Það ætlaði Jón líka að gera vegna þess að hann væri að hætta í stjórnmálum og hvalveiðileyfi til fimm ára væri góð arfleifð að skilja eftir sig.

„Mun hann verða forstjóri fyrirtækisins? Ég veit það ekki“ 

Í samtalinu greinir sonur Jóns einnig frá för föður síns, sem var þá sem nú þingmaður, á fund Alþjóðahvalveiðiráðsins í september síðastliðnum. Jón hefur sagt opinberlega að hann hafi greitt allan kostnað við ferðina sjálfur. Sonur hans segir hins vegar í myndbandsupptökunni að Jón hafi farið í ferðina að beiðni Kristjáns Loftssonar. „Þannig að hann fór með og auðvitað borgaði pabbi minn flugið til New York en hins vegar ekki restina af ferðinni.“

Í samtalinu við starfsmann alþjóðlega rannsóknarfyrirtækisins lýsti sonur Jóns Gunnarssonar því hvernig þyrfti að standa að leyfisveitingunni. Faðir hans gæti ekki skrifað upp á hana, enda ekki eiginlegur ráðherra, og Bjarni Benediktsson gæti það eiginlega ekki heldur, þar sem skyldmenni hans hafa átt hlut í Hval og föðurbróðir hans var um nokkurn tíma stjórnarformaður þess. Það þyrfti því að fá einhvern annan ráðherra til að skrifa undir leyfisveitinguna. Ýjað var að því að sá einhver yrði Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, utanríkisráðherra og varaformaður Sjálfstæðisflokksins. 

Kristján Loftsson, forstjóri Hvals. Mynd: Skjáskot/RÚV

Undir lok samtalsins var rætt um framtíð Jóns og fyrirtækisins Hvals. „Þegar faðir minn hættir, en bara á þingi, mun hann verða forstjóri fyrirtækisins [Hvals hf.]? Ég veit það ekki.“ Hinn maðurinn í samtalinu spurði á móti hvort Jón Gunnarsson gæti tekið við stjórn Hvals. Sonur þingmannsins svaraði: „Ég veit það ekki,“ brosti og bætti við: „Ef hann vill það.“

Horfið á tunglið, ekki fingurinn

Í starfi mínu sem blaðamaður og ritstjóri þá hef ég mjög oft tekið þátt í afhjúpunum á spillingu af ýmsu tagi. Á dapurlegu en raunverulegu gangverki íslensks samfélags. Oft var um að ræða efni sem einhver hafði aflað með ólögmætum hætti. Brot á lögum um bankaleynd voru til að mynda mjög algeng hjá uppljóstrurum í kringum bankahrunið. Í öllum tilvikum var um vel undirbyggðan fréttaflutning að ræða sem átti ríkt erindi til almennings. Aldrei var efast um að innihaldið væri rétt. Þeir sem um var fjallað, og fylgihnettir þeirra, brugðust nær undantekningarlaust við með því að festa sig í umræðu um formið frekar en efnið. Að gefa í skyn að blaðamenn, sem eiga og mega samkvæmt lögum að taka við upplýsingum og segja af þeim fréttir telji þeir þær eiga erindi við almenning, séu með einhverjum hætti að hafa rangt við. Einbeittu sér að því að fá fólk til að horfa á fing­ur­inn frekar en tunglið. Og ef það er ekki horft á fingurinn þá er fólk bara látið horfa á eitthvað allt annað leikrit. Sú leikjafræði var rækilega dregin fram á ný vegna máls Jóns Gunnarssonar.

Ég ætla hins vegar að halda mig við efnið. Nýjasta opinberunin, þar sem valdamakk um skömmtun gæða á sér stað fjarri augum almennings, sýnir enn og aftur að íslensk stjórnmál eru að allt of stóru leyti persónuleg, ekki fagleg. Það velkist varla nokkur í vafa um að samkomulagið sem Bjarni er sagður hafa gert við Jón og vegferðin sem Jón er sagður í fyrir Kristján, sé ekki samkomulag á grundvelli almannahagsmuna. Svona frændhygli og fúsk er stærsta ástæða þess að traust byggist ekki upp í íslensku samfélagi á ný.

Engin kerfi eru betri en fólkið sem stýrir þeim

Póli­tískt sam­trygg­ing er eitt ömur­leg­asta birt­ing­ar­form hinnar kerf­is­lægu stroku­spill­ingar sem getur verið mjög fyrirferðamikil í sam­fé­laginu okk­ar. Í henni felst að meðvirkni og hagsmunir láta hið besta fólk líta fram hjá van­hæfni, lög­brot­um, svindli og sjálftöku. Það er oft rökstutt með því að það sé ekki hluti af póli­tískri menn­ingu á Íslandi að láta fólk bera ábyrgð á gjörðum sín­um. 

Það er hins vegar hægt að losna við spillingu með því að standa einfaldlega fast gegn henni. Engin kerfi eru betri en fólkið sem stýrir þeim. Vond póli­tísk menn­ing er ekki föst og óbreyt­an­leg breyta. Hún er bara til vegna þess að fólk ákveður að halda henni við. Með sama hætti er hægt að ákveða að kveðja hana fyrir fullt og allt. Það heitir að taka almannahagsmuni fram yfir persónuleg samskipti og sérhagsmuni. 

Það er svo kjósenda að ákveða hvort að hér taki við eftir morgundaginn frjálslynd félagshyggjustjórn sem hafnar svona stjórnarháttum og hreinsar þá út úr kerfunum eða hvort hér verði áfram valdsækin íhaldsstjórn sérhagsmuna og frændhygli líkt og verið hefur meira og minna síðastliðinn rúman áratug. 

Líkt og alltaf þá er valið ykkar. Vonandi veljið þið rétt.

Reply

or to participate.